Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. febrúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um deiliskipulagstillögu Landspítala - þarfagreining hafin

Undirritað hefur verið samkomulag um deiliskipulagstillögu vegna nýbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Það var Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem undirritaði samkomulagið fh. heilbrigðismálaráðuneytisins og fulltrúi danska fyrirtækisins CF Möller sem vann samkeppni um skipulag landspítalalóðarinnar á liðnu ári. Við sama tækifæri var haldinn upphafsfundur framkvæmdanefndar um byggingu Landspítala með hátt á þriðja hundrað starfsmönnum og fulltrúum CF Möllers, en starfsmenn fá veigamikið hlutverk við svokallaða þarfagreiningu vegna hins nýja spítala sem stendur fram eftir ári. Jafnframt verður haft samráð við fulltrúa sjúklingasamtaka. Samningurinn um tillögu að deiliskipulagi og vinna við það tekur til lóðar Landspítala – háskólasjúkrahúss en hún markast af Eiríksgötu, Barónsstíg og nýju Hringbrautinni vestur að Njarðargötu. Leyfilegt heildarbyggingarmagn er rúmlega 170 þúsund fermetrar. Um er að ræða hefðbundið og lögbundið skipulagsferli, sem felur í sér samráð og samvinnu við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og samráð og kynningu gagnvart íbúum. Í framkvæmdanefndinni er Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi, formaður, og Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur sem er varaformaður. Með þeim í nefndinni eru: Kristín Ingólfsdóttir, rektor, Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri, Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri, Magnús Pétursson, forstjóri, og Björn Ingi Sveinsson, verkfræðingur.

Sjá nánar: Ávarp Jóns Kristjánssonar (pdf skjal 76 KB)

                  Nýr Landspítali - fréttatilkynning framkvæmdanefndar (pdf skjal 93 KB)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum