Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. febrúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Um fjörutíu makar bíða eftir vistun

Tæplega fjörutíu manns sem eiga maka á öldrunarstofnun í landinu bíða eftir sambærilegri vistun að sögn Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Þetta kom fram í máli ráðherra þegar hann svaraði þremur spurningum um þetta efni frá Ástu R. Jóhannesdóttur, Samfylkingu, á Alþingi. Tölurnar eru unnar upp úr vistunarmatsskrá þann 23. janúar sl. Í máli ráðherra kom fram eftirfarandi: “Af þeim öldruðum sem nú dvelja á öldrunarstofnunum eru níu pör, þ.e. hjón eða sambúðarfólk, sem ekki eru vistuð á sömu stofnun. Einnig er spurt hve margir hafi verið vistaðir þannig á undanförnum fimm árum og eru það 16 pör samkvæmt upplýsingum úr vistunarskrá aldraðra frá því 1. janúar 2001.

Virðulegi forseti.

Háttvirtur þingmaður spyr hvor mér þyki boðlegt að aðskilja öldruð hjón eða sambýlisfólk á þennan hátt. Ef ég svara þessari spurningu beint þá finnst mér auðvitað slæmt að þetta skuli eiga sér stað. Enda er það svo að þegar einstaklingar í sambúð eða hjónabandi eru báðir í þörf fyrir vistun á öldrunarstofnun er reynt að sjá til þess að þeir geti vistast saman og það er einlægur vilji þeirra sem koma að vistunarmálum aldraðra. Oftast tekst þetta og samkvæmt upplýsingum sem fram komu í svari mínu við fyrirspurn á Alþingi á síðasta Alþingi voru í lok desember 2004 samtals 89 hjón eða pör sem vistuð voru saman á öldrunarstofnun í dvalar- eða hjúkrunarrými. En eins og dæmin sanna reynist ekki alltaf unnt að haga vistun hjóna eða sambýlisfólk á þennan veg þótt viljinn sé fyrir hendi.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði mér eru þau tilvik þar sem hjón eða sambýlisfólk hafa vistast hvort á sinni stofnuninni eða annað þeirra bíður heima eftir vistun, nær alfarið bundin við höfuðborgarsvæðið. Skýringin á þessu er væntanlega helst sú að skortur á vistrýmum fyrir aldraða er mestur í Reykjavík og öll rými á stofnunum jafnan fullskipuð. Samkvæmt reglugerð um þjónustuhóp aldraðra og vistunarmat aldraðra skulu stofnanir sjá til þess við veitingu vistrýma að þeir gangi fyrir sem lengst hafa beðið með mjög brýna eða brýna þörf samkvæmt vistunarmati. Þegar margir bíða í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými er stofnunum því vandi á höndum þegar sambýlisfólk eða hjón óska eftir stofnanavistun og annað þeirra er í mjög brýnni þörf fyrir slíkt úrræði en hitt ekki. Nú er það svo að langstærstur hluti vistrýma á öldrunarstofnunum eru hjúkrunarrými og í raun um sjúkrahúsþjónustu að ræða. Miðað við skipulag stofnanaþjónustu við aldraða og tilgang hjúkrunarrýma getur því orkað tvímælis að vista einstakling á öldrunarstofnun ef meginástæðan fyrir umsókn hans eru veikindi makans.

Einnig má nefna aðstæður þar sem þörf þessara einstaklinga fyrir úrræði eru mjög ólík s.s. ef annað þarf vistun á sérstakri deild fyrir heilabilaða en hitt ekki eða ef annað þeirra þarf mjög mikla hjúkrun og umönnun meðan hinu nægir dvalarrými.

Virðulegi forseti.

Ég hef nú reynt að skýra hvers vegna þær aðstæður koma stundum upp að hjón og sambúðarfólk geta ekki verið samvistum á stofnunum aldraðra. Ég vil hins vegar taka það fram að ég geri ekki lítið úr aðstæðum þess fólks sem fyrir þessu verður og tel slæmt að þetta skuli eiga sér stað.”

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum