Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. febrúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Samið við Reykjalund um víðtæka endurhæfingarþjónustu

Um er að ræða þjónustusamning til fjögurra ára sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og forsvarsmenn Reykjalundar fyrir skemmstu. Greiddar verða um 1200 milljónir króna árlega fyrir þjónustuna sem veitt er á Reykjalundi og er miðað við meðalverðlag fjárlaga 2006. Gengið var frá samningunum á dögunum og er samningurinn við Reykjalund, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, frá 1. janúar 2005 til ársloka 2008. Samkvæmt samningnum kaup heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið endurhæfingarmeðferðir af Reykjalundi, samtals 150 rúm á sjö- og fimm daga deildum og dagdeildum, auk göngudeildarþjónustu. Þar fyrir utan var samið um atvinnutengda endurhæfing fyrir sex sjúklinga hverju sinni og rekstur heimilis að Hlein fyrir sjö mikið fatlaða einstaklinga. Markmið samningsins er að veita bestu mögulegu endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi sem uppfylla á tilteknar kröfur um gæði samkvæmt gæðaáætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá árinu 1999. Stefnt er að því meðal annars að stytta dvalartíma sjúklinga í sjúkrarýmum. Er á samningstímanum stefnt að því að auka göngudeildarstarfsemi þannig að í árslok 2008 verði komur á göngudeild 4500 á ári. Á Reykjalundi fer fram forskoðun, mat og meðferð vegna sjúklinga sem þjást af offitu, m.a. til að undirbúa hluta sjúklinganna undir aðgerðir á Landspítala og endurhæfingu og eftirfylgd lækna og meðferðarteymis á Reykjalundi í allt að tvö ár eftir aðgerð. Meðferð fer fram á göngudeild, dagdeild og legudeild. Stefnt er að því að auka þjónustuna þannig að um eitt hundrað sjúklingar njóti hennar á ári. Á árinu 2005 runnu 20 milljónir króna sérstaklega til þess að geta veitt 60 – 65 sjúklingum með lífshættulega offitu þjónustu. Til að efla þessa þjónustu rennur 30 milljóna króna viðbótarframlag til þessarar þjónustu í ár og 15 milljónir á árinu 2007 og er við það miðað að 90 – 110 sjúklingar fái þjónustu af þessu tagi árlega.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum