Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. mars 2006 Innviðaráðuneytið

Breytt fyrirkomulag við skráningu skipa og þinglýsinga fyrirhugað

Ráðuneytið óskar umsagna varðandi drög að frumvarpi til laga varðandi breytt fyrirkomulag við skráningu skipa og þinglýsingu þeirra.

Tilgangur frumvarpsins er í megindráttum eftirfarandi:

1. Að taka upp samræmdan þinglýsingargagnagrunn fyrir skip í gegnum Landskrá fasteigna, sem er gagna- og upplýsingakerfi á tölvutæku formi, en Fasteignamat ríkisins annast rekstur þess. Með þessu móti er stefnt að því að upplýsingar um skip verði ekki skráðar hjá mörgum opinberum aðilum.

2. Að einfalda framkvæmd þinglýsingar vegna skipa með því að leggja til að færsla þinglýsingarbóka skipa og báta verði hjá einu sýslumannsembætti, sýslumanninum á Ísafirði, í stað 27 sýslumannsembætta eins og nú er. Með því móti er framkvæmd þinglýsinga einfölduð og sköpuð skilyrði til samræmingar og sérþekkingar á þinglýsingum vegna skipa og ekki verður lengur nauðsynlegt að senda frumrit skipsskjala á milli sýslumannsembætta, þegar skip eru seld á milli skráningarumdæma. Eftir sem áður er miðað við að hvert og eitt sýslumannsembætti geti gefið út veðbókarvottorð vegna skipa og báta.

3. Gert er ráð fyrir að sýslumaðurinn á Ísafirði geti móttekið skjöl með rafrænum hætti frá öðrum sýslumannsembættum og fært skjöl í dagbók á grundvelli rafrænna gagna. Tilgangur þessa er að gera þjónustuþega jafn setta án tillits til búsetu, en eigendur skipa eru um land allt.

4. Að tryggja samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skip. Miðað er við að þinglýsingargagnagrunnurinn verði samtengdur aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands og að skrifstofa Siglingastofnunar á Ísafirði verði í húsnæði sýslumannsins á Ísafirði og annist skráningar í aðalskipaskrá og verður því aðalskipaskrá og þinglýsingarbók skipa og báta haldin á einum og sama stað.

5. Að einfalda framkvæmd nauðungarsölu á skráðum skipum með því að þær verði alfarið hjá sýslumanninum á Ísafirði. Nauðungarsala skipa er nátengd þinglýstum kvöðum og eignarheimildum þeirra og þykir eðlilegt að uppboðin fari fram þar sem upplýsingar og gögn um þinglýsingar á skipum er að finna.

Drög að frumvarpi til laga vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa (WORD-60KB)

Umsagnir óskast sendar með tölvupósti á [email protected] eða til Samgönguráðuneytis, Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík fyrir 11. mars 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum