Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. mars 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Samningar um sjúkraflutninga undirritaðir

Gildistími samningsins við Rauða Kross Íslands er frá og með 1. janúar 2006 til og með 31. desember 2010 og er samningurinn endurnýjun á eldri samningi sem rann út um síðustu áramót, þó með ákveðnum breytingum

Samningurinn gerir ráð fyrir að Rauði krossinn útvegi 77 sjúkrabifreiðar og tækjabúnað í þær og þeim dreift á 42 staði á landinu þar sem reknir eru sjúkraflutningar.

Fyrsta árið er framlag Rauða krossins til samningsins 37 m.kr. og lækkar framlagið á samningstímabilinu og verður 17 m.kr. í lok samningstímans. Framlag ráðuneytisins á árinu 2006 er 92 m.kr., á árinu 2007 hækkar framlagið upp í 101 m.kr. og á árunum 2008 til 2010 verður árleg greiðsla ráðuneytisins 112 m.kr.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar greiðist sjúkraflutningur milli sjúkrahúsa að fullu af því sjúkrahúsi sem sendir sjúkling. Fyrir sjúkraflutninga milli sjúkrahúsa utan þéttbýlis hafa verið innheimtar 305 kr. fyrir hvern ekinn kílómeter. Með nýjum samningi við Rauða krossinn lækkar kílómetragjaldið og verður 150 kr. Hækkun á framlagi ráðuneytisins kemur á móti lækkun kílómetragjalds.


Samningur við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er endurnýjun á eldri samningi sem rann út um síðustu áramót. Gildistími samningsins er frá og með 1. janúar 2006 til og með 31. desember 2009. Árleg greiðsla er 360,0 m.kr. miðað við meðalverðlag ársins 2006. Þjónustusvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er allt höfuðborgarsvæðið, en þar er átt við Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð, Seltjarnarnes, Sveitarfélagið Álftanes, Mosfellsbæ, Kjalarnes, Kjósarsýslu og Bláfjallasvæðið.

Á vegum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins eru farnir rúmlega 20 þúsund sjúkraflutningar á ári. Hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er lagður mikill metnaður í menntun og endurmenntun sjúkraflutningamanna. Hjá SHS hefur sjúkraflutningamönnum með bráðatæknamenntun fjölgað og í nýjum samningi er stefnt að enn frekari fjölgun í þeirra röðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum