Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. mars 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Úrskurðir umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytisins

Mál 05100011

Hinn 13. mars 2006 er kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu barst kæra Skútustaðahrepps dags. þann 26. september 2005 vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar dags. 29. júní 2005 þar sem lagst er gegn óskum sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að aðalskipulagi verði breytt þannig að tveimur landeigendum verði heimilað að reisa sér íbúðarhús við Helgavog við Mývatn.

I. Málsatvik og hin kærða ákvörðun

Þann 29. júní 2005 synjaði Umhverfisstofnun erindi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps sem óskaði eftir samþykki stofnunarinnar við að gerðar verði breytingar á aðalskipulagi Skútustaðahrepps þess efnis að iðnaðarsvæði yrði breytt í íbúðarbyggð og þar heimiluð bygging tveggja einbýlishúsa á tveimur 900 fermetra lóðum.

Þann 15. júní 2005 hafði Skútustaðahreppur óskað eftir heimild Umhverfisstofnunar til breytingar á aðalskipulagi Skútustaðahrepps í samræmi við 2. mgr. 3. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 97/2004 en þar segir að leita skuli leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Þó skulu heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða.

Helstu rök stofnunarinnar fyrir niðurstöðu sinni eru að áhersla sé lögð á það í gildandi aðalskipulagi fyrir Skútustaðahrepp að halda svæðinu vatnsmegin við þjóðveginn óbyggðu og ekki sé gert ráð fyrir nýjum byggingarlóðum þeim megin þjóðvegar. Meginsjónarmið í aðalskipulaginu sé að raska sem minnst heildarásýnd svæðisins við vatnið. Stofnunin bendir á að í lögum um verndun Mývatn og Laxár séu þrjú megin atriði lögð til grundvallar við verndun þ.e. verndun líffræðilegrar fjölbreytni, verndun jarðmyndana og verndun landslags. Sérstaklega sé tekið fram að náttúruvernd á svæðinu skuli vera virk einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða. Jafnframt hafi með breytingum á lögum um verndun Mývatn og Laxár verið lögð áhersla á að vernda vatnasvið vatnsins og árinnar. Með tilkomu laga nr. 97/2004 hafi það svæði sem mest ástæða var talin til að vernda verið skilgreint sérstaklega sem verndarsvæði. Stofnunin bendir einnig á að í greinargerð með frumvarpi þeirra laga segi: „Hið sérstæða vistkerfi Mývatns og Laxár hlýtur að vera mjög næmt fyrir hvers konar utanaðkomandi truflunum. Það verður aldrei sterkara en veikasti hlekkur þess, og ber því að gæta ýtrustu varúðar í sambandi við hvers konar mannvirkjagerð og atvinnurekstur, sem ætla má að geti haft neikvæð áhrif á náttúrufar svæðisins. Sérstök lagasetning um takmarkaða náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu virðist ekki aðeins réttlætanleg heldur beinlínis nauðsynleg til þess að auðvelda náttúruverndaraðgerðir á svæðinu." Í lögunum er 200 m verndarlína sett allsstaðar umhverfis Mývatn og með Laxá.

Stofnunin bendir á að færa þurfi góð rök fyrir því ef heimila á nýja íbúðabyggð utan þeirra svæða sem þegar eru samþykkt í aðalskipulagi. Sérstaklega svæða sem einnig séu Mývatns megin við þjóðveginn. Um leið þurfi að færa góð rök fyrir því að slík byggð stangist ekki á við verndarsjónarmið sem sett séu fram í framangreindum lögum og að þau rök hafi ekki verið sett fram.

Aðalskipulag gerir ráð fyrir að hægt sé að skipuleggja 3-5 íbúðarhús á hverri jörð og að áhersla er lögð á að halda svæðinu milli þjóðvegar og Mývatns óbyggðu. Um þetta hafi náðst samkomulag í gildandi aðalskipulagi. Á þessu gætu þó verið undantekningar t.d. þar sem byggð sé fyrir á minna viðkvæmum svæðum. Umhverfisstofnunar telur að ef auka á íbúðabyggð innan 200 m beltis frá vatninu eigi slík byggð að vera bundin við svæði þar sem íbúðarhús séu fyrir þannig að byggt sé á sama kjarna en íbúðarhúsum ekki dreift á fleiri ný svæði. Umhverfisstofnun ítrekar að hún hafi ekki tekið neina afstöðu til þess hvort heimila eigi að auka byggð innan 200 m beltisins en ljóst sé að það belti njóti sérstakrar verndar og að við ákvarðanatöku á framangreindu belti þurfi að horfa til framtíðar með sammögnunaráhrif og markmið laga um vernd Mývatn og Laxá í huga.

Stofnunin bendir á að þau hús sem sýnd séu á teikningum frá Tækniþingi dags. 2. febrúar 2005 séu rétt utan við 50 m línu frá vatninu. Nægt pláss virðist vera fyrir húsin utan 200 m línu frá vatninu, þó breytilegt eftir því hvaðan er mælt. Húsin verða nær þjóðveginum en alls ekki fast við hann og ekki nær en mörg hús í Mývatnssveit. Niðurstaða stofnunarinnar var því sú að leggjast gegn því að leyfi verði veitt fyrir íbúðabyggð við Helgavog. Stofnunin boðaði einnig að hún muni í vinnslu verndaráætlunar taka sérstaklega til umfjöllunar, út frá forsendum sem gefnar eru í lögum nr. 97/2004, landnýtingu þ.m.t. íbúðabyggð innan þess svæðis sem talið er upp í 1. mgr. 2. gr. sömu laga.

Ráðuneytið fór í vettvangsferð með sveitarstjórn Skútustaðahrepps þann 9. janúar 2006 og skoðaði það svæði sem deilt er um.

Yfirferð ráðuneytisins yfir gögn sem bárust vegna stjórnsýslukæru Skútustaðahrepps leiddi í ljós ósamræmi milli röksemda kæranda og tillagna að breytingum á aðaluppdrætti hvað varðar landnýtingu á hinu umdeilda svæði. Ráðuneytið óskaði eftir því við kæranda að hann útskýrði ofangreindan mun og barst ráðuneytinu í framhaldi af því bréf dagsett 26. janúar 2006 með nýjum uppdráttum af tillögu til breytingar á aðalskipulagi og var um að ræða töluverðar breytingar frá þeim sem fylgt höfðu kæru til ráðuneytisins. Ráðuneytið óskaði með bréfi dagsettu 2. febrúar s.l. eftir afstöðu Umhverfisstofnunar um hvort þær breytingar sem hefðu orðið á skipulagsuppdrætti væru slíkar að hún teldi nauðsynlegt að taka nýja ákvörðun í málinu. Í bréfi stofnunarinnar til ráðuneytisins dagsett 8. febrúar sl. segir að breytingin heimili áfram nýja íbúðarbyggð innan 200 m línu frá vatninu og vatnsmegin við þjóðveginn og er það að mati stofnunarinnar ekki í samræmi við almenn verndarmarkmið, hvort sem litið er til laga um vernd Mývatns og Laxár eða gildandi aðalskipulags. Stofnunin ítrekar að hún telji að ákvörðun sem mundi leyfa framangreinda breytingu gæti því verið fordæmisgefandi fyrir nýja staðsetningu íbúðar- og sumarhúsabyggðar innan 200 m frá vatninu og vatnsmegin við þjóðveginn. Umhverfisstofnun telur að líta verði til allra breytinga við Mývatn og á verndarsvæði þess með langtímamarkmið í huga ekki síst í ljósi sammögnunaráhrifa vegna mismunandi landnotkunar og aukins álags á svæðið í heild. Með vísun til framangreindra raka telur stofnunin að nýjar upplýsingar breyti ekki fyrri ákvörðun stofnunarinnar.

II. Kæruatriði og umsagnir um þau

Ráðuneytið óskaði með bréfi dagsettu 10. október 2005 eftir umsögn Umhverfisstofnunnar vegna kæru Skútustaðahrepps. Umsögn stofnunarinnar barst ráðuneytinu með bréfi dagsettu 26. október 2005. Ráðuneytið sendi umsögn Umhverfisstofnunar til kæranda til athugasemda með bréfi dagsettu 17. nóvember 2005. Ráðuneytinu bárust athugasemdir kæranda við fram komna umsögn með bréfi dagsettu 29. nóvember sl.

1. Svæðið nú skilgreint sem iðnaðarsvæði

Kærandi byggir kröfu sína á þeirri röksemd að um áratugaskeið hafi iðnaðarstarfsemi verið rekin við Helgavog en þar séu dælumannvirki Kísiliðjunnar og hluti svæðisins skilgreindur sem iðnaðarsvæði í aðalskipulagi og að engin áform séu uppi að sinni a.m.k um breytingar á iðnaðarsvæðinu utan þess að hluti þess yrði íbúðarsvæði. Í kæru Skútustaðahrepps segir einnig: „Vandséð er hins vegar að búseta í tveimur íbúðarhúsum muni hafa meiri umhverfisáhrif en sú starfsemi sem fram hefur farið við Helgavog í næstum fjóra áratugi. Raunar eru margir sem telja fjölskrúðugu fuglalífi nauðsynlegt að mannaferðir séu í nágrenninu, ekki síst vegna þess að maðurinn haldi óværu fjarri."

Umhverfisstofnun bendir í umsögn sinni á að hvergi hafi komið fram að hún telji að tvö íbúðarhús hafi jafnmikil eða meiri áhrif á náttúru Helgavogs og kísilgúrtaka úr Mývatni og aðstaða í Helgavogi hafi haft á undanförnum áratugum. Umhverfisstofnun ítrekar að í lögum um verndun Mývatns og Laxár séu þrjú meginatriði lögð til grundvallar við verndun, þ.e. verndun líffræðilegrar fjölbreytni, verndun jarðmyndana og verndun landslags. Það sé mat Umhverfisstofnunar að annars vegar eigi að endurheimta svæðið við Helgavog eins og kostur er og námaleyfið gerir ráð fyrir og að ekki eigi að hefja nýja uppbyggingu á svæðinu og rýra þannig gildi þess aftur og gefa fordæmi fyrir byggingum á nýjum svæðum. Umhverfisstofnun telur einnig þá skoðun margra alranga, að fjölbreytt fuglalíf sé að þakka mannaferðum. Stofnunin telur að fjölbreytt fuglalíf sé fyrst og fremst að þakka fjölbreyttum búsvæðum, t.d. að fæðuframboð sé nægjanlegt og þannig að margar tegundir geti nýtt sér það. Einnig að fyrir hendi sé, ef fuglar séu teknir sem dæmi, gott varpland og annað búsvæði fyrir fugla af mismunandi tegundum og sama gildi um aðrar dýrategundir. Stofnunin telur hins vegar að mannaferðir geti hjálpað til við að halda burtu dýrum eins og mink, þó ólíklegt sé að það eitt dugi nema rétt á meðan á þeim stendur, en þær geti einnig verið truflandi og þrengt að búsvæðum.

Í athugasemdum kæranda við fram komna umsögn bendir hann á að ekki verði séð hvaða jarðmyndanir séu í hættu vegna byggingar íbúðarhúsanna tveggja þar sem öllu landi sem rætt hafi verið um hafi verið umturnað eftir iðnaðarstarfsemi undangenginna áratuga.

2. Meginreglur gildandi aðalskipulags Skútustaðahrepps

Kærandi telur að það sem segir í aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1996-2015 (sem staðfest var af umhverfisráðherra þann 31.12.1997) að áhersla sé lögð á að halda svæðinu vatnsmengin við þjóðvegin fríu frá íbúðarbyggð og að ekki sé gert ráð fyrir nýjum byggingarlóðum þeim megin þjóðvegar eigi ekki við um það svæði sem óskað er að breytingar nái fram að ganga. Þar sé einungis talað um svæðið „frá Helgavogi norður undir Grímsstaði" en ekki hafi verið átt við Helgavoginn sjálfan þar sem dælumannvirki Kísiliðjunnar hafi risið þremur áratugum áður en aðalskipulagið var samþykkt. Ennfremur kemur fram í kæru Skútustaðahrepps á bls. 1 og 2 að texti á bls. 63 í aðalskipulagi eigi ekki við um Helgavog.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að þessi texti eigi við um Helgavog líka. Sérstaklega þegar litið sé til þess að iðnaðarsvæðið hafi verið þá þegar fyrir hendi og ekki ástæða til að auka enn meira byggingarmagn á svæðinu. Einnig að ljóst sé af texta gildandi aðalskipulags að stefnan sé í öllum tilfellum að byggja ekki vatnsmegin við þjóðveginn.

Í athugasemdum sínum telur kærandi útskýringar Umhverfisstofnunar varðandi þetta atriði haldlitlar og telur augljóst að ekki sé átt við Helgavoginn í hinum tilvitnaða texta heldur svæðið frá Helgavogi norður undir Grímsstaði og að því svæði hafi engum hugkvæmst að raska til þessa.

3. Námuleyfi Kísiliðjunnar

Kærandi telur að Umhverfisstofnun hafi í röksemdum sínum einungis tekið tillit til 1. málsl. 11. liðs námaleyfis Kísiliðjunnar frá 7. apríl 1993 en ekki 2. málsl. Málum sé þannig háttað við Helgavog að mannvirki sem standa við voginn og tilheyrðu Kísiliðjunni hafi nú verið seld og til standi að nýta þau til annarrar starfsemi í framtíðinni. Því hafi kærandi ekki í hyggju að breyta gildandi aðalskipulagi að öðru leyti en að hluti iðnaðarsvæðisins verði tekinn undir íbúðarsvæði. Kærandi segir ennfremur: „Um áratugaskeið hefur iðnaðarstarfsemi verið rekin við Helgavog en þar eru dælumannvirki Kísiliðjunnar og hluti svæðisins skilgreindur sem iðnaðarsvæði í aðalskipulagi og engin áform uppi að sinni a.m.k. um breytingar á iðnaðarsvæðinu utan þess að hluti þess yrði íbúðarsvæði."

Umhverfisstofnun bendir í umsögn sinni á að grundvöllur þess að skipuleggja iðnaðarsvæði í Helgavogi byggi á námaleyfi frá 7. apríl 1993. Það leyfi hafi átt að gilda til 2010 og falli sjálfkrafa úr gildi ef kísilgúrtöku yrði hætt í samfellt þrjú ár skv. 9. lið leyfisins. Eins og öllum sé kunnugt hafi kísilgúrtöku nú þegar verið hætt frá 13. ágúst 2004, og niðurrif verksmiðjunnar sé þegar langt komið og áform uppi um aðra nýtingu á því húsnæði sem eftir verði. Engar líkur séu á að kísilgúrtaka úr Mývatni hefjist að nýju.

Umhverfistofnun gerir alvarlegar athugasemdir við þá afstöðu Skútustaðahrepps að síðari málsl. 11. liðs námaleyfis Kísiliðjunnar eigi við um mannvirki á bökkum vatnsins á iðnaðarsvæðinu og bendir á að ástæða þess að hluti 11. liðar sé ekki tekinn með í framangreindu bréfi stofnunarinnar sé sú að það sem þar komi fram eigi ekki beint við um náttúruvernd í Helgavogi. Fyrri hluti fyrsta málsl. segi hver skuli bera kostnað við að fjarlægja mannvirki af bökkum Mývatns og seinni málsl. eigi auðsjáanlega við önnur mannvirki en þau sem séu á bökkum Mývatns enda sé það ástæða þess að 11. liður sé í tveimur setningum. Það sé því röng túlkun Skútustaðahrepps að hér sé um mögulega nýtingu mannvirkja í Helgavogi að ræða. Umhverfisstofnun bendir einnig á í þessu sambandi að námaleyfið sé sérstakt leyfi sem beri að fara eftir og að engin heimild sé í því til að framselja leyfið í heild sinni enda komi það skýrt fram í 10. lið þess: „Félaginu er óheimilt að framselja þetta leyfi, hvort heldur í heild eða hluta." Að mati Umhverfisstofnunar er það grundvallaratriði að námaleyfið sé virt sem slíkt og í ljósi sögu námaleyfis Kísiliðjunnar og nýrra laga um vernd Mývatns og Laxár. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi því ekki heimild að mati stofnunarinnar til að veita leyfi er varði mannvirki Kísiliðjunnar í Helgavogi ef þau gangi gegn framangreindu námaleyfi og að auki þurfi að leita leyfis Umhverfisstofnunar. Sátt um námaleyfið byggði m.a. á því að við lok kísilgúrtöku úr Mývatni væri skylt að fjarlægja öll mannvirki á bökkum Mývatns og stefnt væri að endurheimt upprunalegs ástands eins og kostur sé. Hvergi komi fram hver sé hugsanleg framtíðarnýting mannvirkjanna og ekki verði um neina nýtingu þeirra að ræða nema farið sé að þeim lögum sem gildi um svæðið hverju sinni.

Í athugasemdum kæranda við fram komnar umsagnir kemur fram að kærandi telur að 11. liður námaleyfis Kísiliðjunnar hafi verið orðaður eins og raun ber vitni til að nýta mætti mannvirki sem þegar væru fyrir hendi til atvinnusköpunar í kjölfar þess að kísilgúrtöku yrði hætt. Nú sé staðan sú að hluti mannvirkja í Helgavogi verði nýtt í tengslum við fyrirhugaða brettaverksmiðju og því verði skipulagt iðnaðarsvæði að hluta til við Helgavog til næstu framtíðar. Nýtanleg mannvirki verði ekki rifin og ný byggð í staðinn til að þjóna duttlungum enda væri um sóun að ræða.

4. Samantekt

Kærandi telur með vísun til röksemda sinna engin rök vera fyrir þeirri niðurstöðu Umhverfisstofnunar að hafna ósk sveitarstjórnar um breytingu á aðalskipulagi í þá veru að tveimur landeigendum verið heimilað að reisa sér íbúðarhús við Helgavog. Kærandi bendir á að sveitarstjórn hafi alla tíð farið í hvívetna eftir þeim sérlögum sem gildi um verndun Mývatns. Telur kærandi synjun Umhverfisstofnunar byggða á veikum rökum og byggjast á þekkingarleysi á staðháttum.

Í umsögn Umhverfisstofnunar bendir hún á að það svæði sem hér sé til umfjöllunar sé verndarsvæði sem um gildi sérstakar reglur skv. lögum og að stofnuninni sé ásamt sveitarfélaginu falið það hlutverk að vera leyfisveitandi og að stofnunin þurfi einnig að staðfesta skipulag. Þetta sé gert til að gæta „hagsmuna" náttúruverndarsjónarmiða í víðum skilningi fyrir Mývatn og Laxá og nánasta umhverfi. Stofnunin bendir á að leita skuli leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geti áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Þó skuli heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um ræði. Meginreglan sé sú að framkvæmdir séu óheimilar ef þær valdi spjöllum eða raski lífríki o.s.frv. Umhverfisstofnun telur sig hafa fært margvísleg rök fyrir afstöðu sinni gagnvart nýrri byggð í Helgavogi, og hafnar því alfarið að hún sé fram borin af þekkingarleysi enda sé sveitarstjórn Skútustaðahrepps fullkunnugt um að þeir sem hafi unnið umsögnina hafi áralanga þekkingu og reynslu af að vinna með málefni Mývatns og Laxár auk þess sem mikið af gögnum sé til um vatnið og nágrenni þess.

Kærandi bendir í athugasemdum sínum við fram komnar umsagnir á að hann sé sammála þeirri meginreglu laga nr. 97/2004 að framkvæmdir séu óheimilar ef þær valdi spjöllum eða raski lífríki o.s.frv. en telur að meginreglan eigi ekki við um þær skipulagsbreytingar sem nú sé óskað eftir og valdið hafi ágreiningi við Umhverfisstofnun.

III. Niðurstaða um kæruatriði

Kærandi bendir í kæru sinni á að um áratugaskeið hafi verið rekin iðnaðarstarfsemi við Helgavog og að hluti svæðisins sé skilgreindur sem iðnaðarsvæði í aðalskipulagi. Ekki séu áform um að breyta aðalskipulagi nema hvað varðar þær breytingar sem nú séu lagðar til þ.e. að hluta iðnaðarsvæðis verði breytt í íbúðarsvæði. Umhverfisstofnun bendir á að í lögum um verndun Mývatns og Laxár séu þrjú meginatriði lögð til grundvallar við verndun, þ.e. verndun lífræðilegrar fjölbreytni, verndun jarðmyndana og verndun landslags. Það sé mat stofnunarinnar að endurheimta eigi svæðið við Helgavog og að ekki eigi að hefja nýja uppbyggingu á svæðinu og rýra þannig gildi þess aftur og gefa fordæmi fyrir byggingum á nýjum svæðum.

Í 2. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 97/2004 er gildissvið laganna m.a. afmarkað af 200 m belti meðfram Mývatni öllu. Um það svæði gilda því sérstakar reglur sbr. 3. gr. laganna en þar segir að óheimilt sé að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Í 2. mgr sömu greinar er kveðið á um heimild Umhverfisstofnunar til að leyfa framkvæmdir sem haft geta áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á hinu verndaða svæði. Þó eru heimilar án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um ræði. Ótvírætt er því að Umhverfisstofnun getur leyft framkvæmdir innan 200 metra svæðisins. Umhverfisstofnun fellst hins vegar ekki á að leyfa framkvæmdir skv. hinni kærðu ákvörðun þar sem ný byggingarsvæði muni að mati stofnunarinnar kalla á aukna umferð, fleiri vegi, aukna mengun, breytingu á landslagi, breytingu á jarðmyndunum, breytingu á búsvæðum o.s.frv. Umhverfisstofnun leggst því gegn því að gefa fordæmi fyrir nýjum byggingarsvæðum innan 200 m línu frá vatninu og alls ekki á svæðum vatnsmegin við þjóðveginn nema sérstakar ástæður liggi þar að baki svo sem að þar sé byggð fyrir, sbr aðalskipulag. Stofnunin telur að í kjölfar slíks leyfis gætu fylgt umsóknir um bæði íbúðarhús á fleiri nýjum svæðum og umsóknir um sumarbústaðalönd umhverfis vatnið.

Ráðuneytið telur að sú breyting sem lögð er til á aðalskipulagi og sætir kæru hér geti ekki verið fordæmisgefandi um aðra byggð innan 200 metra línu frá bakka Mývatns. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er það svæði sem óskað er eftir að breytt verði í íbúðabyggð nú ætlað undir iðnaðarstarfsemi. Þar eru nú til staðar hús og önnur mannvirki tengd hinni aflögðu iðnaðarstarfsemi. Heimild fyrir tveimur íbúðarhúsum á landsvæði sem nú er ætluð undir iðnaðarstarfsemi getur því að mati ráðuneytisins ekki verið fordæmisgefandi um aðrar framkvæmdir innan 200 m línu frá vatninu þar sem svæðið er það eina sem nú er ætlað undir iðnaðarstarfsemi og hefur auk þess þegar verið raskað. Ráðuneytið er hins vegar sammála Umhverfisstofnun um að meginreglan eigi að vera að ekki skuli heimila nýja byggð innan 200 m línu frá bakka vatnsins.

Hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á lífríki, jarðmyndanir og landslag bendir kærandi á að húsin sem fyrirhugað sé að byggja séu á löngu umturnuðu holti og túni og að á svæðinu sé ekkert óraskað land. Umhverfisstofnun telur nýja íbúðarbyggð innan 200 m línu frá vatninu og vatnsmegin við þjóðveginn ekki í samræmi við almenn verndarmarkmið, hvort sem litið sé til laga um vernd Mývatns og Laxár eða gildandi aðalskipulags. Auk þess telur stofnunin að líta verði til allra breytinga við Mývatn og á verndarsvæði þess með langtímamarkmið í huga og þá sérstaklega í ljósi sammögnunar áhrifa vegna mismunandi landnotkunar og aukins álags á svæðið í heild. Ráðuneytið bendir á að umrætt svæði er nú þegar raskað og er samkvæmt gildandi skipulagi ætlað undir iðnaðarstarfsemi. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 með síðari breytingum er tekið fram í gr. 4.7.1. að á iðnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin sé geta haft mengun í för með sér, s.s. verksmiðjum, virkjunum, tengivirkjum, veitustöðvum, skólpdælu- og hreinsistöðvum, birgðastöðvum fyrir olíur og móttökustöðvum fyrir úrgang. Að mati ráðuneytisins er breyting hluta svæðisins úr iðnaðarsvæði í íbúðarsvæði til þess fallin að draga úr álagi á umrætt svæði, að því gefnu að einungis verði reist þar umrædd tvö íbúðarhús og ítrustu kröfum um mengunarvarnir fylgt við gerð og rekstur þeirra. Ráðuneytið leggur áherslu á að ítrustu kröfur verði gerðar um mengunarvarnir og þá sérstaklega frárennsli frá hinum fyrirhuguðu íbúðarhúsum. Ráðuneytið bendir einnig á að vegur er á umræddu svæði og að ekki er fyrirhugað að loka honum. Telur ráðuneytið að umferð til og frá tveimur íbúðahúsum muni ekki fela í sér mikla aukningu frá núverandi umferð um veginn. Ráðuneytið bendir á að fyrirhuguð staðsetning uppfyllir ákvæði gr. 4.15.2 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um að þess skuli gætt að ekki sé byggt nær vötnum, ám eða sjó en 50 m og að ekki verði hindruð leið fótgangandi meðfram þeim. Með hliðsjón af því sem að ofan greinir og því að umræddu svæði hefur þegar verið raskað telur ráðuneytið að umrædd breyting á aðalskipulagi fari ekki í bága við meginmarkmið laga um verndun Mývatns og Laxár nr. 97/2004 um að framkvæmdir séu óheimilar ef þær valdi spjöllum eða raski lífríki, jarðmyndunum og landslagi.

Kærandi gerir athugasemdir við að Umhverfisstofnun hafi í röksemdum sínum ekki tekið tillit til alls 11. liðar námuleyfis Kísiliðjunnar frá 7. apríl 1993. Ráðuneytið telur að ágreiningur um frágang mannvirkja skv. námuleyfi Kísiliðjunnar varði ekki úrlausn máls þessa enda eigandi þessara mannvirkja ekki aðili að kæru þessari.

Úrskurðarorð

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. júní 2005. Ráðuneytið fellst á að reist verði tvö íbúðarhús við Helgavog eins og gert er ráð fyrir í tillögu að breytingu á aðalskipulagi á landi sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi er iðnaðarsvæði. Tryggt skal að fylgt verði ítrustu kröfum um mengunarvarnir frá hinum leyfðu íbúðarhúsum við gerð og rekstur þeirra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum