Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. mars 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Hreyfing sem meðferðarúrræði

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hvatti til þess að fólk hreyfði sig reglulega og bætti með því sjálft heilsufar sitt. Þetta kom fram í máli ráðherra sem svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi. Fram kom að á heilsugæslustöðinni í Garðabæ væri hafinn undirbúningur að því að innleiða notkun á sérstökum hreyfiseðli þar sem læknar vísa völdum hópi sjúklinga á hreyfingu sem meðferðarúrræði. Undirbúningur að því verkefni hófst síðast liðið haust og samstarf er hafið milli heilsugæslunnar og bæjarfélagsins. Stefnt er að samvinnu við sjúkraþjálfara, almenningsíþróttadeild íþróttafélagsins Stjörnunnar, sundstaði bæjarins og fleiri. Stefnt er að því að bjóða upp á Hreyfiseðilinn sem meðferðarúrræði í Garðabæ strax haustið 2006.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mun fylgjast náið með framgangi þessa verkefnis. Ráðherra sagði í svari við fyrirspurninni m.a.: “Að mínu mati er mjög mikilvægt að samfélagið í heild stuðli að aukinni hreyfingu almennings einnig áður en veikindi steðja að, því betra er heilt en vel gróið. Því er æskilegt að umhverfið sé þannig úr garði gert að það hvetji til hreyfingar, til dæmis með því að skipuleggja samgöngu­mannvirki þannig að auðvelt og öruggt sé að ferðast gangandi eða hjólandi milli staða. Einnig felst hvati til hreyfingar í því að hafa góða göngustíga og hjólastíga sem víðast í og við þéttbýli, sem nýtast einstaklingum og fjölskyldum til útivistar í frítíma.”

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði sex fyrirspurnum í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.

 

Sjá nánar svör ráðherra við fyrirspurnum á Alþingi:

Hreyfing sem valkostur í heilbrigðisþjónustunni

Endurskoðun laga um málefni aldraðra

Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Sjúkrahústengd heimaþjónusta

Spurt um áfengisráðgjafa

Staðsetning sjúkraflugvéla



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum