Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. mars 2006 Innviðaráðuneytið

Eigendaskipti bifreiða á Netinu

Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis seldi Sturlu Böðvarssyni dráttarvél.

Í gær kynntu Umferðarstofa og Glitnir nýja netþjónustu sem gefur almenningi kost á að færa eigendaskipti bifreiða á Internetinu. Blaðamönnum var sýnd virkni kerfisins þegar Sturla Böðvarsson keypti glæsilega dráttarvél af Bjarna Ármannssyni.

Umferðarstofa sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í tilefni þessa.

Byltingarkennd nýjung í netþjónustu
Umferðarstofu er það sönn ánægja að kynna nýstárlega netþjónustu sem þróuð er í samstarfi við Glitni og auðveldar mjög frágang og framkvæmd eigendaskipta á ökutækjum. Það er óhætt að segja að um byltingarkennda nýjung í netþjónustu sé að ræða.
Það hefur ætíð verið metnaður og markmið Umferðarstofu að veita bestu þjónustu sem völ er á hverju sinni og sníða hana að margbreytilegum þörfum og kröfum viðskipavinarins. Í ljósi þessa og yfirlýstrar stefnu fjármálaráðuneytisins um einfalda, skilvirka og framsýna stjórnsýslu sem stuðlar að aukinni arðsemi í samfélaginu var þessi þjónusta sett á fót.

Hagkvæmara og einfaldara fyrirkomulag
Nú gefst viðskiptavinum Umferðarstofu kostur á að nota Netið til að ganga frá viðskiptum sem hingað til hafa krafist undirritunar á hefðbundið umsóknareyðublað. Þetta sparar ferðalög, tíma og fyrirhöfn.

Dæmi um ferli viðskiptanna
Eigendaskipti ökutækis geta framvegis gengið þannig fyrir sig að viðskiptavinurinn fer inn á heimasíðu Umferðarstofu www.us.is og velur þar „Sjálfsafgreiðsluvef” þar sem eigendaskiptin eru skráð. Síðan fer viðskiptavinurinn inn á Netbanka Glitnis og gengur þar frá staðfestingu á viðskiptunum og greiðslu. Með notkun notandanafns og aðgangsorðs í Netbankann fæst fullnægjandi staðfesting á deili viðkomandi aðila. Öllum hlutaðeigandi aðilum eigendaskiptanna gefst síðan kostur á að fá staðfestingu á framgangi mála með SMS-skeytum eða tölvupósti.

Rafræn persónuauðkenni - staðfesta hver þú ert
Helsta nýjungin við þetta kerfi er að nú er hægt að veita rafrænt persónuauðkenni þannig að viðskiptavinurinn þarf ekki að fara langan veg til að staðfesta hver hann er. Í raun má segja að hann geti veitt „rafræna undirskrift” hvar sem er í heiminum.

Auðvelt, þægilegt og fljótlegt
Hjá Umferðarstofu eru árlega færð 80-100 þúsund eigendaskipti á bifreiðum. Það er því ljóst að það er mikill hagur í því að auðvelda og stytta framkvæmd eigendaskipta ökutækja. Var því ákveðið að vefvæðing framkvæmdar eigendaskipta yrði fyrsta skrefið í átt að 100% vefþjónustu.

Aðrir fá notið þessar þróunar - endurgjaldslaust
Fyrirtæki og stofnanir munu geta nýtt sér þá vinnu sem Umferðarstofa og Glitnir hafa lagt í þróun þessarar vefþjónustu endurgjaldslaust til eflingar og umbóta á sinni þjónustu . Þetta nýja fyrirkomulag getur nýst t.d. við staðfestingu atvinnuumsókna, leyfisveitingu, staðfestingu tilboða og almennt við allt sem hægt er að framkvæma á Netinu og krefst persónuauðkenningar.

Fyrir alla – allstaðar
Fyrstu vikurnar verður aðeins boðið upp á staðfestingar í Netbanka Glitnis, en Umferðarstofa hefur þegar sett sig í samband við aðra banka og sparisjóði með það að markmiði að þeir geti jafnframt boðið viðskiptavinum sínum upp á þessa þjónustu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum