Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. mars 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi UST

Sigríður Anna ávarpar ársfund Umhverfisstofnunar
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra ávarpar ársfund Umhverfisstofnunar

Ágætu ársfundargestir.

Viðfangsefni Umhverfisstofnunar eru bæði mörg og margbreytileg. Stofnunin fæst við með mál sem eru svo fjölbreytt að þau eru falin mörgum stofnunum í nágrannalöndunum. Satt að segja sýnist mér ólíklegt að nokkur stofnun í stjórnkerfinu spanni jafn stórt verksvið og Umhverfisstofnun. Því er afar mikilvægt að stofnunin kynni starfsemi sína með þeim hætti sem hér er gert m.a. til þess að halda góðum tengslum við þá aðila sem eru að fjalla um mál á þessum vettvangi ekki síst starfsmenn sveitarfélaganna og aðra hagsmunaaðila.

Verksvið stofnunarinnar spannar hollustuhætti og mengunarvarnir, náttúruvernd, mengun hafs og stranda, matvæli, erfðabreyttar lífverur, eiturefni og hættuleg efni, verndun, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum auk dýraverndar. Þessu til viðbótar hafa stór og mikil verkefni lent á stofnuninni vegna EES-samningsins á sviði umhverfismála, matvælamála og mála sem snerta efni og efnavörur. Ráðuneytið hefur leitast við að styrkja rekstrargrundvöll stofnunarinnar til þess að mæta auknum verkefnum m.a. vegna framkvæmdar EES-samningsins og á sviði náttúruverndarmála.

Að samkomulagi hefur orðið milli ráðuneytisins og stofnunarinnar að ráðist yrði í stjórnsýsluúttekt á starfsemi hennar og fer sú úttekt nú fram á vegum Ríkisendurskoðunar. Niðurstaðna er að vænta í vor eða snemma sumars og ætti þá að vera hægt að gera sér betri mynd af því hvernig hægt verður að sinna þessum málaflokkum í næstu framtíð og enn fremur hvort ástæða sé til að breyta stjórnskipulagi stofnunarinnar sérstaklega með hliðsjón af þeim megin verkefnum sem hún annast.

Jón Gunnar Ottóssson, Árni Bragason, Magnús Jóhannesson, Sigríður Anna Þórðardóttir og Ingimar SigurðssonÁ síðastliðnu ári tók ég ákvörðun um að gerð yrði úttekt á framkvæmd reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti í því skyni að einfalda leyfisveitingar og eftirlit. Var þetta gert í framhaldi af áherslum atvinnulífsins sem m.a. tóku til leyfisveitinga, eftirlits og gjaldtökumála á sviði hollustuhátta og mengunarvarna og gefnar voru út í skýrslu í maí 2005. Þar komu fram ábendingar um ýmsa þætti s.s. um margfalt og strembið leyfisveitingakerfi og mismunandi gjaldtökur heilbrigðiseftirlitsins eftir svæðum. Til verksins var fenginn lögfræðingur utan ráðuneytisins sem hefur skilað skýrslu um möguleika á einföldun kerfisins. Á næstunni verður, í samráði við þá sem málið snertir, hugað að nauðsynlegum breytingum á lögum og reglugerðum með það að markmiði að einfalda ferli leyfisveitinga og eftirlits og þarf þar sérstaklega að líta til gjaldtöku með það fyrir augum að samræmis sé gætt í landinu.

Undanfarið hafa staðið yfir umræður um framtíðarskipan matvælaeftirlits hér á landi með það í huga að einfalda stjórnskipunina og að þau mál verði sett undir einn lagabálk, eitt ráðuneyti og eina stofnun. Enn hafa engar ákvarðanir verið teknar í þessu skyni en sem stendur er á vegum nefndar forsætisráðherra unnið að endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands m.a. með það fyrir augum að fækka ráðuneytum. Ég tel ljóst að matvælamálin hljóti að koma þar mjög við sögu.

Að undanförnu hafa verið í gangi umræður og vinna við framkvæmd matvælalöggjafar Evrópusambandsins sem ætlunin er að taka upp í EES-samninginn og lögfesta hér á landi. Hér er fyrst og fremst um að ræða hollustuhátta- og eftirlitsmál á þessu sviði. Undir forystu umhverfisráðuneytisins er nú unnið að því máli í samráði við önnur ráðuneyti.

Einnig vil ég nefna að lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp um Matvælarannsóknir hf. þar sem lagt er til að starfsemi á sviði Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, MATRA; sem er samstarfsverkefni Iðntæknistofnunar Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar verði sameinaðar í einu fyrirtæki Matvælarannsóknum hf. Lengi hefur staðið til að sameina matvælarannsóknir á vegum hins opinbera og var ákveðið að það yrði gert með stofnun hlutafélags um starfsemina.

Ég tel ótvíræðan kost fólginn í því að sameina þessa starfsemi og er gengið út frá því að hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir þ. á m. Umhverfisstofnun geri samninga við fyrirtækið um rannsóknir.

Á vegum ráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á náttúruverndar­málin og vísa ég þar sérstaklega til náttúruverndaráætlunar fyrir árin 2004 til og með 2008 en Umhverfisstofnun í náinni samvinnu við ráðuneytið vinnur að framkvæmd áætlunarinnar. Þegar hefur verið friðað eitt svæði af þeim 14 sem áætlunin gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. Guðlaugstungur, Álfgeirstungur og Svörtutungur en í samráði við heimamenn var svæðið stækkað verulega frá þeim tillögum sem komu fram í áætluninni. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega fyrir þá vinnu og ég veit að vinnu við önnur svæði miðar vel áfram.

Unnið er að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og er sú vinna vel á veg komin. Reiknað er með að frumvarp verði lagt fram á næsta þingi. Gefin hefur verið út ný friðlýsing fyrir Surtsey í tengslum við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að sótt verði um að eyjan verði sett á heimsminjaskrá UNESCO. Sem stendur er unnið í ráðuneytinu að verndun hverastrýta á hafsbotni í Eyjafirði og kúluskíts í Mývatni sem eru einstök fyrirbæri á heimsvísu. Þessu tengist einnig framhald vinnu við rammaáætlun um vatnsafl og jarðvarma en þegar er hafin vinna við 2. áfanga þar sem sérstök áhersla verður lögð á verndarþáttinn, ekki síst háhitasvæðin og landslagsvernd. Þeirri vinnu á að ljúka á árinu 2009 en gert er ráð fyrir áfangaskýrslu vorið 2007.

Góðir áheyrendur

Eins og ykkur er kunnugt hefur verið ákveðið að kanna á völdum svæðum hvort hægt sé að útrýma mink. Sérstök umsjónarnefnd annast verkefnið og í henni eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga auk þess sem með nefndinni mun starfa ráðgjafarhópur fulltrúa Umhverfisstofnunar, Náttúrufræði­stofnunar Íslands og Bændasamtaka Íslands auk annarra aðila með sérþekkingu á málinu. Á þessu ári og næstu tveimur hefur verið ákveðið að verja til verkefnisins samtals 135 milljónum króna. Gert er ráð fyrir því að áður en átak hefst fari fram rannsóknir og vöktun á minkastofninum á þeim svæðum sem valin verða og er reiknað með að þau verði tvö eða þrjú. Á grundvelli upplýsinga sem aflað verður í ár verða veiðar skipulagðar og munu þær hefjast snemma vors 2007.

Helstu nýmæli í lögum á sviði umhverfismála er að finna í lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda. Sérstakur starfshópur undirbjó gildistöku laganna í samráði við Umhverfis­stofnun. Fjölmargar reglugerðir hafa verið settar eða eru í burðarliðnum til þess að tryggja framkvæmd laganna og vil ég þar sérstaklega nefna nánari útfærslu á þeim ákvæðum þeirra sem fjalla um hlutlæga ábyrgð og vátryggingar. Reglugerð þar að lútandi hefur verið sett í nánu samstarfi við Samband íslenskra tryggingafélaga. Þar er í fyrsta sinn kveðið á um hlutlæga ábyrgð og vátryggingarskyldu í íslenskum umhverfisrétti þ.e.a.s. í þeim tilvikum þar sem um er að ræða olíuflutninga eða flutning á hættulegum efnum. Í ráðuneytinu er að hefjast vinna við lögleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um umhverfisábyrgð að svo miklu leyti sem hún fellur undir EES-samninginn og skv. henni verður einnig gerð krafa um hlutlæga ábyrgð vegna ýmissa umhverfisþátta.

Fuglaflensa og hugsanlegar afleiðingar hennar hefur verið mjög til umfjöllunar í vetur. Umræðan hefur ekki beinst sérstaklega að umhverfisþáttum, sem þó eru vissulega mikilvægir svo sem þættir er lúta að matvælum. Þau mál falla undir starfsemi umhverfisráðuneytis og Umhverfisstofnunar og þarf að vanda til verka. Á vegum ríkisstjórnarinnar er starfandi ráðuneytisstjóranefnd sem fjallar um þessi mál þar sem ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins á sæti. Umhverfisstofnun hefur verið í nánu samstarfi við Landbúnaðar­stofnun og Sóttvarnalækni um varnir og viðbrögð. Þau viðbrögð sem hér um ræðir snúa fyrst og fremst að matvælaframleiðslunni, hvernig taka eigi á úrgangi og einnig að veiðum á villtum fuglum í íslenskri náttúru. Ég tel að stjórnvöld hafi skipulagt þessi mál með þeim hætti að hægt verði að bregðast við með viðeigandi ráðstöfunum ef takast þarf á við þennan vanda hér á landi, sem alls ekki er hægt að útiloka.

Í gær kynnti ég á blaðamannafundi frumvarp til laga um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda ásamt líkani um losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2020. Umhverfisstofnun hefur unnið líkanið og verður farið yfir það hér á eftir svo ég mun ekki gera því efnisleg skil. Líkanið kemur að afar góðum notum við mat á horfum í loftslagsmálum landsins og til að draga upp sviðsmyndir af mögulegri þróun losunar gróðurhúsalofttegunda. Ég tel að í þessari vinnu hafi tekist afar vel til að hanna öflugt tæki sem styrkir okkur í því að halda sem best utan um loftslagsmálin til framtíðar. Ég vænti þess að frumvarpið verði að lögum í vor og styrkir það enn frekar losunarbókhald Umhverfisstofnunar og skapar styrka lagastoð fyrir öflun nauðsynlegra upplýsinga um losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

Ágætu ársfundargestir.

Ég hef hér á undan farið yfir nokkur af stærri málum sem eru til umfjöllunar í umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun og eins og þið heyrið eru þau mörg hver býsna stór. Í Umhverfisstofnun starfar úrvals starfslið sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á þeim veigamiklu málaflokkum sem stofnunin annast. Ég þakka ykkur öllum einstaklega ánægjulegt samstarf og hlakka til að takast á við þau mörgu og spennandi verkefni með ykkur sem fram undan eru og óska Umhverfisstofnun velferðar í ábyrgðarmiklum störfum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum