Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. mars 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Brugðist við afsögn hjartalækna af samningi

Sérfræðingar í hjartalækningum hafa sagt sig af samningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (SHTR). Samningurinn tekur til verka sem unnin eru á einkastofum hjartalæknanna sem taka verktakagreiðslur fyrir unnin verk, en Tryggingastofnun ríkisins sér um greiðslur til verktakanna.

Hjartalæknar sögðu sig af samningnum með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti og tekur uppsögnin gildi 1. apríl, eða á morgun laugardag. Árangurslausar samningaviðræður hafa staðið milli hjartalækna og samninganefndar HTR upp á síðkastið, bæði formlegar og óformlegar.

Sjúkratryggingaréttur almennings til niðurgreiðslna kostnaðar vegna þjónustu sérfræðilækna er háður því að verktakasamningur læknis og samninganefndar HTR sé í gildi.

Með því að hjartalæknar segja sig af verktakasamningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar HTR, sem gerður var fyrir rúmu ári til þriggja ára, eða til 31. mars 2008, verður sjúkratryggingaréttur almennings ekki tryggður í viðskiptum við þessa sérfræðilækna þar sem samningurinn tryggir rétt sjúklinga til endurgreiðslu TR.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur því ákveðið að koma á valfrjálsu endurgreiðslukerfi til að tryggja þennan rétt almennings til endurgreiðslna kostnaðar við heimsóknir til hjartasérfræðinga, sem ekki starfa á grundvelli verktakasamnings Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar HTR.

Kjarni hins valfrjálsa endurgreiðslukerfis felst í að heilsugæslu- eða heimilislæknir þarf að skoða og meta sjúkling og vísa til hjartalæknis til þess að viðkomandi fái endurgreiddan kostnað í samræmi við sjúkratryggingarétt sinn sem hann verður fyrir vegna heimsóknar til hjartalæknis sem ekki er á verktakasamningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar HTR.

Sjúklingur sem kýs að láta ekki reyna á það hvort hann getur fengið úrlausn vanda síns hjá heilsugæslulækni og notfærir sér þjónustu hjartalæknis, sem ekki er á verktakasamningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar HTR, greiðir sjálfur fyrir þjónustu hjartalæknisins og á ekki endurgreiðslurétt gagnvart TR.

Skal í þessu sambandi tekið fram að 65% (árin 2004 og 2005) vertakagreiðslna til hjartalækna má rekja til verktakaliðanna viðtal og skoðun, eða viðtal, skoðun og hjartalínurit.

Heilsugæslan ætti að geta leyst úr vanda sjúklinga að talsverðu leyti. Að svo miklu leyti sem heilsugæslulæknir telur sig ekki geta veitt viðkomandi þjónustu vísar hann viðkomandi áfram til hjartalæknis og með þeirri aðferð er virtur sjúkratryggingaréttur viðkomandi.

Hjartalæknarnir 21 sem sögðu sig af samningi Læknafélags Reykjavíkur og samninganefndar HTR um verktakagreiðslur fyrir verk unnin á einkastofum eru að meirihluta einnig starfandi á spítölum. Hefur þeim spítölum verið gert viðvart um þá stöðu sem upp er komin og eru bæði Landspítalinn og Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu viðbúin breyttum aðstæðum.

Á árinu 2004 voru komur til hjartalækna 22.351. Heildarkostnaður við þessar komur var um 150 milljónir króna.

Af heildarkostnaði greiddi Tryggingastofnun ríkisins 91 milljón króna, sjúklingarnir greiddu 52 milljónir, eða samtals 143 milljónir króna. Mismunurinn, um sjö milljónir króna á árinu 2004, er afslátturinn sem hjartalæknar veittu af heildarútgjöldunum vegna verktakasamningsins sem þeir eru á.

Sjö milljónir eru um 5% og eiga almennt séð ekkert skylt við yfirlýsingar í fjölmiðlum um 50 til 100% afslátt frá gjaldskrá sem þessi læknahópur þurfi að veita.

Sjá nánar:

Fréttatilkynning hjartalæknar

Reglugerðin

Endurgreiðslugjaldskráin



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum