Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. apríl 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við opnun sýningarinnar Sumar 2006

Páll Pétursson, Sigríður Anna heimsækja bás VGH verktaka.
Á sýningunni Sumar 2006.

Ágætu gestir og sýnendur,

Gleðilegt sumar og bestu þakkir fyrir veturinn. Víðast hvar fraus vetur og sumar saman og þjóðtrúin segir að það viti á gott.

Það er ánægjulegt að vera hér með ykkur við opnun sýningarinnar Sumar 2006. Ég óska skipuleggjendum hennar, Auði Ottesen og Páli Péturssyni og starfsmönnum þeirra, til hamingju með metnaðarfulla og glæsilega sýningu og sýnendunum sem eru um hundarð og fimmtíu talsins til hamingju með daginn og glæsilegt framlag þeirra.

Nú er sumarsýning haldin í fimmta sinn og gert er ráð fyrir að um 30 þúsund manns sæki hana. Sýningin er á alls 7.000 fermetra svæði hér í sýningarhöllinni og á útisvæði. Ég fagna því mjög að á sýningunni er fylgt sérstakri umhverfisstefnu og umhverfisvæn þjónusta og umhverfisvænar vörur er að finna í mörgum sýningarbásanna.

Hér á sýningunni er einnig að finna sérstakt Umhverfisfræðslutorg þar sem stofnanir og frjáls félagasamtök sem vinna að umhverfisfræðslu og náttúruvernd kynna starfsemi sína í samstarfi við Umhverfisfræðsluráð.

Í morgun var haldin áhugaverð ráðstefna undir yfirskriftinni „Umhverfi og heilsa". Umhverfismál og heilsufar tengjast á svo marga vegu og nefna má að síðastliðið vor stóðu umhverfisráðuneytið og norræna ráðherranefndin fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Skaftafelli undir yfirskriftinni Þjóðgarðar, útvist og heilsa. Þar kom fram að útivist og náin tengsl við náttúruna hafa umtalsverð áhrif á líf okkar og heilsu og Norðmenn hafa t.d. þróað svokallaðan grænan lyfseðil þar sem boðið er upp á 7 vikna þjálfun hjá sjúkraþjálfurum í útivist og hreyfingu í stað hefðbundinnar lyfjameðferðar bæði við andlegum og líkamlegum kvillum.Auður Ottesen, Regína Ósk söngkona og Sigríður Anna við opnun sýningarinnar Sumar 2006.

Þegar unnið er að náttúruvernd er mikilvægt að huga vel að því hvernig ferðamenn geti sem best notið náttúrunnar um leið og gætt er verndarsjónarmiða.

Íslensk náttúra er óviðjafnanleg eins og við vitum öll. En hún er líka viðkvæm eins og sýndi sig til dæmis nýlega í sinubrunanum mikla á Mýrum. Ein lítil glóð varð að stórbruna og enn getum við ekkert fullyrt um afleiðingar hans á gróður og dýralíf. Þessi mikla eyðilegging er okkur áminning um að ganga varlega um náttúruna og gæta þess ævinlega að skilja við hana eins og við komum að henni.

Í gær var sumardagurinn fyrsti sem skipar sérstakan sess í hugum okkar Íslendinga.

Í kvæði Hannesar Péturssonar Söngvar til jarðarinnar segir svo:

II

Bezt eru vorin, ekkert elska ég heitar.
     Úr útlegð þyrpast syngjandi vötn
      og litir sem mora í holtum og hlýjum drögum.
Þá verða dýrin að lifandi hluta landsins:
      lambféð á gljúpu túni, ernir á heiðum
      svanir á engi, hrafnar í blautum högum
hneggjandi stóð sem öslar mýrasund
      tekur á rás og þýtur, bylgjast í breiðum ...

III

Morgnar við sjóinn í maí:
mjólkurhvítt logn um fjörðinn
ritan að rápa um grjótið
það rýkur frá einstaka bæ.

Mér veitist nú sá heiður að opna sýninguna Sumar 2006. Gjörið svo vel njótið sýningarinnar og sumarsins og gætið að umhverfinu í leiðinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum