Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. apríl 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Rekstur Landspítalans í jafnvægi

Rekstur Landspítalans var í jafnvægi á liðnu ári. Þetta kom fram á ársfundi spítalans sem haldinn var í dag. Reksturinn var í jafnvægi, skuldir greiddar niður um u.þ.b. hálfan milljarð króna. Fjárheimildir og sértekjur ársins námu tæpum 29 milljörðum króna og heildagjöld rúmum 29 milljörðum. Höfðu gjöldin hækkað um rúmlega fjögur prósent frá fyrra ári. Gjöld umfram tekjur voru 33 milljónir króna.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, flutti ávarp á ársfundinum og gerði einmitt rekstrarniðurstöðurnar að umtalsefni meðal annars. Ráðherra sagði um reksturinn: “Við sem erum eldri en tvævetur munum að spítalarnir tveir, sem nú er Landspítali – háskólasjúkrahús, voru oft á tíðum reknir langt umfram fjárheimildir. Það eru því söguleg tíðindi nú, að Landspítali – háskólasjúkrahús er rekinn á pari. Því ber að fagna alveg sérstaklega.

Þessi staða er staðfesting á agaðri vinnubrögðum í rekstri og breyttum aðstæðum sem er staðfesting á að það var unnt að slá á útgjaldaaukninguna með því að sameina spítalana.

En þótt þessi árangur sé glæsilegur, þá er hann eðli málsins samkvæmt ekki hin endanlega lausn, og árangurinn hefur ekki náðst án fórna.

Árangur í rekstri byggist vitaskuld fyrst og fremst á framlagi starfsmanna. Og það er ekkert launungamál að álag á starfsmenn hefur aukist hin síðari misseri. Hugsanlega svo mikið að við erum farin að nálgast þolmörk í einhverjum tilvikum.

Skýringarnar á auknu álagi á starfsmenn tengjast breytingum í rekstri, en líka því að þeir sem hingað koma eru veikari en áður, þeir eru sumpart eldri, og síðast en ekki síst verðum við að horfast í augu við að hér vantar fleira fagfólk.”

Á ársfundinum var gerð grein fyrir rekstri Landspítalans, stefnumótun hans var kynnt og þar var líka undirritaður nýr samstarfssamningur sjúkrahússins og Háskóla Íslands. Gestur fundarins var Greg Ogrinc, frá læknaskólanum í Darmouth í Bandaríkjunum og fjallaði hann um öryggi sjúklinga og gæðaumbætur í heilbrigðisþjónustunni.

Sjá nánar:  Ávarp ráðherra á ársfundi LSH 2006

 

Vefsíða Landspítala – háskólasjúkrahúss www.landspitali.is

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum