Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. maí 2006 Innviðaráðuneytið

Drög að nýjum reglugerðum um aksturs- og hvíldartíma, ökurita og eftirlit

Fjórar nýjar reglugerðir um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, ökurita, eftirlit og skipulag vinnutíma ökumanna og aðstoðarmanna þeirra eru nú til umsagnar. Þeir sem vilja koma á framfæri athugasemdum við reglugerðardrögin eru beðnir að senda þær samgönguráðuneytinu fyrir 15. maí.

Reglugerðirnar koma í stað eldri reglugerða um sama efni en eru aðgangilegri og í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum sem nú liggur fyrir Alþingi.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 251/2004 kom fram að verknaðarlýsingar varðandi hvíldartíma ökumanna væru ófullnægjandi í umferðarlögum og skýrari leiðbeiningar vanti í umferðarlög um atriði sem samgönguráðherra setur reglur um. Af þeim sökum var ökumaður, sem ákærður var vegna meintra brota á hvíldartímaákvæðum, sýknaður bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Því hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á umferðarlögum nr. 50/1987. Varða þær ekki síst breytingar á 44. grein og miða að því að í lögunum komi fram leiðbeiningar um hvert megi eða skuli vera inntak reglna sem umferðarlögin heimila ráðherra að setja um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og um skipulag vinnutíma ökumanna og aðstoðarmanna þeirra. Einnig má vekja athygli á því að í reglugerðinni um ökurita er ákvæði um að í bílum sem ber að hafa ökurita skuli hann vera rafrænn í bílum sem skráðir eru frá 1. júlí 2006.

Jafnframt þarf að setja reglugerðir sem uppfylla áðurnefndar kröfur og liggja nú fyrir drög að fjórum reglugerðum til umsagnar. Þær eru:

Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna (Word-50kb)

Reglugerð um ökurita og notkun hans (Word-72kb)

Reglugerð um eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita og fleira (Word-40kb)

Reglugerð um skipulag vinnutíma ökumanna og aðstoðarmanna þeirra sem sjá um flutninga á vegum (Word-45kb)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum