Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. maí 2006 Innviðaráðuneytið

Árétting vegna álits Félags íslenskra flugumferðarstjóra um hlutafélag um flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu

Vegna frétta um álit Félags íslenskra flugumferðarstjóra á lagafrumvarpi um heimild til að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands og tengdan rekstur sem nú er til umfjöllunar á Alþingi vill samgönguráðuneytið taka fram eftirfarandi:

  1. Þess misskilnings gætir í áliti Félags íslenskra flugumferðarstjóra að hlutafélaginu sé ætlað að fara með opinbert vald og stjórnsýslu. Hið rétta er að hlutafélaginu er ætlað að taka við flugleiðsöguþjónustu og rekstri flugvalla. Samgönguráðherra verður heimilt að fela félaginu að fara með réttindi og að annast skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart alþjóðasamþykktum, alþjóðasamningum eða samningum við önnur ríki. Félaginu er hins vegar ekki falið opinbert vald.
  1. Þess misskilnings gætir í áliti Félags íslenskra flugumferðarstjóra að félaginu verði ekki gert að sæta eftirliti. Hið rétta er að samkvæmt 4. gr. lagafrumvarps um Flugmálastjórn Íslands skal hún veita heimildir til reksturs flugleiðsöguþjónustu, flugvalla og flugstöðva og hafa eftirlit með þessari starfsemi.
  1. Þess misskilnings gætir í áliti Félags íslenskra flugumferðarstjóra að gert sé ráð fyrir því í hugsanlegum samningum hins nýja hlutafélags við aðra aðila til að ná tilgangi sínum, sbr. 5. gr. lagafrumvarpsins, að félagið geti samið við aðra þar á meðal meinta keppinauta um forræði á íslenska flugstjórnarsvæðinu beggja vegna Atlantshafsins um að annast þessa þjónustu að hluta eða öllu leyti. Hið rétta er að til þess að geta mætt aukinni samkeppni nágrannalanda um flugleiðsöguþjónustu yfir Atlantshafinu er nauðsynlegt að geta brugðist skjótt við í hröðu og breytilegu rekstrarumhverfi sem geti kallað á skjótar ákvarðanir í markaðslegu tilliti. Tilgangur breytinganna er einmitt sá að gera íslenskum flugmálayfirvöldum kleift að halda áfram þeirri öflugu flugleiðsöguþjónustu sem hér hefur verið veitt um áratugaskeið með þátttöku flugumferðarstjóra.
  1. Þess misskilnings gætir í áliti Félags íslenskra flugumferðarstjóra að eignir alþjóðaflugþjónustunnar verði færðar hinu nýja félagi. Hið rétta er að eignir sem notaðar eru í þágu alþjóðaflugþjónustunnar, skrifstofuhúsnæði og búnaður flugvalla og búnaður flugleiðsögureksturs verður færður félaginu til eignar í því skyni að annast umrædda þjónustu.

Það er von samgönguráðuneytisins að þeir sem starfa að íslenskum flugmálum geti sameinast um að halda áfram þeirri uppbyggingu sem hér hefur staðið allt frá árdögum flugsins. Séu skilyrði fyrir frumkvæði og framsækni fyrir hendi er þess að vænta að flugþjónusta verði áfram mikilvæg atvinnugrein hér á landi sem skapi fjöldamörg íslensk hálaunastörf. Breytingarnar á rekstri og þjónustu Flugmálastjórnar Íslands eru liður í því.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum