Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. maí 2006 Innviðaráðuneytið

Úttekt á Reykjavíkurflugvelli - staða mála kynnt

Samráðnefnd um úttekt á Reykjavíkurflugvelli kynnti í dag stöðu verkefnisins en nefndinni var falið að gera úttekt á Reykjavíkurflugvelli og hlutverki hans sem miðstöðvar innanlandsflugs í landinu.

Af fundi um stöðu innanlandsflugs
Af kynningu um stöðu innanlandsflugs

Kynningarfundinn sátu Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri ásamt embættismönnum frá samgönguráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Einnig sátu fundinn fulltrúar Flugmálastjórnar Íslands og flugráðs svo og fulltrúar stjórnmálaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

Nefndin kynnti á fundinum eftirfarandi möguleika sem teknir verða til skoðunar í hagrænni úttekt:

Þrír kostir núverandi flugvallar í Vatnsmýri með breyttri legu brauta.

Nýr flugvöllur á Lönguskerjum.

Nýr flugvöllur á Hólmsheiði.

Innanlandsflug flutt til Keflavíkurflugvallar.

Þessir kostir verða einnig bornir saman við Reykjavíkurflugvöll í núverandi mynd. Gert er ráð fyrir að verklok starfshópsins verði síðsumars.

Hér fer á eftir samantekt samráðsnefndarinnar um stöðu málsins.

YFYRLIT UM STÖÐU VERKEFNISINS

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri ákváðu á síðasta ári að láta fara fram úttekt á Reykjavíkurflugvelli og hlutverki hans sem miðstöðvar innanlandsflugs í landinu.

Til að sjá um úttektina var sett á laggirnar samráðsnefnd með tveimur fulltrúum frá hvorum aðila. Í nefndinni eru Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og Sigurður Snævarr, borgarhagfræðingur, tilnefndir af borgarstjóra og Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri og Helgi Hallgrímsson, verkfræðingur, skipaðir af samgönguráðherra og er Helgi formaður nefndarinnar. Nefndin réði Gunnar Torfason, ráðgjafarverkfræðing sem verkefnisstjóra.

Að undanförnu hafa farið fram miklar umræður um flugvallarmál í Reykjavík og framtíð innanlandsflugsins. Með hliðsjón af því þykir samráðsnefndinni eðlilegt að gera nokkra grein fyrir störfum sínum og stöðu málsins eins og hún er um þessar mundir.

Í erindisbréfi nefndarinnar segir meðal annars að hún skuli láta ?fara fram flugtæknilega, rekstrarlega og skipulagslega úttekt á Reykjavíkurflugvelli. Úttektin skal meðal annars byggja á samanburði ólíkra valkosta, þar með talið einnar-brautar lausn, tveggja-brauta lausn og þeim kosti að öll flugstarfsemi hverfi af svæðinu. Tilgangur úttektarinnar er meðal annars sá að ná fram mati á lágmarksstærð flugbrauta og athafnasvæðis, sem þörf er talin á, eigi flugvöllurinn að þjóna hlutverki sínu sem miðstöð innanlandsflugsins. Að fenginni niðurstöðu fari fram formlegar viðræður um framtíð flugstarfsemi í Vatnsmýrinni.?

Nefndin hefur skipt verkefninu upp í þrjá meginþætti sem hér segir:

  1. Flugtæknileg úttekt á flugvelli í Vatnsmýri og mögulegum breytingum á honum.
  2. Leit að flugvallarstæðum á höfuðborgarsvæðinu, sem gætu tekið við af Vatnsmýri ef flugstarfsemi færi þaðan.
  3. Hagræn úttekt á þeim niðurstöðum, sem koma út úr liðum 1 og 2 og einnig á þeim möguleika að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur.

Að auki hefur nefndinni verið falið að skoða staðsetningu og skilyrði fyrir byggingu samgöngumiðstöðvar, en það verkefni er í lausari tengslum við aðalverkefnið og verður ekki gert frekar að umtalsefni hér.

Samráð var haft við helstu rekstraraðila á Reykjavíkurflugvelli við vinnu að verkþáttum 1 og 2.

FLUGTÆKNILEG ÚTTEKT

Samráðsnefndin samdi við hollenska fyrirtækið National Aerospace Laboratory, NLR, um hina flugtæknilegu úttekt. Verkefninu var skipt í tvo áfanga. Í fyrri áfanga, sem lokið er við, er gerð yfirlitsathugun á mögulegum lausnum. Helstu niðurstöður úr þeim áfanga eru tvær. Önnur er sú að ein flugbraut nægir ekki. Vegna mjög breytilegra vindátta, verður reikningsleg nýting flugvallarins innan við 80%. Hin niðurstaðan er að A-V brautin verður að vera aðalbraut flugvallarins og liggja að miklu leyti í sjó fram utan núverandi flugvallargirðingar, ef losa á umtalsvert svæði til annarra nota en flugstarfsemi. Kemur þetta skýrt fram á myndum 4-6.

Í seinni áfanga, sem nú stendur yfir, eru útfærslur á slíkum möguleikum til skoðunar. Í þeim áfanga verða einnig metnar helstu afleiðingar þess að loka Reykjavíkurflugvelli með tilliti til millilandaflugsins. Loks mun NLR meta líklega þróun í flugvélatækni í næstu framtíð og áhrif þeirrar þróunar á flug á stuttum flugleiðum og kröfur til flugvalla.

FRAMTÍÐAR FLUGVALLARSTÆÐI FYRIR REYKJAVÍK

Leit að framtíðarflugvallarstæði í Reykjavík og nágrenni (FFR) var hafin á vegum Reykjavíkurborgar í tengslum við fyrirhugaða hugmyndasamkeppni um skipulag í Vatnsmýri. Þegar samráðsnefndin tók til starfa var ákveðið að tengja þetta verkefni annarri vinnu nefndarinnar. Myndaður var vinnuhópur um FFR og er hann þannig skipaður:

Helgi Hallgrímsson, Samráðsnefnd
Ólafur Bjarnason, Reykjavíkurborg ? framkvæmdasvið
Haukur Hauksson, Flugmálastjórn
Hermann Hermannsson, Flugmálastjórn
Árni Gunnarsson, Flugfélag Íslands
Haraldur Sigurðsson, Reykjavíkurborg ? skipulags- og byggingarsvið
Hilmar B. Baldursson, Icelandair

Ráðgjafi vinnuhópsins er Verkfræðistofan Hönnun og verkefnisstjóri Tryggvi Jónsson.

Verkefnið er þríþætt:

1. Skilgreina stærð flugvalla til hinna ýmsu nota

2. Fara yfir mögulega staði.

3. Velja þá vænlegustu (1-3) og meta kostnað við gerð flugvalla á þeim.

Niðurstaðan er sú að innanlandsflugvöllur á nýjum stað á höfuðborgarsvæðinu þurfi að geta tekið við allri starfsemi, sem fram fer í Vatnsmýri nú og leyfi auk þess þróun í flugstarfsemi, sem búast má við í næstu framtíð.Stærð flugbrauta og athafnasvæðis vegna flugstarfseminnar þarf að taka mið af þessu. Tveir staðir, Löngusker og Hólmsheiði, geta rúmað slíkan flugvöll. Óvissa er um veðurfar og áhrif þess á aðflug á báðum þessum stöðum, einkum þó á Hólmsheiði, enda litlar sem engar veðurmælingar fyrir hendi. Óvissunni verður ekki eytt nema með samfelldum veðurathugunum um nokkurra ára skeið og því er hér stuðst við athuganir á tiltækum veðurgögnum frá nálægum stöðum. Benda líkur til að báðir staðirnir séu nothæfir undir flugvöll. Kostnaður við flugvöll á Lönguskerjum (20-22 milljarðar kr.) er mun meiri en á Hólmsheiði (11-13 milljarðar kr.), en þar á móti kemur að nýting flugvallar á Lönguskerjum er líklega betri. Flugvöllur á Hólmsheiði er í 135 m hæð yfir sjó og í meiri nálægð við fjöll en flugvöllur á Lönguskerjum. Veðurskilyrði þar eru því óhagstæðari hvað varðar skýjahæð, skyggni og vindafar. Báðir kostirnir verða teknir til útreiknings í hagrænni úttekt.

Kostnaður við að gera sérstakan flugvöll fyrir einkaflug og kennsluflug var metinn. Niðurstaðan var sú að það væri mun dýrara en að hafa þessa þætti flugsins með öðru flugi á nýjum flugvelli. Sérstakur flugvöllur fyrir einkaflug og kennsluflug er því einungis á dagskrá ef flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýri eða ef innanlandsflugið flyst til Keflavíkur. Hagkvæmast er að byggja slíkan flugvöll í Afstapahrauni ef til kemur.

Þriðji meginþáttur verkefnis samráðsnefndar er hagræn úttekt. Þar eru teknir til skoðunar þeir kostir, sem best komu út í fyrri tveim þáttunum, það er þrír kostir um flugvöll í Vatnsmýri og tveir kostir um flugvöll á nýjum stað á höfuðborgarsvæðinu. Að auki er tekinn með sá möguleiki að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkurflugvallar. Metinn verður kostnaður og ábati við alla þessa kosti og borinn saman við núverandi flugvöll í Vatnsmýri óbreyttan að öðru leyti en því að flugbrautir verða einungis tvær.

Við matið þarf að huga að fjölmörgum atriðum svo sem stofn- og rekstrarkostnaði mannvirkja, verðmæti lands, umferð á höfuðborgarsvæðinu, breyttum ferðavenjum, ef innanlandsflug flyst til Keflavíkurflugvallar, áhrifum af þéttingu byggðar, ýmsum umhverfisþáttum og margt fleira.

Niðurstöður eiga að sýna hag eftirtalinna aðila svo skýrt sem verða má:

1. Ríkissjóðs
2. Borgarsjóðs
3. Íbúa Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins
4. Fjarlægari landsbyggðar, það er þess hluta landsbyggðarinnar sem nýtir innanlandsflugið að marki
5. Þjóðarinnar í heild.

Hagræn úttekt er viðamikið verkefni, sem boðið var út og var samið við ParX Viðskiptaráðgjöf IBM. Annast þeir verkið ásamt nokkrum samstarfsaðilum. Þröstur Sigurðsson er verkefnisstjóri, og eru verklok áætluð síðast í júní. Þá á samstarfsnefndin eftir að setja saman greinargerð um verkið í heild, og er miðað er við að hún liggi fyrir síðari hluta sumars.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum