Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. maí 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra á fundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í New York

Sigríður Anna Þórðardóttir á fundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun
Sigríður Anna Þórðardóttir á fundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra lagði áherslu á aðkomu alþjóðlegra fjármálastofnana að nýtingu jarðhita á fundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í New York í gær. Í ræðu sinni sagði ráðherra að fólk væri almennt ekki nógu meðvitað um möguleika jarðhita sem orkugjafa. Ráðherra sagði að jarðhiti gæti leyst orkuþörf hundruða milljóna manna í Austur-Afríku, Mið-Ameríku, Kína, Indónesíu og víðar á loftslagsvænan hátt. Umhverfisráðherra sagði meðal annars:

„Ég legg áherslu á leiðtogahlutverk alþjóðlegra fjármálastofnana í þessu sambandi. Milljörðum dala verður fjárfest í orkukerfið á næstu árum og þessar fjárfestingar munu hafa áhrif á umhverfið í marga áratugi.

Hluti þessarar fjárfestingar fer líklega í jarðefnaeldsneytisknúnar orkuvinnslur á svæðum þar sem nóg er af orku frá jarðhita, en hún er ekki nýtt vegna skorts á tækniþekkingu og fjármagni.

Í skýrslu Kofi Annans aðalritara kemur fram að fjárfestingarkostnaður, erfiðleikar við að meta jarðvarmaauðlindir og ónóg staðbundin tækniþekking séu meðal helstu hindrana við nýtingu orku frá jarðhita.

Ég hvet alþjóðlegar fjármálastofnanir til að hjálpa við að ryðja þessum hindrunum úr vegi og að huga sérstaklega að efnahagslegum ávinningi þessarar orkulindar til langs tíma.“

Ofangreindum fundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem haldinn er í höfuðstöðvum samtakanna í New York, lýkur í dag.

Fréttatilkynning nr. 11/2006 

Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum