Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. maí 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Sænskur sérfræðingur kynnir sér geðheilbrigðismál barna

Dr. Anders Milton, sérstakur ráðgjafi sænskra stjórnvalda í geðheilbrigðismálum, gerir nú úttekt á geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni hér á landi. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ákvað að láta gera úttekt á geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Íslandi, skoða styrkleika og veikleika þjónustunnar og fékk Dr. Anders Milton til verksins. Hann hefur frá árinu 2003 unnið sem sérstakur ráðgjafi sænskra stjórnvalda á sviði geðheilbrigðisþjónustu og vinnur að heildarendurskoðun þjónustunnar þar í landi. Með í för Dr. Anders Miltons er sænskur geðlæknir. Sérstakur hópur undirbjó komu Dr. Anders Milton til landsins. Í honum sitja Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri, sem er formaður, Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss, Sigurður Guðmundsson, landlæknir, Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri og Margrét Björnsdóttir, deildarstjóri. Dr. Anders Milton mun skila heilbrigðisyfirvöldum skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni að lokinni úttekt sinni. Hann mun sömuleiðis setja fram tillögur um hugsanlegt framtíðarskipulag á þessu sviði heilbrigðisþjónustunnar í bráð og lengd.

Dr. Anders Milton ræðir við fagfólk, fulltrúa foreldrafélaga og stofnana á meðan á dvöl hans stendur, og auk þess hefur hann rætt við umboðsmann barna. Hann hefur þegar rætt við Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hittir Jón Kristjánsson, félagsmálaráðherra, síðar í vikunni, og fulltrúa menntamálaráðherra.

Dr. Anders Milton var um árabil formaður og framkvæmdastjóri Sænska læknafélagsins og formaður Bandalags háskólamanna í Svíþjóð. Hann var um nokkurra ára skeið formaður Alþjóðasamtaka lækna og formaður Sænska Rauða krossins. Árið 2003 skipaði sænska ríkisstjórnin hann sérstakan ráðgjafa um geðþjónustu um leið og verulegum fjármunum var ráðstafað til þess málaflokks. Hann hefur unnið að fjölda mála á alþjóðlegum vettvangi heilbrigðismála.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum