Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. maí 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Nánari samvinna eftir að jarðgöng verða að veruleika

Efla á samstarf heilbrigðisstofnana á svæðinu sem Héðinsfjarðagöngin tengja saman þegar þau verða tekin í notkun. Þetta er vilji Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem hefur falið stjórnendum heilbrigðisstofnana á svæðinu að setja fram hugmyndir um hvernig samstarf af þessu tagi megi verða til þess að efla heilbrigðisþjónustu við íbúa svæðisins. Ráðherra tilkynnti um ákvörðun sína í dag þegar hún heimsótti Heilbrigðisstofnunina Siglufirði. Þar sagði ráðherra að hin mikla samgöngubót sem göngin væru hefðu “óhjákvæmilega áhrif á heilbrigðisþjónustu í þeim byggðarlögum sem næst göngunum verða og jafnvel víðar. Með göngunum skapast mikil tækifæri til að efla og þróa heilbrigðisþjónustu á svæðinu við utanverðan Tröllaskaga og á nálægum svæðum. Möguleikarnir eru augsýnilegir en nú er að nýta þá.”

Í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem hún afhenti á Siglufirði í dag kemur kemur m.a. fram: “Ráðuneytið felur því framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana ríkisins á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði að skila ráðuneytinu álitsgerð, þar sem fram komi greining þeirra á því hvernig eðlilegast og réttast sé að haga samstarfi þessara stofnana eftir að jarðgöngin hafa verið tekin í notkun. Núgildandi samstarfsferlar verði endurskoðaðir. Við þessa skoðun verði gert ráð fyrir að grunnþjónusta, heilsugæsla verði veitt eins og áður en þeir samstarfsfletir sem munu skapast verði skoðaðir nánar, svo sem samnýting stoðþjónustu, sérfræðiþjónustu, innkaup á vörum og þjónustu o.þ.h....Ráðuneytið telur rétt að þessi álitsgerð sé að mestu unnin af heimamönnum og felur Konráði Baldvinssyni, framkvæmdastjóra á Siglufirði, að kalla hópinn saman.”

Vinnuhópinn skipa þau Ásrún Yngvadóttir, framkvæmdastjóri Heilsugæslustöðvarinnar Dalvík, Konráð Baldvinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar Siglufirði, Rúnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslustöðvarinnar Ólafsfirði.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum