Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. maí 2006 Innviðaráðuneytið

Fjölmörg atriði í heilsufari hafa áhrif á akstur

Notkun farsíma í akstri, óháð því hvort notaður er handfrjáls búnaður eða ekki, getur fjórfaldað líkur á því að viðkomandi lendi í umferðaróhappi og er áhættan svipuð og því sem gerist með ölvunarakstur. Þetta kom meðal annars fram í erindi Hjalta Más Björnssonar læknis á málþingi í dag um heilsufar og akstur.

Að málþinginu stóðu Iðjuþjálfafélag Íslands og Ökukennarafélag Íslands. Sigurður Guðmundsson landlæknir setti þingið og sagði að þrátt fyrir fækkun umferðarslysa væri enn mikið starf óunnið og ýmis hegðun í umferðinni sem þyrfti að bæta. Sagði hann ,,þrjú bé” sem hann nefndi belti, brennivín og brun, koma við sögu í um 80% umferðarslysa; öryggisbelti væru ekki notuð, áfengisakstur ylli slysum svo og hraðakstur.

Arnaldur Árnason, ökukennari og verkefnisstjóri við Kennaraháskóla Íslands, fjallaði um hvort ökunám væri ekki annað og meira en að stjórna bifreið. Hjalti Már Björnsson gerði grein fyrir óformlegri könnun meðal lítils hóps starfsbræðra sinn á Landspítala þar sem spurt var hvort læknar yrðu varir við að sjúklingar ækju bíl þrátt fyrir mat lækna að þeir væru ekki til þess hæfir. Kom fram að talsvert margir læknar yrðu þess varir og jafnframt að þeir vissu um tilvik þar sem sjúklingar sem haldnir væru til dæmis flogaveiki eða heilabilun hefðu lent í tjónum í umferðinni. Hjalti Már sagði margt geta skert ökuhæfni og nefndi fyrir utan símtöl undir stýri og ölvunarakstur atriði eins og reykingar, kæfisvefn, vaktavinnu og notkun örvandi eða sljóvgandi lyfja. Sagði hann brýnt að auka fræðslu um þessi efni og koma á þjónustu þar sem unnt væri að meta ökuhæfni manna.

Haukur Hjaltason, sérfræðingur í taugasjúkdómum, ræddi um flogaveiki og akstur og Bertrand Lauth læknir fjallaði um akstur og notkun geðlyfja hjá ungu fólki. Jón Snædal öldrunarlæknir fjallaði um hvort heilabilun og akstur færi saman og Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, ræddi um heilsubrest og missi ökuleyfis og spurði hvort setja ætti reglu um hámarksaldurs um ökuréttindi en ekki aðeins lágmarksaldur. Þá ræddi Ólöf Bjarnadóttir læknir um reglur og viðhorf og kom fram hjá læknunum að erfitt gæti reynst fyrir lækna að tilkynna að skjólstæðingar þeirra ættu ekki að taka bíl, þar veguðust á trúnaður lækna við sjúkling með þagnarskyldu og spurningin um almannahagsmuni.

Iðjuþjálfarnir Lilja Ingvarsson og Sigrún Garðarsdóttir fjölluðu um mat á færni við akstur sem og Guðbrandur Bogason ökukennari. Staldraði hann sérstaklega við matsstöð og taldi eðlilegt að koma upp slíkri stöð við sjúkrahús þar sem fólk gæti fengið mat á hæfni sinni til aksturs eftir sjúkdóma eða annað og fengið leiðbeiningar um endurhæfingu og úrræði.

Í pallborðsumræðum sem Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, stýrði kom meðal annars fram að lögreglan teldi sig ekki oft þurfa að hafa afskipti af ökumönnum sem væru með skerta hæfni. Hugmynd um matsstöð fyrir ökuhæfni manna þótti áhugaverð og fram kom að huga mætti að breytingu á þeirri reglu að ökuskírteini nýrra ökumanna giltu til 70 ára aldurs eftir tveggja ára gildistíma bráðabirgðaskírteinis, gefa mætti út skírteini til 10 ára eða skemmri tíma og að við endurnýjun yrðu skírteinishafar að geta sýnt hæfni sína.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum