Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. maí 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Áherslur í starfi Lýðheilsustöðvar



Góðir fundarmenn,

Það er mér mikil ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í upphafi þessa ársfundar Lýðheilsustöðvar.  Málefni lýðheilsu eru mér kær og hef ég beitt mér fyrir þeim á margvíslegum vettvangi á undanförnum árum.

Nú eru brátt liðin þrjú ár frá því að Lýðheilsustöð tók til starfa. Að mínu mati hefur henni tekist að vaxa vel úr grasi og kynna sig á ábyrgan hátt fyrir landi og þjóð.

Eins og allir hér vita, var tilgangurinn með stofnun Lýðheilsustöðvar að samhæfa áherslur heilbrigðisyfirvalda í forvarnarmálum í þágu almennrar lýðheilsu og þannig efla áherslurnar í málaflokknum. Þótt öflugt starf hafi áður verið unnið á ýmsum sviðum lýðheilsu og forvarna, þá var samræming og samhæfing lítil milli hinna ýmsu þátta forvarna og því mikilvægt að mati heilbrigðisyfirvalda að samhæfa forvarnirnar í einni stofnun.  Ljóst mátti vera að slíkt yrði ekki auðvelt, en að mínu mati hefur stofnuninni tekist þetta vel, henni hefur auðnast að ná til sín hæfu fólki og koma málefnunum á framfæri meðal þjóðarinnar þannig að jákvæða athygli hefur vakið.

Vitað var að mörg þessara mikilvægu forvarnaverkefna voru áður að stórum hluta í höndum félagasamtaka og áhugahópa, jafnvel sjálfboðaliða. Mikilvægt er að þessi tengsl nýtist málefninu til framdráttar. Ég tel að stofnuninni hafi tekist þetta framar vonum og vona að svo verði áfram.  Tengsl Lýðheilsustöðvar við grasrótina geta verið afgerandi fyrir þróun stofnunarinnar og forvarna í landinu í næstu framtíð, sem og þau áhrif sem stöðinni er ætlað að hafa til bættrar lýðheilsu þjóðarinnar.  Þótt langlífi þjóðarinnar sé með því hæsta í veröldinni og við búum við ágæta stöðu á mörgum sviðum forvarna er mikilvægt að halda vöku sinni.

Af nægum verkefnum er að taka. Eitt af því sem mér er efst í huga, er vaxandi tilhneiging ungs fólks til minni hreyfingar og útivistar, svo og ábendingar margra rannsókna um versnandi mataræði ungs fólks.  Hér bíða okkar mikil verkefni á komandi árum sem ég veit að Lýðheilsustöð mun taka á af miklu afli og ég mun styðja við slíkt eftir fremsta megni. Ábyrgðin er að sjálfsögðu ekki Lýðheilsustöðvar einnar, ábyrgðin er okkar allra, margra ráðuneyta, sveitarstjórna og félagasamtaka, auk atvinnulífsins og verslunar.

Síðast en ekki síst vil ég nefna eitt lykilhugtak í forvörnum, en það er einstaklingsábyrgðin, ábyrgð hvers og eins á eigin velferð.

Ótal önnur verkefni mætti nefna, svo sem áfengis- og vímuvarnir, slysavarnir og tóbaksvarnir en allir þessir þættir eru meðal áhersluverkefna stofnunarinnar.  Ég bind miklar vonir við það að nýtt tóbaksvarnafrumvarp verði fljótlega að lögum og að við bætumst þar í vaxandi hóp þjóða sem taka fastari tökum á þeim heilsuvanda sem tóbaksneyslan veldur. Ísland hefur verið í fararbroddi meðal landa, sem láta sér skaðsemi tóbaks varða og ég hef fullan hug á að svo verði áfram.  Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp í þessa veru og ég mun leggja mikla áherslu á að það nái samþykki þingsins sem fyrst.

Kæru fundarmenn.

Ég ætla ekki að fara nánar út í einstök verkefni sem eru á könnu Lýðheilsustöðvar, ég hef um árabil haft mikinn áhuga á almennri lýðheilsu, eflingu heilsufars með hreyfingu, íþróttum og útivist.  Ég mun leggja mig fram við að styðja við þessa þætti sem og aðra í hinum nauðsynlegu verkefnum sem Lýðheilsustöð hafa verið og verða falin á komandi árum.

Ég óska Önnu Elísabetu Ólafsdóttur til hamingju með gott starf og stöðinni og starfsfólki öllu áframhaldandi farsældar í starfi og að þjóðin megi njóta starfa hennar í sem mestum mæli.

Ég segi ársfundinn hér með settan.

Takk fyrir.

 

(Talað orð gildir)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum