Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. júní 2006 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðherra reynir ökuhermi

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tók í dag formlega í notkun fyrsta ökuhermi í landinu en það eru Sjóvá, Brautin - bindindisfélag ökumanna, og samgönguráðuneytið sem sameinuðust um fjármögnun hans. Ökuhermirinn verður í nýju Forvarnahúsi Sjóvár í Kringlunni í Reykjavík en hægt er einnig að fara með hann um landið.

Ökuhermir tekinn í notkun
Ökuhermir tekinn í notkun. Einar Guðmundsson sýnir Sturlu Böðvarssyni réttu tökin.

Ökuhermirinn er þýskur að gerð og er hann raunverulegt bílsæti og stjórntæki bíls ásamt skjám þar sem líkt er eftir útsýni úr sæti bílstjóra og öðrum raunverulegum aðstæðum við akstur. Þannig þarf bílstjóri að spenna öryggisbeltið, ræsa bílinn og þar fram eftir götunum og hægt er að kalla fram ólíkar aðstæður í veðri og færð. Einnig er hægt að líkja eftir tilfinningu ölvaðs bílstjóra sem þýðir að við þær aðstæður er hliðarsjón skert og bíllinn bregst seinna við aðgerðum bílstjórans en ef hann væri allsgáður.

Sturla Böðvarsson sagði í ávarpi við athöfnina að ökuhermirinn væri hentugt tæki sem nýtast myndi í þágu aukins umferðaröryggis. Prófaði hann síðan tækið og ýmsa eiginleika þess.

Einar Guðmundsson, forvarnafulltrúi hjá Sjóvá, segir ökuherminn verða notaðan bæði við fræðslu ökunema og atvinnubílstjóra. Eins og fyrr segir er hægt að kalla fram ýmsar aðstæður þannig að bílstjóri geti æft viðbrögð sín við óvæntum uppákomum, hvort sem er vegna hálku, fólks sem hleypur í veg fyrir bílinn eða aðrar óvæntar hindranir. Hægt er að æfa akstur í þéttbýli, á þjóðvegum og hraðbrautum svo nokkuð sé nefnt. Einnig segir Einar ökuherminn ágætt áróðurstæki fyrir bættri umferðarmenningu svo sem að benda á hættur í umferðinni og berjast gegn ölvunarkstri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum