Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. júlí 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra hvetur til afnáms á skaðlegum niðurgreiðslum

Umhverfisráðherra hvetur til afnáms á skaðlegum niðurgreiðslum

Fundurinn í Turku var haldinn að frumkvæði Finna 14.-16. júlí í tilefni þess að Finnar hafa tekið við formennsku í Evrópusambandinu og vilja kynna hugmyndir sínar um “nýja kynslóð” stefnumiða í umhverfismálum. Fundinn sóttu umhverfisráðherrar 25 aðildarríkja ESB, en einnig var ráðherrum frá EFTA-ríkjunum – Íslandi, Noregi, Liechtenstein og Sviss - boðin þátttaka, sem og frá fjórum ríkjum sem sótt hafa um aðild að ESB.

Í hugmyndum Finna kemur fram að ör hnattvæðing geri það að verkum að stefnumörkun og lagasetning ESB og einstakra Evrópulanda þurfi að hafa hnattræna sýn, en ekki einungis á áhrifin á innri markað ESB. Vaxandi eftirspurn eftir orku, áframhaldandi notkun á jarðefnaeldsneyti og ágangur á ýmsar náttúruauðlindir kalla á nýja hugsun og umhverfisvænni tækni, þar sem hægt er að skapa atvinnu og bæta lífsgæði jafnhliða því sem álag á náttúrugæði minnkar. Leiðir til slíks séu m.a. umhverfisvæn innkaup, efnahagslegir hvatar, niðurfelling umhverfisskaðlegra niðurgreiðslna og sterkari alþjóðastofnanir á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar.

Umhverfisráðherra tók undir sjónarmið um afnám á umhverfisskaðlegum niðurgreiðslum, m.a. í sjávarútvegi, sem hvettu til ofnýtingar náttúruauðlinda í stað sjálfbærrar nýtingar þeirra til langs tíma. Hún sagði að hnattvæðingin kallaði á nýja hugsun í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þar sem skoða mætti hvort hægt væri að setja markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda fyrir einstakar atvinnugreinar, í viðbót við markmið fyrir losun einstakra ríkja. Í heimi þar sem atvinnustarfsemi ætti æ auðveldara með að færa sig um set þyrftu fyrirtæki og atvinnulífið í vaxandi máli að axla ábyrgð og vinna með stjórnvöldum að glíma við loftslagsvandann.

Finnar kynntu einnig á fundinum bágt ástand Eystrasaltsins, sem stafar ekki síst af mengun af völdum næringarefna og þörungablóma, sem skaðar fiskistofna og annað lífríki. Aðgerðir til að bæta ástand umhverfisins í Eystrasalti kallar á náið samstarf þeirra mörgu ríkja sem liggja að hafinu og hertar umhverfiskröfur, m.a. í ljósi þess að búist er við að skipaumferð kunni að tvöfaldast á Eystrasaltinu á næstu tíu árum.

Áhyggjum lýst vegna enduropnunar kjarnorkuendurvinnslu

Í tengslum við fundinn átti umhverfisráðherra fund með umhverfisráðherra Írlands, Dick Roche, og umhverfisráðherra Noregs, Helen Björnöy. Ráðherrarnir ræddu einkum málefni Sellafield og ítrekuð vandamál sem þar hafa komið upp varðandi öryggismál. Ráðherrarnir urðu sammála um að fylgjast grannt með þróun mála í Sellafield á næstunni, einkum vegna fyrirætlana um að opna að nýju THORP-vinnslustöðina fyrir fljótandi geislavirkan úrgang, sem var lokað 2005 vegna leka. Ráðherrarnir þrír ræddu einnig nýjar áherslur breskra stjórnvalda í orkumálum, þar sem grænt ljós er gefið á byggingu nýrra kjarnorkuvera og töldu nauðsynlegt að vakta hvaða afleiðingar þessi nýja stefna um orkuöflun getur haft, m.a. á rekstur Sellafield og endurvinnslu og losun á kjarnorkuúrgangi almennt.

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna sendu bréf til breskra stjórnvalda 14. júlí þar sem lýst er yfir áhyggjum varðandi fyrirætlanir rekstraraðila Sellafield að opna THORP-stöðina að nýju. Stöðinni var lokað eftir að upp komst um langvarandi leka á geislavirkum vökva innan hennar. Vökvinn slapp ekki út í umhverfið, en lekinn og sú staðreynd að ekki komst upp um hann fyrr en eftir marga mánuði bendir hins vegar til brotalama á eftirlits- og öryggismálum í Sellafield-stöðinni. Í bréfinu segjast norrænu ráðherrarnir treysta því að bresk stjórnvöld heimili ekki enduropnun THORP fyrr en fyrir liggi áætlun um meðferð alls geislavirks úrgangs og gaumgæfilegt áhættumat varðandi opnunina og áframhaldandi rekstur.

Fréttatilkynning nr. 17/2006

Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum