Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. ágúst 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

10/2005

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006, föstudaginn 30. júní, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Gísli Gíslason, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2005 Kjartan Þór Emilsson Skógarseli 39, Reykjavík, gegn Umhverfisráði Reykjavíkur.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Jóns Egilssonar hdl. f.h. Kjartans Þórs Emilssonar, hér eftir nefndur kærandi er dags. 3. júní 2005, en barst úrskurðarnefnd 10. júní 2005. Kærð er ákvörðun Umhverfisráðs Reykjavíkur, hér eftir nefnt kærði, um að hafna skráningu á hundinum Tarak í Reykjavík.

Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1) Afrit af ákvörðun Umhverfisstofu kærða dags. 2. nóvember, 2004.

2) Afrit af andmælum við ákvörðun Umhverfisstofu dags. 16. nóvember, 2004.

3) Svör Umhverfisstofu við andmælum dags. 1. des. 2004.

4) Athugasemdir sendar Umhvefisstofu dags. 6. janúar, 2005.

5) Afrit af kæru ákvörðunar Umhverfisstofu dags. 28. janúar, 2005.

6) Afrit af ákvörðun kærða dags. 4. apríl, 2005.

7) Afrit af beiðni um endurupptöku dags. 20. apríl, 2005.

8) Afrit af fundargerð kærða, dags. 2. maí, 2005.

9) Afrit af ákvörðun kærða um synjun endurupptöku dags. 30. maí, 2005.

10) Afrit af gögnum um skráningu Taraks í Kópavogi.

11) Afrit af greiðslukvittun hundagjalda í Kópavogi 26. janúar, 2004.

12) Afrit af umsókn um hundaleyfi í Reykjavík og greiðsla 14. október 2004.

13) Afrit af frásögn Hörpu Karenar Hjaltadóttur vegna fyrra tilviks.

14) Afrit af lögregluskýrslu dags. 9. nóvember 2001.

15) Afrit af frásögn Önnu G. Ólafsdóttur blaðamanns vegna seinna tilviks.

16) Afrit af lögregluskýrslu dags. 10. ágúst 2004.

17) Afrit af skapgerðarmati Hönnu M. Arnórsdóttur dýralæknis.

18) Afrit af vottorði Katrínar Harðardóttur.

19) Afrit af áætlun og mati Ástu Dóru hjá hundaskólanum Galleríi Voff.

20) Afrit af bréfi Aprílar M. Frigge, dags. 23. desember, 2004.

21) Afrit af bréfi Maríu Priscilla Xanoria, dags. 29. desember, 2004.

Afrit af gögnum kæranda var sent kærða með bréfi dags. 9. júlí 2005. Greinargerð kærða barst í lok nóvember 2005 en er dagsett 9. nóvember. Spurst hafði verið fyrir um greinargerð símleiðis.

II.

Lögmaður kæranda kærir ákvörðun kærða um synjun á skráningu á hundinum Tarak í Reykjavík. Kveður lögmaður kæranda aðdraganda vera þann að hinn 2. nóvember 2004 hafi Umhverfisstofa tekið þá ákvörðun að eigin frumkvæði að aflífa skyldi hundinn Tarak. Þann 4. apríl 2005 hafi kærði fellt ákvörðun um aflífingu úr gildi en ákveðið að hundurinn fengi ekki leyfi til skráningar í Reykjavík. Farið hafi verið fram á endurupptöku málsins en 30. maí 2005 hafi kærði ákveðið að synja um endurupptöku málsins. Því sé ákvörðun kærða kærð til úrskurðarnefndar og þess krafist að hundruinn Tarak fái að búa hjá eigendum sínum í Reykjavík.

Lýsir lögmaður kæranda málsatvikum svo að Umhverfisstofa hafi farið fram á aflífun hundsins með vísan til 2. mgr. 19. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík, nr. 52/2002 en þar sé gert að skilyrði að leitað hafi verið álits sérfróðra aðila s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara, sem viðurkenndur sé af Heilbirgðiseftirliti Reykjavíkur, áður en ákvörðun um aflífun sé tekin. Á þessum grundvelli hafi kærði farið fram á skapgerðarmat frá Hönnu M. Arnórsdóttur dýralækni. Segi dýralæknirinn í mati sinu að auðvelt sé að vinna á vanda Taraks og leggi hún þannig til að hundurinn fá tækifæri gegn því að kærendur taki athugasemdir alvarlega og geri sér jafnframt grein fyrir afleiðingum þess ef atvik sem þetta kæmi fyrir aftur. Þá komi fram hjá dýralækninum að auðvelt sé að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur þar sem auðvelt sé að greina þær aðstæður sem hundurinn sýni þessa hegðun við. Þannig mæli dýralæknirinn ekki með aflífun og verði ekki séð að unnt sé að byggja aflífun á 2. mgr. 19. gr. hundasamþykktar. Umhverfisstofa virðist réttlæta niðurstöðu sína með því að taka eina setningu úr álitinu þar sem dýralæknirinn segi að eigendur hundsins hafi sýnt kæruleysi þegar þeir leyfðu hundinum að vera meðal barnanna vitandi það að hann átti til að sýna slíka hegðun ef ágengni krakka í hann varð of mikil. Lögmaður kæranda bendir á að rangt sé hjá dýralækni að hundurinn hafi átt það til að sýna svona hegðun ef ágangur krakka í hann hafi verið of mikill. Aðeins einu sinni fyrir umrætt atvik hafði hundurinn glefsað til barns en það hafi verið við mjög sérstakar aðstæður þar sem barn hafi tekið hundinn kyrkingartaki. Kærandi bendir á að þessa setningu hafi dýralæknirinn ekki byggt á neinu mati heldur sé þarna um einhvers háttar misskilning að ræða. Þannig virðist Umhverfisstofa ekki byggja á niðurstöðu dýralæknis heldur ákveði að taka eina setningu úr matinu, setningu sem sé þess eðlis að hún byggist ekki á mati læknisins. Þá taki hún ekki tillit til þess sem einnig segi í áliti dýralæknisins að mjög auðvelt sé að koma í veg fyrir þessa hegðun hundsins. Kveður lögmaður kæranda að umbjóðendur sínir hafi tekið athugasemdir til greina og farið á sérstakt námskeið af því tilefni, en alrangt sé að hundurinn hafi átt til að sýna þessa hegðun við ágang barna. Með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði Umhverfisstofa átt að fara eftir niðurstöðu þess sérfróða aðila sem óskað var álits frá. Þá sé þess krafist í 2. mgr. 19. gr. umræddrar samþykktar að hundur teljist hættulegur. Enginn sérfræðingur sem komið hafi að máli þessu hafi talið hundinn hættulegan.

Lögmaður kæranda kveður varðandi hið fyrra tilvik sem átt hafi sér stað í september 2001 liggi fyrir yfirlýsing stúlkunnar Hörpu Karenar Hjaltadóttur. Segi hún að hún hafi tekið fast um háls hundsins þannig að hann hafi ekki náð almennilega andanum og kurrhljóð komið frá honum. Hundurinn hafi brugðist svo við með því að veita henni litla rispu á kinn við að losa sig frá henni. Stúlkan hafi umgengist hundinn nánast daglega eftir þennan atburð og hafi hann aldrei sýnt annað en gott viðmót. Bendir lögmaður á að hundar séu dýr en ekki vélmenni og sýni því viðbrögð við aðstæðum líkt og menn. Telja verði því að þessi viðbrögð hundsins séu ekki óeðlileg miðað við aðstæður en þarna hafi lífslöngun haft ósjálfráð viðbrögð í för með sér. Þá hafi Umhverfisstofa byggt á lýsingu Önnu G. Ólafsdóttur blaðamanns varðandi atburðarrásina. Liggi fyrir skrifleg yfirlýsing hennar í gögnum málsins. Hafi verið um slys að ræða að mati hennar. Hundinum hafi virst sem stelpan ætlaði að hrifsa mat af honum. Sé þetta í samræmi við það sem aðrir viðstaddir hafi haft um málið að segja en Umhverfisstofa hafi kosið að ræða ekki við aðra viðstadda. Þannig sé aðdraganda slyssins ranglega lýst í ákvörðun kærða.

Lögmaðurinn lýsir því að kærði byggi á því að bitið hafi verið það alvarlegt að ígerð hafi komið í sárið. Bendir lögmaður á að menn verði að gera sér grein fyrir því að aðeins þurfi roða í húðþekju til að sýking geti komið í sár. Húð þurfi einungis að opnast lítillega til að af sýkingu geti orðið. Hér hafi ung stúlka farið á bráðamóttöku eftir “hundsglefs”. Þeir sem hlúð hafi að henni hafi ekki gefið henni stífkrampasprautu eins og algengast sé eftir hundsbit þar sem þeir hafi ekki talið hættu á sýkingu. Gera verði greinarmun á glefsi og hundsbiti. Lögmaðurinn kveður kærða byggja ranglega á því að hundurinn hafi verið óskráður og ótryggður þegar umrætt atvik hafi átt sér stað. Slíkt sé ekki rétt. Hundurinn hafi verið skráður hjá Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá því hann var hvolpur fram til 3. desember 2004 þegar kærandi hafi flutt til Reykjavíkur, en þar sé aðstaða til hundahalds mjög góð. Kærandi hafi ávallt farið eftir samþykkt um hundahald og verið til fyrirmyndar. Hundurinn hafi verið skráður og tryggður eins og getið sé um í samþykkt um hundahald.

Ákvörðun Umhverfisstofu hafi verið kærð til kærða sem hafi réttilega úrskurðað að ekki þyrfti að aflífa hundinn. Kærði hafi hins vegar úrskurðað að hundurinn fengi ekki leyfi til að vera skráður í Reykjavík. Með hliðsjón af meðalhófs- og jafnræðisreglum stjórnsýslulaga sé þetta afar einkennileg ákvörðun. Hafi dýralæknar staðfest að auðvelt sé að koma í veg fyrir slys sem orðið hafi og kærandi hafi fengið sérstaka kennslu hjá virtum hundaþjálfara til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Hafi verið farið fram á að kærði endurupptæki málið, en þeirri beiðni hafi verið hafnað. Samkvæmt samtali við starfsmenn kærða segi þeir ákvörðun byggða á því að hundurinn hafi verið óskráður, sem sé ekki rétt.

Ítrekar lögmaður kæranda að rangt sé að hundurinn hafi verið óskráður og ótryggður, en að auki verði að líta til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Hafi kærandi greitt hundaeftirlitsgjald hinn 26. janúar 2004 í Kópavogi og þar hafi hundurinn verið skráður til 3. desember 2004. Eftir að eigendur hafi greitt lokagreiðslu af fasteign sinni þar sem þau nú búa hafi þau sent inn beiðni til að halda hundinn í Reykjavík og greitt þess vegna kr. 15.400,-. Þannig hafi þau greitt tvöfalt gjald og tvöfaldar tryggingar vegna hundsins fyrir árið 2004. Ekki sé hægt að fallast á það sem ámælisverð brot á hundasamþykkt þegar aðstaða sé með þessu móti. Gæta verði jafnræðis með þegnum. Ekki sé óalgengt að hundar séu árum saman óskráðir og þegar upp komist um brot sé eigendum gert að skrá hunda og borga gjald fyrir yfirstandandi ár, en engin önnur viðurlög.

Lögmaðurinn bendir á að í sjö stafliðum 3. gr. samþykktar nr. 52/2002 um hundahald í Reykjavík komi fram þau skilyrði sem uppfylla þurfi svo hundur fái leyfi til skráningar í Reykjavík. Uppfyllli kærandi og hundur þeirra öll þau skilyrði sem þar komi fram. Eigandi sé lögráða, umsækjandi hafi sótt námskeið um hundahald, eigandi búi i einbýlishúsi með stórum garði, í gildi sé ábyrgðartrygging vegna hundsins og hundurinn sé örmerktur. Í staflið c komi fram að heimilt sé að hafna umsókn hafi umsækjandi gróflega eða ítrekað gerst brotlegur við samþykktina eða lög um dýravernd. Ekki verði með nokkru móti séð að kærandi hafi ítrekað eða gróflega brotið gegn samþykkt. Hundurinnn hafi ávallt verið skráður og til mikillar fyrirmyndar að umræddum tveim slysum frátöldum. Kærandi hafi ávallt farið vel með hund sinn. Hann hafi aldrei verið laus utandyra. Aldrei hafi verið kvartað undan honum á þeim ellefu árum sem hann hafi lifað og hann hafi aldrei valdið ónæði að umræddum tveim slysum frátöldum. Ítreka verði að fyrra tilvikið hafi ekki gefið ástæðu til sérstakra viðbragða og það tilvik geti ekki talist dæmi um grimmd hundsins. Síðara tilvikið sé slys sem verði þegar verið sé að fæða hund og áverkar stúlkunnar sýni og sanni að hundurinn hafi ekki bitið hana því þá hefðu áverkar verið aðrir og meiri en raun varð. Megi því ljóst vera að hundurinn hafi ekki bitið en við ákveðnar aðstæður hafi hann brugðist við með glefsi.

Vísar lögmaðurinn til þess að kærandi hafi í samráði við dýralækni farið með hundinn á námskeið hjá Ástu Dóru sem sé einn helsti og virtasti kennari í tamningu hunda. Bæði hún og dýralæknririnn séu sammála um að hundur sé ekki grimmur og auðvelt verði að færa hann niður í virðingarstiganum og að góð tengsl séu milli hunds og eigenda. Það sem finna hafi mátt að sé að eigendur hafi verið of góð við hund sinn. Nú hafi verið tekið á því og sé hundurinn eins gallalaus og hundur geti orðið. Með vísan til þess að sérfræðingar telji hundinn ekki grimman og þess að kærandi og hundurinn hafi gengist undir 5-7 vikna námskeið sé gerð sú krafa að hundurinn fái að vera hjá eigendum sínum í Reykjavík. Þá er krafist frestunar á réttaráhrifun kærðrar ákvörðunar meðan kæran sé til meðferðar hjá nefndinni. Mæli aðstæður í máli þessu sérstakelga með því þar sem um sé að ræða ellefu ára gamlan hund.

Með bréfi dags. 27. október 2005 sendi lögmaður kæranda umfjöllun hundaþjálfara um hundinn. Komi þar fram að hundurinn hafi lært virðingarröð á heimili, að gelta ekki á gesti og fl. Sé það mat hundaþjálfara að hundurinn ætti að fá að eyða ævikvöldi í faðmi fjölskyldu. Hafi engar kvartanir borist frekar vegna hundsins.

Lögmanni kæranda var sent afrit af greinargerð kærða. Er svar lögmannsins dags. 13. febrúar s.l. Þar ítrekar lögmaður að hundurinn hafi verið skráður í Kópavogi. Bendir hann á það sem að framan er komið fram um námskeið hundsins og eigenda hjá hundaþjálfara. Ennfermur er til þess vísað að aldrei hafi borist kvartanir vegna hundsins eða lausagöngu hans. Gerir lögmaður kæranda athugsemdir við greinargerð kærða þar sem ekki sé upplýst um skráningarreglur hjá Reykjavíkurborg þegar tilkynnt sé um óskráðan hund í borginni. Bendir lögmaður á að ekki sé gætt jafnræðis í því hvernig kærði taki á óskráðum hundum sem finnist og þeim reglum sem beita eigi kæranda í máli þessu. Þá vísar lögmaður og til aldurs hundsins og þess að um sé að ræða dýr sem lendi í sérstakri aðstöðu og bregðist við sem slíkur, enda um dýr að ræða. Ítrekar lögmaður það sem áður er fram komið um viðbrögð dýrs í hættu. Kveður kæranda og fjölskyldu hans ekki geta sætt sig við þá niðurstöðu að þau séu ekki hæf til hundahalds og hafi þessi afstaða lagst þungt á fjölskyldu sem óréttmæt miðurstaða sem ekki fái staðist. Hundurinn sé ekki hættulegur, eigendur séu hæfir til hundahalds, langt sé um liðið síðan atvikið varð. Ítrekar lögmaður kröfur sínar um skráningu hundsins í Reykjavík.

III.

Greinargerð kærða er dags. 8. nóvember 2005. Kærði bendir á að ekki verði séð að í kæru komi fram neinar nýjar ástæður sem gefi tilefni til athugsemda sem ekki hafi þegar komið fram í málinu. Vísi kærandi einkum til þess að nú sé viðkomandi hundur orðinn því næst gallalaus og vísar á bug að eigandi hundsins hafi brotið gegn hundasamþykkt Reykjavíkur. Kærði bendir á að svo sem fram komi í gögnum málsins hafi viðkomandi hundur ekki verið skráður í Reykjavík skv. samþykkt um hundahald í Reykjavík. Skráning í öðru sveitarfélagi skipti engu máli varðandi ákvörðun kærða um að synja um skráningu á hundi í Reykjavík og skráning hunds í Kópavogi jafngildi ekki skráningu í Reykjavík. Vísar kærði til þess að synjun hans hafi byggt á því að viðkomandi hundaeigandi hafi gerst brotlegur við samþykkt um hundahald í Reykjavík með því að skrá ekki hundinn þar skv. reglum þar um sbr. 7., 8. og 20. gr. samþykktar nr. 52/2002 í Reykjavík. Þá sé einnig leitt í ljós í málinu að tvívegis hafi það hent að hundurinn hafi bitið menn og því ekki farið að fyrirmælum 2. mgr. 19. gr. samþykktarinnar. Kærandi hafi ekki mótmælt þeim atvikum en telji þau afsakanleg með tilliti til aðstæðna á hverjum tíma. Það að brot sé afsakanlegt dregur ekki úr alvarleika þess að mati kærða. Kærði vísar og til þess að kærandi telji að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin í málinu. Kveður kærði að meðalhófsreglu hafi einmitt verið beitt í málinu þar sem kærði hafi beitt vægasta úrræði sem fyrir hendi hafi verið í málinu, þ.e. að synja um skráningu á hundinum í Reykjavík í stað þess að staðfesta ákvörðun um aflífun hundsins

IV.

Mál þetta snýst um skráningu hunds í Reykjavík. Krafa kæranda er að ákvörðun kærða um að hafna skráningu hundsins Taraks í Reykjavík verði felld úr gildi. Kærði krefst þess að niðurstaða hans um að hafna skráningu hundsins verði staðfest.

Svo sem kunnugt er, er bann við hundahaldi í Reykjavík, nema að fenginni undanþágu að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í samþykkt um hundahald í Reykjavík, nr. 52/2002. Í 3. gr. samþykktanna eru skilyrði fyrir undanþágu. Vísar kærði til 19. gr. hundasamþykktar um heimild til þess að hafna skráningu hundsins í Reykjavík. Vísa verður til þess að í málinu liggja fyrir umsagnir dýralæknis og hundaþjálfara vegna hundsins. Niðurstaða kærða er að staðfesta ekki úrskurð um aflífun. Ekkert í gögnum málsins styður þá ákvörðun að synja um skráningu hundsins. Verður því fallist á kröfu kæranda í málinu og lagt fyrir kærða að skrá hundinn Tarak.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda í málinu. Lagt er fyrir kærða að skrá hundinn Tarak.

___________________________________

Lára G. Hansdóttir

__________________________ ______________________________

Gísli Gíslaon Guðrún Helga Brynleifsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum