Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Flugfélagið fær tvær Dash flugvélar

Flugfélag Íslands tók formlega í notkun í gær tvær DASH 8 flugvélar sem notaðar verða einkum í leiguflug og áætlunarflug félagsins milli Íslands og Grænlands. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins, sagði við athöfn á Reykjavíkurflugvelli að vöxtur væri í innanlandsfluginu og brýnt að tryggja tilvist þess áfram um Reykjavíkurflugvöll. Undir það tók Sturla Böðvarsson samgönguráðherra í ávarpi sínu.

Nyjar flugv. FI
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri FÍ, fluttu ávörp þegar vélarnar voru formlega teknar í notkun.

DASH 8 vélar hafa ýmsa eiginleika sem ekki hafa verið í boði á íslenskum flugmarkaði, þær þurfa stutta flugbraut og geta til dæmis tekið á loft fullhlaðnar af um 800 metra flugbraut, þær þola meiri hliðarvind en sambærilegar vélar og taka meiri frakt, segir meðal annars á vefsíðu Flugfélags Íslands um vélarnar. Heildarfjárfesting í tengslum við nýju flugvélarnar er um 10 milljónir USD en grunnurinn að þessari fjárfestingu liggur í góðum rekstri félagsins á undanförnum árum og þeim samningum sem gerðir hafa verið um notkun DASH 8 vélanna.

Í þessu samhengi er rétt að benda á þá staðreynd að á undanförnum 5 árum hefur farþegafjöldi Flugfélags Íslands í innanlandsflugi vaxið um rúmlega 30%, ekki bara hefur fjöldi farþega á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Egilsstaða tvöfaldast heldur hefur einnig fjöldi farþega milli Reykjavíkur og Akureyrar annarsvegar og Reykjavíkur og Ísafjarðar hinsvegar vaxið á þessu tímabili um hátt á annan tug prósenta, segir einnig á vef FÍ.

Flugfélag Íslands hefur nú á að skipa 10 flugvélum, þar af 6 Fokker 50, 2 DASH 8 og 2 Twin Otter vélum. Heildarfarþegafjöldi félagsins á síðasta ári var um 350.000, velta tæplega fjórir milljarðar króna og starfsmannafjöldi 250.





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum