Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. ágúst 2006 Innviðaráðuneytið

Þingeyrarflugvöllur endurnýjaður

Þingeyrarflugvöllur var formlega opnaður í gær eftir endurbætur sem hófust á vordögum 2005. Völlurinn þjónar nú sem eins konar varaflugvöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll og eykur rekstraröryggi áætlunarflugs þangað. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði við athöfn í flugstöðinni að völlurinn myndi auka möguleika í innanlandsflugi og kvaðst vona að hann ýtti undir vöruflutninga með flugvélum.

Tingeyri0041
Sturla Böðvarsson klippir á borðann með aðstoð Þorgeirs Pálssonar, sem er honum á vinstri hönd og Hauks Haukssonar.

Guðbjörn Charlesson, umdæmisstjóri Flugmálastjórnar á Vestfjörðum, minntist sr. Stefáns heitins Eggertssonar, prests á Þingeyri sem var frumkvöðull að byggingu flugvallarins og annaðist þjónustu þar um árabil. Sagði Guðbjörn Stefán hafa verið sérstakan áhugamann um björgunarmál, fjarskipti og flugmál og hefði verið vakinn og sofinn í því starfi. Guðrún Sigurðardóttir, ekkja sr. Stefáns, og börn þeirra, Sigrún og Eggert, voru viðstödd athöfnina.

Endurbætur vallarins fólust meðal annars í lengingu brautar, stækkun öryggissvæða og meiri ljósa- og aðflugsbúnaði. Aðalverktaki var KNH á Ísafirði og nemur kostnaður alls, að meðtöldum nýjum vegi að flugvellinum kringum 190 milljónum króna.

Sturla Böðvarsson þakkaði aðilum fyrir vel unnin verk. Hann kvaðst vonast til að endurbæturnar myndu styrkja flug og samgöngumál á Vestfjörðum og virðaði þá hugmynd hvort það gæti til dæmis ýtt undir aukið vöruflug. Í ávarpi sínu kom ráðherra inná ýmis svið samgöngumála og sagði að í undirbúningi væri að rekstur og umsjón Keflavíkurflugvallar yrði færð undir samgönguráðuneytið. Þá kvaðst hann sjá fram á að þrátt fyrir tímabundna frestun ýmissa vegaframkvæmda myndi ekki líða á löngu þar til þeim yrði hleypt af stað.

Auk Guðbjörns og Sturlu fluttu ávörp þeir Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Haukur Hauksson varaflugmálastjóri og sr. Guðrún Edda Gunnarsdóttir flutti blessunarorð og bæn. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, upplýsti að með endurbótunum yrði Þingeyrarflugvöllur nú ákjósanlegur varaflugvöllur fyrir áætlunarflug til Ísafjarðar. Allmarga daga á ári hverju væri ófært til Ísafjarðar en mögulegt að lenda á Þingeyri sem þýddi öruggari ferðir þótt aka þyrfti farþegum milli fjarða sem tæki ekki svo langan tíma.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum