Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. ágúst 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norrænn þrýstingur á alþjóðlegar aðgerðir gegn kvikasilfursmengun

Umhverfisráðherrar Norðurlanda ákváðu á fundi sínum á Svalbarða 21. ágúst að stuðla að efldri baráttu gegn mengun af völdum kvikasilfurs og þrávirkra lífrænna efna. Norðurlöndin munu beita sér fyrir gerð alþjóðlegs sáttmála gegn kvikasilfursmengun, sem fer vaxandi víða, m.a. á Norðurslóðum. Unnið verður upplýsingaefni um mengun af völdum kvikasilfurs, sem kynnt verður í alþjóðlegum viðræðum um aðgerðir gegn slíkri mengun. Einnig verður lagt til hliðar fjármagn, sem nota má við framkvæmd alþjóðlegs samnings um kvikasilfur, ef samkomulag næst um gerð slíks samnings á fundi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna í febrúar 2007. Þá munu Norðurlöndin vinna að því að ný efni verði tekin inn í Stokkhólms-samninginn, sem kveður nú á um takmörkun á losun tólf þrávirkra lífrænna efna.

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sagði að það væri við hæfi að samþykkja á Svalbarða herta baráttu gegn mengun af völdum þungmálma og þrávirkra lífrænna efna, því rannsóknir þar og annars staðar á Norðurslóðum hefðu fært mönnum heim sanninn um að þessi efni bærust langar leiðir og söfnuðust fyrir í lífkeðjunni, sem hefði sýnt heimsbyggðinni fram á nauðsyn aðgerða.

Umhverfisráðherrarnir samþykktu einnig yfirlýsingu um aðlögun að loftslagsbreytingum, þar sem segir að Norðurlöndin muni vinna saman að því að bæta þekkingu á líklegum áhrifum loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag í ríkjunum. Nauðsynlegt sé að undirbúa aðlögun að loftslagsbreytingum, þar sem fyrirsjáanlegt sé að verulegar breytingar muni eiga sér stað á þessarri öld, eins þótt árangur náist við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Norðurlöndin munu vinna að því á alþjóðavettvangi að settar verði nýjar skuldbindingar um losun eftir 2012 og að öll helstu losunarríkin verði með í aðgerðum við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda hnattrænt.

Umhverfisráðherra vakti í þessu samhengi athygli á ráðstefnu um tengsl loftslagsbreytinga og hafstrauma, sem haldin verður í Reykjavík 11.-12. sept. Þar verður m.a. fjallað um hugsanleg áhrif loftslagsbreytinga á Golf-strauminn og kynntar niðurstöður norræns rannsóknaverkefnis á hafstraumum í nyrsta hluta Atlantshafsins.

Á ráðherrafundinum voru kynnt drög að áætlun um framtíðarverkefni Norræna umhverfisfjármögnunarsjóðsins, NEFCO. Sjóðurinn hefur einkum fjármagnað verkefni á sviði mengunarvarna í Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum og hefur náð miklum árangri við að draga úr mengun sem berst þaðan til Norðurlandanna og víðar. Ráðherrarnir lýstu yfir stuðningi við áframhaldandi verkefni á vegum NEFCO og ánægju með góðan árangur til þessa.


Frekari upplýsingar

Alþjóðlegar viðræður um kvikasilfursmengun

Kvikasilfur og efnasambönd þess eru skaðleg fólki og lífríki, en styrkur þeirra fer vaxandi víða í umhverfinu, m.a. á Norðurslóðum. Ríki heims hafa rætt saman á vettvangi Umhverfisstofnunar S.þ. (UNEP) um nokkra hríð um mögulegar aðgerðir á alþjóðavísu gegn mengun af völdum kvikasilfurs, en enginn alþjóðasamningur tekur á þessum vanda nú. Skiptar skoðanir eru um hvernig hægt sé að takast á við vandann alþjóðlega, en Norðurlöndin hafa hvatt til þess að bindandi alþjóðlegur samningur verði gerður um að draga úr losun kvikasilfurs út í umhverfið. Norðurlöndin hafa unnið saman að rannsóknarverkefnum og gerð upplýsingaefnis um kvikasilfursmengun um langa hríð og kynnt það efni m.a. á fundum UNEP.

Ráðherrayfirlýsing um aðlögun að loftslagsbreytingum – stutt samantekt

Norrænu umhverfisráðherrarnir hafa fundað á Svalbarða, þar sem þeim hefur verið kynnt vinna á norrænum vettvangi við að kortleggja hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga, m.a. á náttúru Norðurlandanna.

Ráðherrarnir lýsa yfir áhyggjum yfir þróun loftslagsmála á alþjóðavettvangi og leggja áherslu á að Norðurlöndin muni vinna að eflingu stefnumótunar í loftslagsmálum, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi, svo mögulegt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hnattrænt í samræmi við langtímamarkmið Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Öll Norðurlöndin munu standa við skuldbindingar sínar skv. Kýótó-bókuninni. Á alþjóðavettvangi munu ríkin vinna markvisst að því að samþykktar verði nýjar losunarskuldbindingar eftir árið 2012 og að Loftslagssamningurinn verði styrktur þannig að ákvæði hans nái til allra helstu losunarríkja og tryggt verði að losun á hnattræna vísu minnki verulega.

Jafnvel þótt náist að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda er óhjákvæmilegt að loftslag muni halda áfram að breytast vegna aukins styrk þeirra í andrúmsloftinu. Þegar eru greinileg merki um loftslagsbreytingar, ekki síst á Norðurslóðum. Vísindamenn búast við áframhaldandi hnattrænni hlýnun á næstu 100 árum. Áhrif breytinganna munu koma fram með mismunandi hætti eftir löndum og landsvæðum. Almennt má þó búast við að öfgar í veðurfari færist í vöxt, að meðalhiti aukist og yfirborð sjávar hækki. Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á náttúru og vistkerfi, atvinnuvegi, mannvirki og innviði samfélagsins.

Umhverfisráðherrarnir leggja áherslu á að ríkin þurfi að aðlagast nýjum aðstæðum vegna loftslagsbreytinga til að draga úr mögulegum skaða af þeirra völdum. Þetta þýðir að auka þarf rannsóknir á loftslagsbreytingum og mögulegum áhrifum þeirra á náttúru og samfélag. Þá þurfa ríkin að gera áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum í samræmi við samþykktir Loftslagssamningsins.

Í umhverfisáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2006-2008 er sérstaklega hvatt til þess að bæta þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á hafið og þýðingu þeirra fyrir náttúruvernd á Norðurlöndunum.

Umhverfisráðherrarnir munu vinna að því að bæta þekkingu á líklegum áhrifum loftslagsbreytinga og skilgreina aðgerðir til að draga úr þeim innan síns verksviðs. Ráðherrarnir munu m.a. skoða hvernig hægt sé að fylgja eftir niðurstöðum verkefnisins “Náttúruvernd á Norðurlöndum í ljósi loftslagsbreytinga.” Afleiðingar loftslagsbreytinga varða hins vegar margar atvinnugreinar og svið samfélagsins og því er nauðsynlegt að yfirvöld þeirra málaflokka komi einnig að vinnu við aðlögun að breytingum.

Umhverfisráðherrarnir munu styðja utanríkisráðherra Norðurlandanna í að auka umfjöllun um loftslagsmál og aðlögun að veðurfarsbreytingum á vettvangi Norðurskautsráðsins.

Nú er hafin vinna á norrænum vettvangi við að skoða hvaða afleiðingar hnattræn hlýnun um 2°C gæti haft fyrir Norðurlöndin og til hvaða aðgerða væri hægt að grípa til að draga úr neikvæðum afleiðingum slíkrar hlýnunar. Umhverfisráðherrarnir munu skoða nauðsyn frekari aðgerða m.a. á ljósi niðurstöðu þessarrar vinnu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum