Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. ágúst 2006 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 16. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 23. júní 2006 klukkan 9.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Jónína Bjartmarz og Kristrún Heimisdóttir voru forfallaðar. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Björg Thorarensen var forfölluð. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Þá voru lagðar fram fundargerðir vinnuhópanna þriggja sem starfað höfðu á milli funda (sjá nánar lið 3).

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

 Eftirfarandi erindi sem borist höfðu frá síðasta fundi voru lögð fram:

  • frá ASÍ og fleiri samtökum um nauðsyn þess að festa í stjórnarskrá ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns,
  • frá Herdísi Þorvaldsdóttur um nauðsyn þess að setja í stjórnarskrá ákvæði um gróðurvernd
  • frá Einari E. Sæmundssen um rétt til lífsgæða og hvernig mætti verja hann í stjórnarskrá,
  • frá sérnefnd Alþingis um stjórnarskrármál þar sem vakin er athygli á tveimur frumvörpum á 132. löggjafarþingi um breytingar á stjórnarskránni (þingseta ráðherra og samráð við Alþingi um stuðning við stríð).

 

3. Starf vinnuhópa

 Formaður rifjaði upp að á síðasta fundi hefðu verið settir á laggirnar þrír vinnuhópar til að fjalla um afmörkuð viðfangsefni í starfi nefndarinnar. Talsmenn vinnuhópanna gerðu því næst grein fyrir starfi þeirra.

 1. vinnuhópur: Dómstólakafli og framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana (BÁ, KH, JBj)

 BÁ gerði grein fyrir starfi 1. vinnuhóps. Í sambandi við dómstólakaflann hefði komið fram að grundvallarreglur um dómstólana, ekki síst skipun hæstaréttardómara, þyrftu að vera fyllri en nú er. Spurning væri hvort þau ákvæði þyrftu að vera í stjórnarskránni eða hvort nægilegt væri að breyta dómstólalögum. Fyrir lægju frumdrög að breytingum á dómstólakaflanum með mismunandi útfærslumöguleikum varðandi val á hæstaréttardómurum sem ET hefði tekið saman að beiðni vinnuhópsins.

 Varðandi framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana þá hefði það sjónarmið komið fram innan vinnuhópsins að tryggara væri að hafa ákvæði í stjórnarskránni sem heimilaði slíkt. Nefnt hefði verið í því sambandi að í Noregi til dæmis þyrfti, samkvæmt stjórnarskránni, aukinn meirihluta á þingi til framsals ríkisvalds. Fyllsta ástæða væri til að mæla fyrir um það í stjórnarskránni að ákveðið ferli færi í gang þegar fram kæmu tillögur um hugsanlegt framsal ríkisvalds. Fram kom að BTh hefði verði falið að taka saman minnisblað um hugsanlegar breytingar á 21. gr. stjórnarskrárinnar.

 Í umræðum kom fram það viðhorf að þörf væri á að gera skipan hæstaréttardómara sem faglegasta og lýðræðislegasta. Ein leið væri sú að dómnefnd fjallaði um dómaraefni líkt og í Danmörku. Önnur leið væri sú að Alþingi þyrfti að staðfesta skipan dómara. Í því væri fólgið aðhald gagnvart ráðherra. Menn hlytu að spyrja sig hvort væri alvarlegra núverandi ástand eða hugsanleg hætta á pólítískum afskiptum. Aðrir lögðu áherslu á að pólitískt vald og ábyrgð ætti að vera hjá ráðherra þótt breyta mætti umsagnarferlinu. Hætta gæti verið fólgin í því að Alþingi kæmi að skipan hæstaréttardómara og var vísað til Bandaríkjanna sem vítist til varnaðar í því sambandi. Krafa um staðfestingu Alþingis gæti leitt til þess að ráðherra axlaði ekki sömu ábyrgð á ákvörðun. Einnig gætu komið upp vandkvæði milli stjórnarflokka í samsteypustjórn. Í öllu falli ykist hætta á að embættaveitingar yrðu pólitískt bitbein. Þá var varað við þeirri hugmynd að hægt væri að finna hlutlæga mælikvarða við val á dómurum.  

 Þá kom fram það viðhorf að nóg væri að hafa í almennum lögum ákvæði um þessi efni, ekki þyrfti að útfæra þau í stjórnarskrá. Það gæti verið hluti af starfi þessarar nefndar að ná samkomulagi um slíkar lagabreytingar.

Varðandi önnur atriði þá var nefndur sá möguleiki að forseti lýðveldisins fengi neitunarvald um skipan hæstaréttardómara, hugsanlega gæti það verið þáttur í auknu hlutverki forsetans. Því var ennfremur varpað fram að ástæða væri til að huga að tímabundinni skipan hæstaréttardómara, til 10-15 ára til dæmis. Þá styngju lífeyrissréttindi þeirra í stúf við það sem almenn gerist.   

 Var sérfræðinganefndinni að lokum falið að útfæra nánar tillögur um breytingar á dómstólakaflanum í ljósi umræðnanna.

 

2. vinnuhópur: Mannréttindakafli og ákvæði um auðlindir og umhverfisvernd (BjB, GAK, ÖS)

 BjB gerði grein fyrir starfi 2. vinnuhóps. Fyrir lægju tillögur frá vinnuhópnum um almennt ákvæði um skyldu stjórnvalda til að virða og tryggja mannréttindi, um umhverfismál og um auðlindir. Ljóst væri að þessum ákvæðum þyrfti að fylgja ítarleg greinargerð. Í umræðum kom fram að menn vildu til dæmis skoða gaumgæfilega hvaða áhrif almennt mannréttindaákvæði af þessu tagi hefði. Þá kom fram það sjónarmið að til viðbótar við slíkt ákvæði þyrfti að nefna kynhneigð í 65. gr. stjskr., rétt til trúleysis í 63. gr. og kveða á um mannhelgi á viðeigandi stað í stjórnarskránni. Þá var ítarlega rætt um afleiðingar þess að setja ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir líkt og auðlindanefnd lagði til á sínum tíma. Fram kom það sjónarmið að taka þyrfti fram berum orðum að villtir fiskistofnar væru sameign þjóðarinnar.

 

3. vinnuhópur: Forseti, ríkisstjórn, þjóðaratkvæðagreiðslur o.fl. (JKr, SJS, ÞP, ÖS)

JKr gerði grein fyrir starfi 3. vinnuhóps. Rætt hefði verið um breytingar á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Einkum hefðu menn staðnæmst við þann möguleika að þingið kæmi að neitunarvaldi forseta lýðveldisins.

Þá hefði verið rætt um aðkomu forseta lýðveldisins að stjórnarmyndunum og tímafresti í því sambandi. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur hefði einkum verið rætt um það hvort þjóðin ætti að geta kallað þær fram. Þá hefði sú spurning verið rædd hvort stjórnarskrárbreytingar ætti að bera undir þjóðina í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefðu einnig verið ræddar veigaminni spurningar eins og hvort fjölga bæri meðmælendum vegna forsetaframboðs og hvort forseti sem byði sig fram til endurkjörs þyrfti meðmælendur.

Í umræðum kom fram að enn teldu sumir að engin þörf væri á að breyta 26. gr. á meðan aðrir teldu það forsendu þess að einhverjar stjórnarskrárbreytingar yrðu samþykktar. Nefndur var ákveðinn möguleiki til málamiðlunar varðandi 26. gr., þ.e. að tengja breytingar á 26. gr. almennri rýmkun á möguleikum til þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

 4. Starfið framundan

Formaður gerði að umtalsefni þá staðreynd að tíminn væri orðinn naumur til að ljúka við heildarendurskoðun á þessu kjörtímabili. Einn möguleiki væri sá að leggja einungis á þessu stigi til breytingar á 79. gr. stjskr. með það fyrir augum að haldin yrði almenn þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá á miðju næsta kjörtímabili. Sýndist sitt hverjum um þessa hugmynd, sumir minntu á að nefndin hefði það verkefni að undirbúa heildarendurskoðun og því ætti hún ekki að gera tillögur um neitt sem gengi skemmra. Aðrir töldu að unnt ætti að vera á skömmum tíma að ná saman um nokkur grundvallaratriði þótt heildarendurskoðun biði. Var sérfræðinganefndinni falið að útfæra hugsanlegar breytingar á 79. gr. fyrir næsta fund.

 

5. Önnur mál

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 15.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu föstudaginn 25. ágúst frá kl. 10-15.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum