Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. september 2006 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 17. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 25. ágúst 2006 klukkan 10.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Jónína Bjartmarz og Bjarni Benediktsson voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt með lítilsháttar breytingum. Þá var lögð fram fundargerð 24. fundar sérfræðinganefndarinnar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

Lagt var fram erindi frá Ian Watson um ágæti kennitölu eins og hún er notuð á Íslandi.

Þá var lögð fram skrifleg ósk frá Elíasi Davíðssyni fyrir hönd lýðræðishópsins um fund með nefndinni. Var ritara falið að svara Elíasi á þá lund að formaður og Össur Skarphéðinsson væru reiðubúnir að hitta hann að máli.

 

3. Efnisleg yfirferð yfir mögulegar stjórnarskrárbreytingar

Í samræmi við ákvörðun síðasta fundar, kynnti Eiríkur Tómasson fyrir hönd sérfræðinganefndarinnar mismunandi útfærslu á breytingum á 1. mgr. 79. gr. (stjórnarskrárbreytingar). Nefndarmenn reifuðu því næst sín sjónarmið varðandi þessar hugmyndir. Fram kom að gæta yrði þess að stjórnarskrárbreytingar yrðu ekki of auðveldar. Þá væri æskilegt að þjóðin hefði síðasta orðið. Var sérfræðinganefndinni falið að endurskoða útfærslu sína í ljósi umræðnanna.

Einn nefndarmanna lagði fram minnisblað með hugmyndum sem hann hafði reifað á síðasta fundi um hvernig mætti skýra hlutverk og stöðu forsetaembættisins, um þjóðaratkvæði og um stjórnarskrárbreytingar.

Þá kynnti Björg Thorarensen fyrir hönd sérfræðinganefndarinnar hugmyndir um breytingar á 21. gr. stjórnarskrárinnar varðandi heimild til framsals ríkisvalds og samráð stjórnvalda við Alþingi um utanríkismál. Í umræðum kom meðal annars fram það viðhorf að gera þyrfti ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um meiriháttar framsal ríkisvalds til dæmis í formi ESB-aðildar.

 

4. Önnur mál

Tekin var upp að nýju umræða frá síðasta fundi um framhald á störfum nefndarinnar. Ákveðið var að stefna að tveimur fundum í september til þess að sjá hversu langt væri hægt að komast í samkomulagsátt um tiltekin atriði. Staðan yrði svo metin að nýju í kjölfar þeirra funda. Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 13.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu þriðjudaginn 12. september frá kl. 13-17.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum