Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. september 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Ræða á landsþingi Hjartaheilla

Ávarp Sivjar Friðleifsdóttur,

heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

9. landsþing Hjartaheilla haldið í Reykjavík

Ágætu landsfundarfulltrúar og aðrir gestir.

Samtök hjartasjúkra – Hjartaheill -  hafa um langa hríð verið meðal öflugustu samtaka sjúklinga í landinu. Samfélagið allt getur þakkað það óeigingjarna starf sem unnið er á vettvangi samtakanna. Samtök ykkar hafa verið óþreytandi í að halda á lofti hagsmunamálum félagsmanna ykkar bæði til skemmri tíma og lengri.

Stjórnmálamenn og aðrir eiga auðvitað að fara varlega í fullyrðingum sínum, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að óvíða fá hjartasjúklingar betri þjónustu en einmitt hér á landi og óvíða hafa sjúklingasamtök eins og ykkar jafn mikil áhrif.

Að mínum dómi er það þrennt sem veldur þessu. Í fyrsta lagi eigum við framúrskarandi góða lækna á öllum sviðum hjartalækninga. Í öðru lagi hefur jafnan ríkt góður skilningur á því hjá heilbrigðisyfirvöldum að leggja mikinn metnað í þjónustuna við hjartasjúklinga og í þriðja lagi hafa samtök, félög og einstaklingar lagt gríðarlega mikið af mörkum til tryggja að þjónustan á þessu sviði lækninga sé í fremstu röð. Og hér á er ég auðvitað að tala um gjafir og framlög einstaklinga, sem þið vitið öll um, ég er að tala um öfluga starfsemi og rannsóknir Hjartaverndar og ég er síðast en ekki síst að tala um öflugt félagastarf samtaka hjartasjúklinga.

Sem heilbrigðismálaráðherra mun ég gera það sem í mínu valdi stendur til að þjónustan við þennan sjúklingahóp verði áfram þannig að við getum kinnroðalaust borið okkur saman við það sem best gerist í nálægum löndum.

Menn þurfa ekki að hafa setið lengi í stól heilbrigðismálaráðherra til að komast að því að verkefnin eru ærin og vandamál oft flókin, en hvoru tveggja gerir starf heilbrigðismálaráðherra skemmtilegra og krefjandi en ella.

Um svipað leyti og ég tók við sem heilbrigðismálaráðherra gengu sérfræðilæknar í hjartalækningum af samningi sem samtök lækna höfðu skrifað undir skömmu áður til þriggja ára.

Samningaviðræður voru árangurslausar og læknar voru ekki tilbúnir til að hvika frá kröfum sínum um meira fé vegna þeirrar verktakavinnu sem ríkið semur við þá um að veita.

Krafan samsvaraði, ef ég man rétt um 1,4 milljónum króna á mann á ári til viðbótar því sem samið áður hafði verið um.

Í svona stöðu er heilbrigðismálaráðherranum nokkur vandi á höndum.

Í þessu sambandi endurtek ég það sem ég sagði þá, að ég lít svo á að skyldur mínar sem stjórnmálamanns séu fyrst og síðast við almenning. Þess vegna meðal annars brást ég við þeirri stöðu sem kom upp þegar hjartalæknar gengu af samningi  í vor með því að reyna að tryggja almenningi þann endurgreiðslurétt sem ég tel að almenningur eigi að lögum.

Ég vil ítreka í þessu sambandi að það voru hjartalæknarnir sem sögðu sig af nýgerðum samningnum með umsömdum þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Almenningur er sjúkratryggður og á rétt á niðurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sérfræðilækna, sem aftur er háður því að verktakasamningur læknis og samninganefndar HTR sé í gildi, og þar með er það hlutverk ráðherrans að sjá svo til að þessi lögfesti réttur sé tryggður.

Það gerði ég með því sem ég kaus að kalla valfrjálst endurgreiðslukerfi til þess að tryggja rétt almennings. Þetta felur í sér að fólk velur sjálft hvort það kýs að fara án tilvísunar til sérfræðilæknis og greiða þá fullu verði, eða fær tilvísun heilsugæslulæknis  til að virkja rétt sinn til niður- eða endurgreiðslu.

Þetta var besta leiðin sem unnt var að fara við þessar nýju aðstæður til að geta tryggt rétt einstaklinganna og jafnframt að búa svo um hnútana að við gætum haldið góðu þjónustustigi.

Ég hef ekki orðið vör við það meðal almennings að í samfélaginu séu forsendur fyrir að fella niður þann endurgreiðslurétt almennings sem hér um ræðir og það er víðtæk sátt um það meðal þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda að hið opinbera greiði þjónustuna niður.

Heilbrigðisþjónustan er, ásamt góðri almennri menntun og félagslegu öryggi, sú stoð sem  stendur undir velferðarkerfi nútímans, og vilji menn breyta því kerfi í einhverjum grundvallaratriðum, þá er ég í fyrsta lagi tilbúin í þá umræðu og í öðru lagi tel ég eðlilegt að hún fari fram. Sú umræða mun ekki snúast um samninga við einstakar stéttir manna heldur um velferðarkerfið sjálft í veigamiklum atriðum.

Nú heyri ég að uppi eru kröfur um kerfisbreytingar til dæmis af hálfu sumra sérfræðilækna og á sama tíma eru ört vaxandi kröfur frá almenning, annars vegar um fyrsta flokks þjónustu á öllum sviðum, og hins vegar um að dregið sé úr skattheimtu.

Við þurfum því að forgangsraða verkefnum og fjármagni sem til þjónustunnar er veitt, en nú veitum við um 10% af vergri þjóðarframleiðsu til heilbrigðismála. Í því verkefni þurfa bæði hagsmunir heilbrigðisstétta og almennings, ég ítreka, sérstaklega almennings, að ráða för.

Allir sem um það hugsa gera sér grein fyrir að á næstu árum og áratugum verða miklar breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Á það jafnt við um flestar megingreinar læknisfræði, lækningaaðferðir, meðferðarúrræði, lækningatæki, starfsemi heilheilbrigðisstofnana, verksvið heilbrigðisstétta og aðra þætti er tengjast heilbrigðisstarfsemi.

Við sjáum þegar áhrif sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík þar sem háskólasjúkrahúsið er orðið miðstöð þekkingar og sérfræðiþjónustu sem önnur sjúkrahús, heilsugæslustöðvar  og reyndar öll önnur heilbrigðisstarfsemi í landinu tengist með einum eða öðrum hætti.

En þrátt fyrir að breytingar séu í aðsigi þá megum við ekki missa sjónar á grundvellinum sem velferðarþjónustan, og þar með heilbrigðisþjónustan hvílir á, og það er einmitt þess vegna sem ég legg áherslu á að setja kröfur hagsmunasamtaka og hagsmunaaðila um breytingar í það samhengi sem ég hef hér drepið á. Og ég bið ykkur að hafa hugfast að skylda stjórnmálamannsins í þessu sambandi almenn, það er til dæmis að tryggja rétt þeirra sem eiga skilgreindan rétt til aðstoðar eða niðurgreiðslu kostnaðar við heilbrigðisþjónustu.

Varðandi þjónustu Landspítalans við hjartasjúklinga þá er afar mikilvægt að greina hlutina rétt.

Þjónustan er mjög góð og frábært starfsfólk leggur sig fram um að gera hana betri. Metnaður fagfólksins er mikill og því bera að fagna. Af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur verið lögð áhersla á að viðhalda þeirri góðu stöðu sem hjartalækningar á spítalanum hafa haft.

Á flestum sviðum erum við að tala um bætta þjónustu, en ef við tölum sérstaklega um hjartadeildina þá er vandi hennar kannski fyrst og fremst útskriftarvandi, eins og einn leiðtogi deildarinnar sagði á dögunum þegar hann sagði, að útskriftirnar væru stærsti vandi spítalans og að allur rekstur yrði einfaldari þegar sá vandi leystist.

Spítalinn og heilsugæslan vinna nú hörðum höndum að því að gera það, og ánægjulegt til þess að vita til þess að um miðjan mánuðinn verður byrjað að útskrifa hluta aldraðra og veita þeim  sérhæfða þjónustu í heimahúsum, sem ætti að liðka fyrir inni á spítalanum.

Um er að ræða samstarfsverkefni heilsugæslunnar og Landspítalans þar sem lögð verður áhersla á samvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfara. Ég bind vonir við að þessi þjónusta skili okkur þeim árangri að fljótlega byrji að draga úr útskriftarvanda spítalans og að hann verði í þessum skilningi úr sögunni innan ekki allt of langs tíma.

Þið spyrjið sérstaklega um gangainnlagnir og samkvæmt upplýsingum sem mér bárust í gær þá hafa gangainnlagnir á hjartadeild verið svipaðar á þessu ári og síðustu árin. Til að leysa það viðvarandi vandamál var ákveðið að flytja nýrnasjúklinga á deild 13 - E. Þessi breyting var gerð á dögunum, eða 4. september sl. og eftir því sem mér er sagt af sviðsstjóra lyflækningasviðs I þá telur hún að gangainnlagnir á hjartadeild leysist að mestu með þessari breytingu.  Von mín er að þetta fari langt með að leysa vandann á venjulegum degi.

Ég veit líka að menn lögðu á það mikla áherslu í sumar og vor að mæta mikilli manneklu, meðal annars vegna barnsburðarleyfa starfsfólks, með aukinni yfirvinnu á þá sem voru við störf með það að markmiði að þurfa ekki að fækka rúmum. Og þetta tókst.

Varðandi hjartaþræðingar er rétt að taka fram að þeim hefur fjölgað um rétt innan við 50% frá því á árinu 2000. Á sama tíma hefur kransæðavíkkunum fjölgað um 50 af hundraði.

Hvoru tveggja er mælikvarði á bætta þjónustu hjartadeildarinnar við sjúklinga. Rétt er að hafa í huga í þessu sambandi að sjúkrahúsin í Reykjavík voru sameinuð í kringum árið 2001.

Það hefur verið bið eftir hjartaþræðingum og þótt biðin sé hér styttri en víðast hvar þá sættum við okkur ekki við hana. Nú bíða 227 manns eftir þræðingu og dæmi eru um að fólk hafi þurft að bíða í sjö mánuði. Það er of langur tími, þótt ekki megi gleyma að menn sem eru akút eða bráða veikir bíða yfirleitt ekki, en mér er sagt að nú verði allt kapp lagt á að stytta þessa bið með því að starfsemin fer á fullt og einnig hefur rúmum á hjartadeildunum verið fjölgað eins og áður segir.

Þegar biðlisti eftir hjartaþræðingu er skoðaður í september 2005 og 2004 þá sést að 2005 biðu 248 einstaklingar eftir hjartaþræðingu og 157 árið 2004.  Eftir kransæðaaðgerð biðu 12 í september í fyrra og 26 í september 2004.

Við viljum gera betur, sem er sjálfsagt, en víða annars staðar þætti þetta góð þjónusta, við skulum ekki gleyma því.

Svo megum við heldur ekki gleyma því sem tengist samskiptum ykkar og heilbrigðisyfirvalda, sem mér finnst persónulega að sjúklingasamtök ættu að kynna sér og fagna alveg sérstaklega, en það eru áformin um nýja spítalabyggingu.

Mér finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt að forystumenn ykkar samtaka fengjuð kynningarfund um þau áform af hálfu framkvæmdanefndarinnar meðal annars til að koma á framfæri skoðun ykkar og áliti.

Góðir fulltrúar.

Forveri minni í embætti og ég sjálf höfum lagt okkur fram um að það síðustu misserin að ná niður verði á lyfjum á Íslandi almennt.

Í þeim efnum hefur miðað verulega þegar við horfum almennt á málin. Samningar við innflytjendur hafa skilað sér í lægra verði og sama má segja um innlenda lyfjaframleiðendur. Meðaltalsútgjöld almennings vegna lyfja hafa aukist minna, en neysluverðvísitalan hefur hækkað undanfarin fjögur ár. Eins og þið vitið segja þessar kennitölur hins vegar ekki alla söguna því hlutur sjúklings í útsöluverði út úr apóteki fer meðal annars eftir þeim afsláttum sem viðkomandi apótek gefur af hlut sjúklings. Öll eru þessi mál í endurskoðun en markmið mitt er að verð lyfja verði hér sambærilegt við það sem er í viðmiðunarlöndum okkar sem ætti þá að hafa í för með sér lækkandi útgjöld fyrir þá sem nota lyfin.

Ágætu landsfundarfulltrúar.

Ég lofaði og prísaði samtök ykkar í upphafi og endurtek mikilvægi samtaka eins og ykkar, bæði til að berjast fyrir bættum hag sjúklinga, en ekki síður fyrir mikilvægi þjónustunnar við sjúklingahópinn almennt.

Því vil ég endurtaka það sem ég sagði um byggingu nýs spítala og endurskipulagningu þjónustunnar sem mun stórbæta aðstöðu og þar með þjónustu frá því sem nú er. Ég legg áherslu á að ykkar raddir heyrist í þessu sambandi og hvet eindregið til þess að þið komið sjónarmiðum ykkar á framfæri við þá framkvæmdanefnd sem nú er að skipuleggja hvernig starfseminni verður fyrir komið í nýja sjúkrahúsinu og með hvaða hætti.

Þar fyrir utan lýsi ég mig reiðubúna til að taka upp reglulega á vettvangi ráðuneytisins samráðsfundi með samtökum ykkar um það sem þið teljið að brenni helst á sjúklingahópnum.

Mér er kunnugt um að fulltrúi ykkar og ráðuneytisins, sem er Sveinn Magnússon læknir, hafa hist á nokkrum fundum undanfarna mánuði til að ræða framkvæmd endurgreiðslukerfisins sem sett var upp vegna hjartalæknamálsins. Það hafa verið góðir upplýsingafundir, en ég tel  afar mikilvægt að hittast og reyna að þoka málum áfram og í rétta átt – sameiginlegir hagsmunir okkar liggja í að vilja gera betur við sjúklingana.

Ég þakka fyrir –og tek mér það bessaleyfi að bjóða ykkur að bera fram spurningar til mín þótt það sé ekki á dagskránni, ef fundarstjóri leyfir.

 

 (Talað orð gildir)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum