Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. september 2006 Innviðaráðuneytið

Fjöltækniskólinn kaupir Flugskólann

Gengið hefur verið frá kaupum Fjöltækniskóla Íslands á Flugskóla Íslands. Fjöltækniskólinn hefur tekið ýmsum breytingum síðustu misserin og veitir nú alhliða tæknimenntun á sviði siglinga og vélstjórnar og tæknimenntun á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Fjöltækniskóli Íslands er einkarekinn skóli byggður á grunni Vélskóla Íslands og Stýrimannaskólans í Reykjavík samkvæmt þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið frá 1. ágúst 2003. Í kjölfar breytinga hjá Flugskóla Íslands hafa forráðamenn Fjöltækniskólans átt í viðræðum um kaup á rekstri skólans með það í huga að kennsla yrði flutt í húsnæði Fjöltækniskólans. Með því er unnt að samnýta rekstrarúrræði skólans enn betur. Samgönguráðuneytið lítur á þessa breytingu jákvæðum augum og var Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, fulltrúi ráðuneytisins þegar samningar um kaupin voru undirritaðir. Flutningurinn krefst ákveðinna breytinga á samþykktum Flugskólans og yrði hann þá sjálfseignarstofnun og hugsalegur arður notaður í rekstur skólans en ekki greiddur eigendum.

Hjá Fjöltækniskólanum er fyrir hendi margháttuð reynsla af kennslu á sviði tækni-, véla- og öryggismála og hjá Flugskóla Íslands hefur að byggst upp sérhæfð þekking á öllu því sem lýtur að atvinnuflugi. Í sameinuðum skóla verður til vísir að alhliða menntastofnun á sviði samgöngumála og þangað er unnt að sækja þekkingu á sviði skipstjórnar, vélstjórnar og flugstjórnar. Með öflugri menntastofnun á sviði þessara samgöngumála er rennt enn sterkari stoðum undir sterkan rekstrargrundvöll samgöngu- og flutningafyrirtækja þar sem tækni, kunnátta og öryggi eru leiðarljós. Samgönguskóli styrkir bæði uppbyggingu þessara mikilvægu atvinnugreina og verður til þess að öryggi verður áfram aukið á öllum sviðum samgangna eins og samgönguráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum