Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. september 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra hefur ákveðið fyrirkomulag rjúpnaveiða

Rjúpa
Rjúpa

Umhverfisráðherra hefur ákveðið fyrirkomulag veiða á rjúpu haustið 2006.

Náttúrufræðistofnun mat veiðiþol rjúpnastofnsins fyrir umhverfisráðuneytið og byggðist matið á þeirri stefnu stjórnvalda að rjúpnaveiðar séu sjálfbærar. Það var mat stofnunarinnar að óvæntir atburðir hefðu orðið í rjúpnastofninum og talningar sýndu að stofninn er á niðurleið eftir tveggja ára uppsveiflu. Varpstofn 2006 er talinn 180.000 fuglar og er það fækkun um 40.000 fugla frá í fyrra. Við mat á veiðiþoli er miðað við að afföll unga verði nú á haustdögum líkt og 2005 og útreikningar á stærð veiðistofns miðast við að hlutfall unga verði 70%, þ.e. það sama og haustið 2005. Stofnunin mat stærð veiðistofns 2006 um 500.000 fugla og ásættanleg veiði um 45.000 fuglar.

Umhverfisráðherra ákvað í fyrra að veiðitíminn yrði frá 15. október til 30. nóvember auk þess sem bannað var að selja rjúpu. Stjórn rjúpnaveiða árið 2005 tókst ágætlega. Stefnt var að 70.000 fugla veiði og mat Umhverfisstofnunar er að heildarveiði hafi verið á bilinu 70.000 til 75.000 fuglar. Miðað við sóknargetu veiðimanna er augljóst að þeir hafa langflestir dregið verulega úr veiðum sínum og þannig orðið við áskorun um að sýna hófsemi við veiðar.

Þrátt fyrir þetta gengu væntingar um afkomu rjúpunnar ekki eftir. Ljóst er að margir þættir aðrir en skotveiðar hafa áhrif á afkomu rjúpunnar og það er talið líklegt að óhagstætt tíðarfar sumar og haust 2005 hafi verið afdrifaríkt. Í fyrra kom haustið snemma og var rysjótt auk þess sem slæmt vorhret í lok maí olli vanhöldum í varpi.

Í ljósi þessa hefur umhverfisráðherra ákveðið eftirfarandi:

 

Veiðitímabilið verði frá 15. október til 30. nóvember.

Veiðar verði ekki heimilaðar mánudag, þriðjudag og miðvikudag.

Áframhaldandi sölubann á rjúpu og rjúpnaafurðum.

Áfram friðað svæði á Reykjanesskaga.

Hvatningarátaki meðal veiðimanna um hófsamar og ábyrgar veiðar verði haldið áfram.

Virkt eftirlit í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, úr lofti eftir því sem kostur er.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum