Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. september 2006 Innviðaráðuneytið

Siglingastofnun Íslands 10 ára

Siglingastofnun Íslands fagnar nú 10 ára afmæli sínu. Stofnunin varð til við samruna Siglingamálastofnunar ríkisins og Vita- og hafnamálastofnunar 1. október 1996. Siglingastofnun er einn þeirra aðila sem standa að öryggisviku sjómanna sem nú stendur.

Oryggisvika0082
Frá setningu öryggisviku sjómanna sem Siglingastofnun er einn aðila að. Frá vinstri Svana Margrét Davíðsdóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir, Sturla Böðvarsson, Hermann Guðjónsson og Gísli Viggósson.

Hermann Guðjónsson siglingamálstjóri segir í ávarpi í nýjasta tölublaði Til sjávar, fréttabréfi Siglingastofnunar, að stofnunin sé fyrst og fremst þjónustustofnun á sviði siglingamála og öryggismála sjófarenda. ,,Mikilvægt er að stofnunin nái áfram að þróast og dafna næstu árin þannig að hún geti sinnt hlutverki sínu sem best. Nauðsynlegt er að átta sig á líklegri þróun verkefna á siglingasviðinu og líta til þess hvað aðrar þjóðir í nágrenninu eru að gera á þessu sviði,? segir Hermann meðal annars og telur einnig mikilvægt að líta til uppbyggingar Alþjóða siglingamálstofnunarinnar og Siglingaöryggisstofnunar Evrópu.

Rakið er í pistli siglingastjóra hvernig stofnunin hefur á þessum tíu árum unnið að framgangi margra mikilvægra verkefna, til dæmis ,,útgáfu ýmiss konar fræðsluefnis fyrir sjófarendur í tengslum við áætlun um öryggi sjófarenda sem núverandi samgönguráðherra átti frumkvæði að. Á sama tíma hefur stofnunin haft umsjón með stórfelldum endurbótum á höfnun landsins,? segir einnig í pistlinum. Þá segir að mikil verkefni séu framundan við að fylgja eftir alþjóðlegum kröfum um vöktun á skipaumferð við landið, koma á skipulagi á neyðarhafnir og neyðarathvörf fyrir skip, ekki síst í ljósi vaxandi umferðar stórra olíuflutningaskipa á leið frá Rússlandi og Noregi til Bandaríkjanna.

Eins og fyrr segir er Siglingastofnun Íslands einn aðila sem stendur að öryggisviku sjómanna og ráðstefnu um tæknilega samvinnu útgerða, áhafna og aðila í landi. Þar flytja verkfræðingar Siglingastofnunar meðal annarra erindi um ýmislegt er lýtur að öryggismálum sjófarenda. Ráðstefnan verður haldin í Fjöltækniskóla Íslands á morgun, miðvikudag, og hefst klukkan 10 með ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum