Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. október 2006 Dómsmálaráðuneytið

Nýtt lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu – helstu áhersluatriði, skipulag og yfirstjórn nýs embættis

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfðuborgarsvæðisins boðuðu til kynningarfundar í dag þar sem kynnt voru áhersluatriði og markmið nýs lögregluembættis á höfuðborgarsvæðinu, væntanleg yfirstjórn embættisins auk þess sem skipulag og skipurit embættisins voru kynnt.
Blaðamannafundur með lögreglustjóra höfðuborgarsvæðisins
05.10.06 Þjóðmenningarhús

Frá því að Stefán Eiríksson var skipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í sumar hefur markvisst verið unnið að því að stofna hið nýja lögregluembætti höfuðborgarsvæðisins. Að því verki hafa komið undir stjórn Stefáns varalögreglustjórinn í Reykjavík ásamt yfirlögregluþjónum embættanna þriggja, sem verið er að sameina, auk þess framkvæmdastjóri, starfsmannastjóri og saksóknari lögreglunnar í Reykjavík. Margir kynningar- og upplýsingafundir hafa verið haldnir með væntanlegum lykilstjórnendum innan hins nýja embættis, starfsmönnum hjá embættunum þremur og ýmsir smærri fundir með hagsmunaaðilum, samtökum lögreglumann þar á meðal Landssambandi lögreglumanna, Félagi íslenskra rannsóknarlögreglumanna og Kríunum, tengslaneti lögreglukvenna., svo og með forsvarsmönnum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur verið skipuð og tekið til starfa ráðgjafanefnd með fulltrúum starfsmanna embættanna þriggja og fulltrúum þeirra stéttarfélaga sem að málinu koma. Starfar nefndin undir forystu Ólafs K. Ólafssonar sýslumanns Snæfellinga.

Meðal þeirra atriði sem kynnt hafa verið eru fyrstu drög að stefnumótun embættisins svo og drög að skipuriti þess. Eftir nánari yfirferð ráðuneytisins og fleiri aðila hefur dómsmálaráðherra í dag staðfest skipurit hins nýja embættis til bráðabirgða. Á grunni þess verður unnið að flutningi starfsmanna embættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu til hins nýja embættis og síðan störfum skipt nánar innan þess. Útfærsla og skipulag einstakra sviða verður ákveðin af yfirmönnum og starfsmönnum mismunandi eininga á grunni þeirrar grundvallarstefnumótunar sem fyrir liggur. Að því er stefnt að nýtt skipurit verði formlega staðfest um miðjan desember nk.

Grundvallarstefnumótun nýs embættis.

Í drögum að grundvallarstefnumótun embættisins er haft að leiðarljósi að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dveljast á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem markmið eru sett um fækkun afbrota á nánar skilgreindum sviðum. Eftirtaldir lykilþættir skipta mestu til að þessum markmiðum verði náð:

  • Aukin sýnileg löggæsla.
  • Efld hverfa- og grenndarlöggæsla og forvarnastarf í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.
  • Betri og skilvirkari rannsóknir sakamála.
  • Traust og fagleg þjónusta á öllum sviðum og skilvirk miðlun upplýsinga bæði innan embættisins og gagnvart almenningi.
  • Bætt nýting fjármuna.

Grunnskipulag nýs embættis.

Í skipuritinu, sem staðfest hefur verið til bráðabirgða, er ráð fyrir því gert að starfsemi hins nýja embættis skiptist í tvö meginsvið, annars vegar löggæslusvið og hins vegar stjórnsýslu- og þjónustusvið. Aðstoðarlögreglustjórar fara með yfirstjórn þessara tveggja sviða. Ingimundur Einarsson verður aðstoðarlögreglustjóri yfir stjórnsýslu- og þjónustusviði embættisins og jafnframt staðgengill lögreglustjóra. Þá hefur dómsmálaráðherra ákveðið samkvæmt heimild í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að flytja Hörð Jóhannesson yfirlögregluþjón í embætti aðstoðarlögreglustjóra hjá nýju embætti frá og með næstu áramótum, og mun hann stýra löggæslusviði þess.

Nánar um yfirstjórn mála á löggæslusviði embættisins.

Geir Jón Þórisson verður yfirlögregluþjónn almennrar deildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem skiptist í tvo meginhluta, annars vegar almenna löggæslu og hins vegar svæðisstöðvar, þar sem m.a. verður sinnt hverfalöggæslu, forvarna- og fræðslustarfi og samskiptum við sveitarfélög.

Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn mun stýra umferðardeild embættisins, þar sem bæði verður sinnt umferðarlöggæslu sem og rannsóknum umferðarslysa og framhaldsrannsóknum umferðarlagabrota ásamt fleiru.

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn mun stýra rannsóknardeild embættisins, sem skiptist í fjórar deildir; auðgunarbrot og sérrefsilagabrot, fíkniefnabrot, ofbeldisbrot og kynferðisbrot.

Nánar um yfirstjórn mála á stjórnsýslu- og þjónustusviði embættisins.

Egill Stephensen saksóknari mun stýra ákærudeild embættisins.

Halldór Halldórsson framkvæmdastjóri mun stýra fjármála- og þjónustudeild embættisins sem skiptist annars vegar í leyfa- og þjónustudeild og hins vegar í rekstrardeild.

Sigríður Hrefna Jónsdóttir starfsmannastjóri mun stýra starfsmannadeild embættisins sem annast og ber ábyrgð á öllum starfsmannamálum embættisins, þar á meðal starfsmannastefnu, starfsþróunarmálum og sí- og endurmenntun starfsmanna.

Á næstu vikum verður unnið að frekari tilflutningi stjórnenda- og starfsmanna til hins nýja embættis og að því stefnt að því verði að mestu lokið innan nokkurra vikna. Við svo búið hefst nánari stefnumótunarvinna embættisins, bæði innan einstakra sviða og deilda sem og gerð árangursstjórnunarsamnings þar sem markmið og mælikvarðar verða nánar skilgreindir í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og ríkislögreglustjóra. Jafnframt verður unnið að starfsmannastefnu nýs embættis, jafnréttisáætlun, samstarfssamningum við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ýmsu fleiru.

Reykjavík 5. október 2006

Skipurit embættis lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins Pdf-skjal



Blaðamannafundur með lögreglustjóra höfðuborgarsvæðisins
05.10.06 Þjóðmenningarhús
Blaðamannafundur með lögreglustjóra höfðuborgarsvæðisins
05.10.06 Þjóðmenningarhús
Blaðamannafundur með lögreglustjóra höfðuborgarsvæðisins
05.10.06 Þjóðmenningarhús

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum