Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. október 2006 Innviðaráðuneytið

Tveir mikilvægir samningar um flug í höfn

Gengið var í dag frá tveimur samningum milli samgönguyfirvalda og flugfélaga um áætlunarflug frá Reykjavík til nokkurra staða á landinu. Annar samningurinn er við Flugfélag Íslands til 10 mánaða um flug til Vestmannaeyja og hinn við Flugfélagið Erni um flug til Bíldudals, Gjögurs, Hafnar og Sauðárkróks. Gildir hann frá næstu áramótum í þrjú ár.

Flugsamn. 4519
Sturla Böðvarsson áritar samninginn við Flugfélagið Erni. Hjá honum er Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri, þá Hörður Guðmundsson og Jónína Guðmundsdótti, forráðamenn flugfélagsins.

Samningurinn við Flugfélag Íslands er gerður í framhaldi af því að Landsflug hætti áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja 25. september. Ljóst þótti að slíku flugi yrði ekki haldið uppi án aðkomu ríkisvaldsins og því ákvað samgönguráðherra að leita samninga til skamms tíma um slíkt flug og í framhaldinu að bjóða út flugleiðina með langtímasamning í huga.

Samningurinn er gerður milli Flugfélags Íslands og Vegagerðarinnar fyrir hönd samgönguyfirvalda. Gildir hann frá 10. október næstkomandi í 10 mánuði. Gert er ráð fyrir að farnar verði tvær ferðir á dag alla daga nema laugardaga þegar ein ferð er í boði. Notaðar verða ýmist Dash 8 eða Fokker 50 flugvélar. Kostnaður ríkisins við samninginn nemur kringum 58 milljónum króna.

Hinn samningurinn er við Flugfélagið Erni um áætlunarflug frá Reykjavík til Bíldudals, Gjögurs, Hafnar og Sauðárkróks. Gildir hann frá næstu áramótum í þrjú ár og er kostnaður við hann alls um 350 milljónir króna. Ernir hafa til umráða fjórar flugvélar sem taka 5 til 9 farþega.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum