Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. október 2006 Innviðaráðuneytið

Útboð vegna vegaframkvæmda af stað á ný

Þar sem felld hefur verið úr gildi sú tímabundna ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fresta útboðum vegna vegaframkvæmda ráðgerir Vegagerðin að bjóða út á ýmis verkefni sem tilbúin eru til útboðs víða um landið. Þrjú verk hafa þegar verið auglýst og önnur verða auglýst á næstu vikum. Jafnframt verður ráðist í átak til úrbóta á umferðaræðunum út frá Reykjavík.

Beðið er með útboð fyrir Hófaskarðsleið, 28 km kafla á Norðausturvegi milli Katastaða og Krossavíkur. Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segir að beðið sé með útboð þar sem enn sé ekki búið að útklá ágreining varðandi hugsanlegt eignarnám. Segist hann vonast til að hægt verði að bjóða út verkefnið fljótlega á nýju ári. Nýja leiðin liggur yfir Melrakkasléttu nokkru norðar en núverandi vegur um Öxarfjarðarheiði. Ráðgert er að ljúka henni árið 2008 og er fjárveiting til verksins alls kringum einn milljarður króna.

Verkefnin þrjú sem þegar hafa verið auglýst eru 7,7 km kafli á Hringveginum milli Skjöldólfsstaða og Ármótasels á Jökuldal. Ráðgert er að breyta legu vegarins á þessum kafla og leggja ræsi í Gilsá í stað brúar sem nú er á veginum. Verkinu skal lokið 1. ágúst 2008. Þá verður Hringvegurinn milli Reykjavíkur og Egilsstaða norður um landið lagður bundnu slitlagi.

Annað verkefni er Uxahryggjavegur um Tröllaháls. Er það 9,7 km malarvegur ásamt 20 m brú á Sandvatnskvísl og skal því verki vera lokið 20. október á næsta ári. Þriðja verkefnið er 3,6 km kafli á Veigastaðavegi milli Hringvegar og Eyjafjarðarbrautar eystri og á því að vera lokið 15. ágúst 2007.

Meðal stórra verkefna sem bjóða á út í þessum og næsta mánuði er kafli á Djúpvegi, á Vestfjarðavegi í Kollafirði og ný leið um Arnkötludal verður síðan boðin út á næsta ári.

Umfangsmesta verkið sem boðið verður út í þessum mánuði er áframhaldandi uppbygging Djúpvegar nr. 61. Er það 28,3 km kafli milli Eyrarhlíðar í Ísafirði og Mjóafjarðar sem ljúka á árið 2008. Alls verður veitt til verksins kringum 1.500 milljónum króna á þeim tíma. Sú breyting verður á Djúpvegi að hann mun framvegis liggja um Reykjafjörð og Vatnsfjörð og yfir utanverðan Mjóafjörð á uppfyllingu og brú um Hrútey. Var þessi leið talin betri kostur en að byggja upp veginn yfir Eyrarfjall.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum