Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. október 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Endurvinnslustöðin í Sellafield sektuð

British Nuclear Group var á mánudag dæmt til að greiða 500.000 sterlingspund, eða sem samsvarar 63 milljónum íslenskra króna, í sekt vegna leka 83.000 rúmlítra af geislavirkum vökva úr skemmdu röri í endurvinnslustöðinni í Sellafield í apríl í fyrra. Þá var fyrirtækinu gert að greiða sem samsvarar tæpum níu milljónum króna í málskostnað. Það var Breska heilbrigðis- og öryggisstofnunin (Health and Safety Executive) sem kærði British Nuclear Group fyrir atvikið en fyrirtækið rekur endurvinnslustöðina í Sellafield sem er í eigu breskra stjórnvalda.

Umhverfisráðherra óskaði á sínum tíma eftir nákvæmum skriflegum upplýsingum frá breskum stjórnvöldum um atvikið og málið var rætt við sendiherra Bretlands á Íslandi auk þess sem samband var haft við breska umhverfisráðherrann og fulltrúa British Nuclear Group. Þá tók ráðherra málið einnig upp á fundi Norrænna umhverfisráðherra en Ísland hefur ásamt hinum Norðurlöndunum ítrekað brýnt fyrir breskum stjórnvöldum þá hættu sem hreinleika Norður-Atlantshafsins stafar af losun geislavirkra efna frá endurvinnslustöðinni í Sellafield.

Í tilkynningu frá British Nuclear Group þann 27. maí í fyrra sagði að lekinn hefði ekki borist út úr verksmiðjunni og að starfsmenn og umhverfi hafi ekki orðið fyrir áhrifum vegna lekans.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum