Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. október 2006 Innviðaráðuneytið

Telur málsóknir vegna flugslysa ekki í þágu flugöryggis

Lagaumhverfi ríkja er mismunandi en okkur finnst sú þróun háskaleg sem borið hefur meira á að undanförnu að þeir sem kunna að tengjast flugslysum séu lögsóttir vegna þeirra jafnvel áður en rannsókn á orsökum er lokið. Þetta segir William R. Voss, nýkjörinn forstjóri alþjóðlegu flugöryggissamtakanna Flight Safety Foundation, en hann ávarpaði árlega ráðstefnu FSF í París í síðustu viku.

IASS - Bill Voss
William Voss er nýr forstjóri alþjóðlegu flugöryggissamtakanna Flight Safety Foundation.

FSF og fleiri samtök sendu nýlega frá sér ályktun þar hörmuð er sú aukna alþjóðlega tilhneiging að finna sökudólga þegar flugslys eru annars vegar eins og segir í ályktuninni. Þessa tilhneigingu segir Voss ógna flugöryggi fremur en bæta enda sé það eini tilgangur allra rannsóknarnefnda flugslysa að komast að orsök eða orsökum til að flugheimurinn geti dregið af þeim lærdóm. ,,Við töldum rétt að vekja athygli á þessu núna vegna nýlegra mála sem upp hafa komið en þar er til dæmis í einu tilviki verið að lögsækja fyrrverandi starfsmenn flugfélags og flugvélaverksmiðju, sem nú eru komnir á eftirlaun, vegna slyss sem varð fyrir 14 árum,? segir Voss í samtali við vefsíðu samgönguráðuneytisins. Hann starfaði áður hjá ICAO, Alþjóða flugmálastofnuninni um árabil.

Í íslenskri löggjöf um rannsóknir á flugslysum (lög nr. 35/2004) segir að þær skuli aðeins miða að því að auka öryggi í flugi. Lögin gera ráð fyrir að vernduð séu gögn sem rannsakendur taki í vörslu sína og skýrslum Rannsóknarnefndar flugslysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum. Meðal gagna sem talin eru upp í lögunum eru upptökur eða endurrit af framburði þeirra sem rannsakendur yfirheyra, upptökur af samskiptum eða skráðum samskiptum sem átt hafa sér stað í stjórnklefa loftfars, á vinnustað flugumferðarstjóra og annarra flugverja og flugliða, eða endurriti af slíkum samskiptum, og hvers konar álitsgerðum sem aflað hefur verið í tengslum við mat á fyrirliggjandi gögnum, þar með talið á flugritum loftfara. Verði flugslys tilefni rannsóknar að hætti laga um meðferð opinberra mála er slík rannsókn óháð rannsókn flugslysa. Skal rannsóknarnefnd flugslysa veita lögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna og unnt er með dómsúrskurði að krefjast ákveðinna gagna ef ætla má að úrslit máls velti á slíkum gögnum.

Níu málaferli á fáum árum

Málin sem Voss vísar til eru alls níu, meðal annars nýtt mál vegna áreksturs tveggja véla yfir Brasilíu þar sem B737-800 þota frá flugfélaginu Gol fórst en Embraer þota lenti heilu og höldnu og er mál hafið á hendur flugmönnum síðarnefndu vélarinnar. Þá er vísað í mál hæstaréttar Frakklands sem hafnaði því að vísa frá málarekstri í kjölfar þess er Concorde þota fórst í París árið 2000; mál vegna vélar frá Air Inter fórst í Strasborg fyrir 14 árum, mál þegar svissnesk yfirvöld sökuðu flugumferðarstjóra fyrir vanrækslu sem leiddi til mannskaða þegar B757 og TU 154 vélar rákust saman yfir suðurhluta Þýskalands og dóm ítalskra yfirvalda vegna áreksturs SAS vélar og Cessna vélar á flugbraut í Mílanó

Forstjórinn nýi segir það eitt af þýðingarmiklum hlutverkum FSF að uppfræða almenning um stöðu öryggismála í flugi og yfirlýsingin nú sé samþykkt til að minna fjölmiðla og almenning á þessa afstöðu en einnig lögfræðinga og aðra sem koma við sögu í sakamálum. Hin samtökin sem aðild eiga að ályktuninni eru flug- og geimrannsóknastofnun Frakklands, samtök flugumferðarstjórna, og konunglega breska flugrannsóknastofnunin.

Innan raða Flight Safety Foundation eru 1019 aðilar frá 149 löndum og eru það flugvélahönnuðir og smiðir, þar með taldar helstu flugvélaverksmiðjur heimsins, flugmálayfirvöld nokkurra landa, flugfélög, nokkur samtök flugmanna og flugumferðarstjóra og IATA, Alþjóðasamtök áætlunarflugfélaga. Hlutverk samtakanna er meðal annars að gangast fyrir rannsóknum og standa fyrir verkefnum um bætt verklag á ýmsum þáttum flugsins þar sem menn telja einhverja veikleika á ferðinni, segir Voss og bendir meðal annars á þau hafi staðið fyrir útgáfu á þjálfunar- og kennsludiski, fyrir fáum árum þar sem tekin eru fyrir ákveðin atriði varðandi aðflug og lendingar. Þetta efni sé nú kennt í mörgum löndum og sum lönd krefjist þess að flugmenn hafi setið námskeið um þetta efni áður en þeir fá fullgilt skírteini eða endurnýjuð skírteini hafi þeir ekki áður setið slíkt námskeið. ,,Við teljum okkur líka hafa hlutverk á því sviði að fylgjast með því að aðalhlutverk flugfélaga sé ekki að græða fé og nýta gamlar flugvélar og spara sér fjárfestingu heldur að tryggja ávallt að öryggi sé í fyrsta sæti,? segir Voss.

Nýtt verkefni sem FSF kom af stað fyrir tveimur árum var að kortleggja slys og tjón sem verða á flugvöllum. Fulltrúar yfirvalda, flugvalla, flugrekenda, IATA og fleiri hafa látið safna skipulega upplýsingum um slík óhöpp og slys og segir Voss ráðgert að gefa út á næsta ári leiðbeiningar um hvernig þeir sem nota flugvelli geti dregið úr þeim.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum