Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. nóvember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tilkynning til fjölmiðla frá félagsmálaráðuneytinu

Félagsmálaráðherra kynnir stefnumótun um þjónustu við fötluð börn og fullorðna 2007–2016.

  • Árið 2016 njóti allt fatlað fólk á Íslandi sambærilegra lífskjara og lífsgæða og aðrir þegnar þjóðfélagsins.
  • Árið 2016 verði fagleg þekking og færni starfsfólks á við það sem best gerist í Evrópu.
  • Árið 2016 verði verklag og gæði þjónustunnar á við það sem best gerist í Evrópu.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra efnir til fréttamannafundar í Fjöliðjunni, vinnustað fyrir fatlað fólk við Dalbraut 10 á Akranesi, fimmtudaginn 9. nóvember kl. 10. Þar mun hann, ásamt samstarfsfólki sínu, fylgja úr hlaði nýjum stefnudrögum og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins um þjónustu við fötluð börn og fullorðna fyrir áratuginn 2007–2016 sem nú er á lokastigi.

Á fundinum mun liggja frammi samantekt og helstu niðurstöður stefnudraganna, sem og framtíðarsýn og framtíðarstefna ráðuneytisins í þessum efnum. Þessi skjöl verður síðan að finna á vefsíðu félagsmálaráðuneytisins (www.felagsmalaraduneyti.is) ásamt skjali þar sem er að finna þá hugmyndafræði og greiningu sem drögin og áætlunin byggir á.

Formleg kynning ráðherra á fundinum er hluti af viðamiklu kynningar- og samráðsferli sem staðið hefur yfir um nokkra hríð og verður fram haldið næstu vikur á vefsíðu ráðuneytisins og víðar. Meðal annars verður komið á gagnvirku sambandi á vefsíðunni þannig að allur almenningur getur sett fram ábendingar sínar og sent inn fyrirspurnir. Gert er ráð fyrir að stefnan muni liggja fyrir í endanlegu formi í lok árs þegar unnið hefur verið úr ábendingum.

Vinnan að stefnudrögunum hefur nú staðið yfir í tvö ár. Þegar í upphafi voru skipaðir starfshópar notenda, aðstandenda þeirra og starfsfólks í málaflokknum, alls 30 manns, sem lögðu grunn að verkefninu og hafa fylgst með því síðan. Þetta fólk hefur haft ríkulegt samráð við bakland sitt, hagsmunasamtök fatlaðra, aðstandenda þeirra og samstarfsfólk, þannig að áætla má að vel á annað hundrað manns hafi komið að verkinu. Stefnudrögin hafa jafnframt verið send til formlegrar umsagnar heildarhagsmunasamtaka fatlaðra, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands, og fleiri sérfróðra aðila.

Nánari upplýsingar veitir Þór Garðar Þórarinsson skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu í síma 545 8100.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum