Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra lagði áherslu á aðgerðir gegn loftslagsbreytingum

Ráðherrar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sem eru ábyrgir fyrir landbúnaði, fiskveiðum, matvælum og skógrækt.
Í Jevnaker í Noregi

Ráðherrar á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sem eru ábyrgir fyrir landbúnaði, fiskveiðum, matvælum og skógrækt komu saman til fundar í Jevnaker í Noregi í síðustu viku. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra sat fundinn og tók m.a. þátt í umræðum um matvælaöryggi, sjálfbæra þróun og orkuframleiðslu úr lífmassa. Umhverfisráðherra lagði sérstaka áherslu á að fjallað yrði um aðgerðir gegn loftslagsbreytinum í lokaályktun fundarins um strandsvæði og strjálbýl svæði. Að hennar ósk kom fram í ályktuninni að ráðherrarnir gerðu sér grein fyrir þeim áhrifum sem loftslagshlýnun kann að hafa á skilyrði til búsetu og jarðræktar. Þörf væri á frekari rannsóknum til að auka skilning á afleiðingum hlýnunar og til að finna leiðir til að aðlagast henni. Þá þyrfti einnig að efla aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að binda þær með landgræðslu og skógrækt.

Aðrar niðurstöður fundarins voru þær að nánari samvinna verður tekin upp á ákveðnum sviðum sela- og fiskveiðistjórnunar í Eystrasalti og að leiða verði leitað til að efla samvinnu í orkuframleiðslu úr lífmassa. Þá samþykktu ráðherrarnir að styðja við landbúnaðarframleiðslu í nærumhverfi, auka varnir gegn smitsjúkdómum dýra og efla rannsóknir og umræðu um genabreyttar lífverur. Á fundinum var einnig fjallað um ólöglegar fiskveiðar og nauðsyn þess að bregðast við þeim.

Tillaga norska landbúnaðar- og matvælaráðherrans um stofnun norrænna matargerðarverðlauna var til umræðu á fundinum og ákváðu ráðherrarnir að vísa henni til umfjöllunar hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Fulltrúar Íslands á fundinum auk umhverfisráðherra voru Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu og Kristinn Hugason, sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum