Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. nóvember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Reglugerð um starfsréttindi áfengis- og vímuefnaráðgjafa

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur sett reglugerð um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa, og kynnti hún ákvörðun sína fulltrúum áfengis-og vímuefnaráðgjafa á fundi í heilbrigðismálaráðuneytinu í dag. Reglugerðin veitir áfengis- og vímuefnaráðgjöfum sérréttindi á starfsheitinu og starfssviði á þessum vettvangi að uppfylltum skilyrðum um menntun og starfsreynslu. Skilyrðin eru meðal annars klínísk og fræðileg menntun auk handleiðslu og prófa. Við undirbúning málsins var samráða haft við landlæknisembættið, yfirlækni í áfengis- og vímuvörnum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og hagsmunafélag ráðgjafanna.

Til að geta kallað sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa þurfa umsækjendur um starfsheitið að uppfylla eftirfarandi kröfur að lágmarki:

  • Fullt þriggja ára starf eða 6000 klukkustundir alls við áfengis- og vímuefnaráðgjöf á heilbrigðisstofnun, þar sem þverfaglegt teymi undir faglegri stjórn læknis í fullu starfi vinnur að áfengis- og vímuefnameðferð
  • Umsækjandi skal hafa fengið fræðslu sem nemur 300 klukkustundum og skal fræðslan taka til lyfjafræði vímuefna, vinnutilhögunar og faglegrar framgöngu í ráðgjafarstarfinu, ásamt hugmyndafræði og siðfræði  áfengislækninga
  • Umsækjandi skal hafa fengið handleiðslu af þar til bærum heilbrigðisstarfsmanni í hópstarfi, viðtölum og á samráðsfundum, alls 225 klukkustundir
  • Þekking umsækjanda þarf að hafa verið sannreynd með prófi og starfshæfni vottuð af faglegum yfirmanni heilbrigðisstofnunar þar sem námið fór fram.

Landlæknir gerir tillögur um nauðsynlega undirbúningsmenntun áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hvernig henni skuli hagað. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðfestir tillögur landlæknis. Ráðuneytið skal í samráði við Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) og Landspítala háskólasjúkrahús (LSH) og aðra þá aðila sem fagráð metur hæfa, sjá til þess að veitt sé nauðsynleg kennsla á þessu sviði.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum