Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. nóvember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherra leggur fram á Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin í Genf 2005 og 2006

Í samræmi við ákvæði í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) hefur félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson, lagt fyrir Alþingi skýrslu um 93. og 94. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf sem voru haldin á árunum 2005 og 2006. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir 7. Evrópuþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem haldið var 2005.

   

Ágreiningur um vinnuskilyrði sjómanna

Sagt er frá umræðum á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu um tillögu að nýrri alþjóðasamþykkt og tilmælum um vinnuskilyrði sjómanna um borð í fiskiskipum. Mikill ágreiningur var um gildissvið samþykktarinnar sem endurspeglaði mismunandi byggingarlag skipa í Asíu og Evrópu. Um tíma leit út fyrir að tekist hefði að jafna þann ágreining sem uppi var með því að láta ákvæði samþykktarinnar taka til fiskiskipa sem eru lengri en 24 metrar eða 175 mælingatonn eða stærri. Mikilvægar fiskveiðiþjóðir í Asíu, þar á meðal Japanir, lýstu því yfir að þessi málamiðlunartillaga kæmi ekki til móts við hagsmuni þeirra. Niðurstaða þingsins varð nokkuð söguleg þar sem einungis vantaði eitt atkvæði til að samþykktin fengi tilskilinn stuðning til að ná fram að ganga. Að fenginni þessari niðurstöðu samþykkti þingið tilmæli til stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um að málið verði tekið að nýju á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 2007. Í umræddri tillögu að alþjóðasamþykkt er meðal annars kveðið á um ábyrgð útgerðarmanns, skipstjóra og sjómanna á fiskiskipum, enn fremur um mönnun og hvíldartíma, fyrirkomulag á greiðslu launa, aðbúnað og fæði, heilsugæslu, vinnuvernd, tryggingar og um vernd vegna atvinnutengdra sjúkdóma, slysa eða dauða. Í viðaukum við samþykktina er meðal annars að finna tilmæli um form ráðningarsamninga.

 

Aðbúnaður og hollustuhættir

Almenn umræða um efni nýrrar alþjóðasamþykktar um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum fór einnig fram á 93. þinginu. Samkomulag náðist um gerð rammasamþykktar sem hefur að markmiði að auðvelda þróunarríkjum að bæta smám saman aðbúnað og auka öryggi á vinnustöðum. Drög að samþykktinni verða til síðari umræðu á Alþjóðvinnumálaþinginu að ári. Fram kom í máli margra þingfulltrúa að mikið atvinnuleysi ungs fólks veldur víða miklum áhyggjum. Þingið samþykkti áætlun fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina um aðgerðir til að stuðla að fjölgun atvinnutækifæra fyrir ungt fólk. Á það var lögð áhersla að áætlunin yrði að vera skýr og markviss þar sem byggt væri á menntun og stuðningi við rétt ungs fólks í samræmi við alþjóðasamþykktir ILO og tækniaðstoð stofnunarinnar.

 

Afnám nauðungarvinnu

Í skýrslu félagsmálaráðherra er enn fremur gerð grein fyrir umfjöllun á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu um skýrslu sérfræðinganefndar stofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta sem fjalla um réttindi og skyldur í atvinnulífinu. Umfangsmesta umræðan var um meint brot Burma (Myanmar) á alþjóðasamþykktum um afnám nauðungarvinnu. Þingið hvatti stjórnarnefnd ILO og aðildarríkja ILO til að grípa til harðari aðgerða gegn herforingjastjórninni í landinu. Einnig voru fordæmd viðvarandi brot stjórnarinnar á alþjóðasamþykktum um félaga- og samningafrelsi. Þingnefnd Alþjóðavinnumálaþingsins um framkvæmd alþjóðasamþykkta fór einnig yfir slæmt ástand þessara mála í Hvíta-Rússlandi. Nefndin samþykkti tilmæli til stjórnarnefndar ILO um að senda sendinefnd til að aðstoða stjórnvöld við að koma á umbótum en einnig til að leggja mat á aðgerðir stjórnvalda til að koma til móts við gagnrýni sem áður hafði komið fram.

 

Tímamótasamþykkt

Aukaþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í febrúar 2006 afgreiddi alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna eins og framan greinir. Samþykktin verður ein fjögurra grundvallarsamþykkta sem fjalla um málefni á sviði siglinga. Hinar þrjár eru samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um menntun, þjálfun, vaktstöður og skírteini sjómanna (STCW), um öryggi mannslífa á höfunum (SOLAS) og um varnir gegn mengun hafsins (MARPOL). Með samþykktinni fer Alþjóðavinnumálastofnunin inn á nýjar brautir að því er varðar framsetningu alþjóðlegra reglna á sviði vinnuréttar og vinnuverndar. Í fyrsta skipti er að finna í sömu samþykktinni skuldbindandi ákvæði auk reglna sem eru leiðbeinandi fyrir aðildarríki. Um er að ræða tímamótasamþykkt á vettvangi ILO.

Alþjóðasamþykktin um vinnuskilyrði farmanna hefur að geyma ákvæði um lágmarksréttindi að því er varðar aldur farmanna, vinnutíma, hvíldartíma, aðbúnað, fæði, vistarverur og hollustuhætti um borð í skipum öðrum en fiskiskipum. Ítarleg ákvæði eru um skyldur fánaríkja og hafnarríkja hvað varðar skoðun og eftirlit með starfsskilyrðum og lífskjörum farmanna um borð. Unnið var að smíði alþjóðasamþykktarinnar í tæp fimm ár. Drög að henni voru til umfjöllunar á fjölmörgum undirbúningsfundum. Samþykktinni er ætlað að leysa af hólmi 68 alþjóðasamþykktir um málefni farmanna sem hafa verið afgreiddar á Alþjóðavinnumálaþingum. Sú elsta er frá árinu 1920. Þótt Alþjóðavinnumálaþingið hafi afgreitt samþykktina einróma gengur hún ekki í gildi fyrr en 30 aðildarríki, sem samanlagt hafa 33 af hundraði skipaflota heims miðað við brúttótonnatölu, hafa fullgilt hana.

 

Aukin samvinna Evrópu og Mið-Asíu

Sjöunda Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var haldið í febrúar 2005 í Búdapest í Ungverjalandi. Að jafnaði eru slík þing haldin á fjögurra ára fresti. Fimmtíu og tvö aðildarríki í Evrópu og Mið-Asíu áttu rétt á að senda fulltrúa til Evrópuþingsins og nýttu 50 þann rétt. Þetta var í annað skiptið sem íslensk sendinefnd tók þátt í þinginu. Helstu viðfangsefni þingsins voru samráð stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins, bætt stjórnsýsla og aukin efnahagssamvinna ríkja Evrópu og Mið-Asíu. Einnig var fjallað um nýlega skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um áhrif alþjóðavæðingar á framvindu félags- og vinnumála, atvinnumál ungs fólks og stöðu miðaldra og eldri starfsmanna á vinnumarkaðnum.

 

Tenging frá vef ráðuneytisinsSkýrsla félagsmálaráðherra til Alþingis um 93. og 94. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum