Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. nóvember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Hvað vil ég að bíði mín á hjúkrunarheimili?

Ágætu málþingsgestir.

Komiði sæl og velkomin á málþing Stjórnvísi um öldrunarþjónustu. Ég vil byrja á að þakka þeim sem standa að málþinginu fyrir að veita mér tækifæri til að segja hér nokkur orð. Sömuleiðis lýsi ég ánægju minni með að þetta þing skuli haldið þar sem umræðan er þörf og ástæða til að ætla að við förum heim fróðari en við komum.

Hér á að ræða grundvallarspurningar sem varða þjónustu við aldraða á hjúkrunarheimilum, hvernig hún snýr að öldruðum og aðstandendum þeirra, hvernig henni er sinnt af hjúkrunarheimilunum og hvernig stjórnvöld setja stefnuna, móta þjónustuna og fylgja því eftir að hún sé veitt eins og lög gera ráð fyrir og markmið segja til um.

Þau eru orðin mörg, málþingin og ráðstefnurnar um öldrunarþjónustu sem ég hef tekið þátt í frá því að ég tók við embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Raunar fleiri en ég kann að telja í fljótu bragði. Ég fullyrði að málefni aldraðra hafa aldrei verið ofar á baugi en nú. Umræðan er heit, á köflum tilfinningaþrungin, enda erum við flest að ræða um velferð og aðstæður okkar nánustu og jafnvel framtíð okkar sjálfra áður en langt um líður.

Hér er spurt: ,,Hvað vil ég að bíði mín á hjúkrunarheimili?” Nálgun viðfangsefnisins getur ekki verið beinskeyttari og krefst heiðarlegra svara.

Ég hef sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sett fram stefnu mína í málefnum aldraðra og tel að sýn mín sé skýr. Öldrunarþjónusta hér á landi er of stofnanamiðuð. Því vil ég breyta og hef þegar hrint af stað ýmsum verkefnum með það að markmiði að gera öldruðum kleift að búa lengur sjálfstæðri búsetu á eigin heimili með margvíslegum stuðningi. Ég er sannfærð um að við getum hæglega gert mun fleirum kleift að búa lengur heima þannig að lægra hlutfall aldraðra en nú þurfi á hjúkrunarheimilisvist að halda.

Hjúkrunarheimili eru umfjöllunarefnið hér í dag og því ætla ég að halda mig við þá umræðu, þótt margt mætti segja um þjónustu í heimahúsum og stuðningsúrræði eins og hvíldar- eða skammtímainnlagnir, dagvistun og endurhæfingu. Þessi úrræði þarf að efla og sömuleiðis þarf að tryggja gott framboð af fjölbreyttu húsnæði sem hentar öldruðum miðað við þarfir þeirra og aðstæður.

Við þurfum líka að draga úr forræðishyggju okkar gagnvart öldruðum og leggja okkur betur fram um að kynna okkur viðhorf þeirra og vilja, væntingar og þarfir. Ég geri ráð fyrir að margir hér kannist við könnun sem gerð var meðal aldraðra í Hafnarfirði sem metnir höfðu verið í þörf fyrir vistun á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Meðal annars var spurt hvort viðkomandi teldi sig geta verið lengur heima nyti hann meiri þjónustu. Af 83 sem svöruðu spurningunni töldu 60 að þeir gætu með góðu móti búið áfram heima með meiri þjónustu en 23 töldu svo ekki vera.

Verið er að vinna úr sambærilegri könnun sem ég lét gera meðal aldraðra í bið eftir hjúkrunarrými í Reykjavík samkvæmt vistunarmati. Meðal annars er spurt um hvaða þjónustu fólkið fær og í hve miklum mæli og einnig er spurt um ýmsar aðstæður og ástæður fólks fyrir því að það sækir um hjúkrunarheimilisvist. Því miður liggja niðurstöður ekki fyrir, en ég bíð þeirra spennt, því með þessu móti fáum við nokkuð greinargóða mynd af aðstæðum aldraðra, þjónustunni sem þeir fá og þar með vísbendingar um hverju má breyta og hvað má bæta.

Enn hef ég vikið frá efninu, þ.e. hjúkrunarheimilum og þjónustunni sem þar er veitt. Á málþinginu í dag verður meðal annars fjallað um hvernig hjúkrunarheimili vinna að markmiðasetningu og eftirfylgd með árangri. Sömuleiðis verður spurt hvað hið opinbera vilji fá fyrir fjármagnið sem það veitir til reksturs hjúkrunarheimila.

Að undanförnu hefur komið fram sú gagnrýni að stjórnvöld viti ekki hvernig þeim fjármunum sé varið sem veitt er til reksturs hjúkrunarheimila og hvaða þjónustu heimilin veiti íbúunum. Vísað hefur verið til stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar um að skilgreina þurfi lágmarksþjónustu og gera þjónustusamninga við hjúkrunarheimilin.

Af umræðunni hefur mátt skilja að hjúkrunarheimili séu rekin eftirlitslítið,  það sé fyrst og fremst ákvörðun stjórnenda þeirra hvernig þeir sinna íbúunum og að daggjöldin, þ.e. rekstrarféð, sé ekki í tengslum við þjónustuna sem veitt er.

Auðvitað vita heilbrigðisyfirvöld hvaða þjónustu þau kaupa af hjúkrunarheimilunum og í hvað rekstrarfénu er ráðstafað. Í lögum um málefni aldraðra kemur fram hvaða grundvallarkröfur eru gerðar til hjúkrunarheimila og hvaða þjónusta skuli veitt. Nánari skilgreiningar á þjónustu koma fram í reglugerð nr. 422/1992 um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu og í skilmálablöðum ráðuneytisins um rekstur og uppbyggingu hjúkrunarheimila aldraðra er fjallað ítarlega um kröfur varðandi aðbúnað og þjónustu. Loks höfum við RAI-mælingarnar sem fjallað er um í reglugerð nr. 546/1995 um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum. RAI-kerfið er mjög mikilvægt tæki, jafnt til þess að setja markmið um gæði og til þess að sinna eftirliti með þjónustu öldrunarstofnana.

Eftirlit með RAI-mælingum á hjúkrunarheimilum er hjá landlæknisembættinu og embættið sinnir jafnframt eftirliti með heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt. Niðurstöður RAI mælinga á hverju heimili gefa vísbendingar um gæði þjónustunnar og gera þannig mögulegt að fylgjast með árangri stofnananna. Ef niðurstöðurnar víkja frá meðaltölum eða gæðavísar benda til ófullnægjandi umönnunar er það skoðað sérstaklega. Þess skal jafnframt getið að fjárveitingar til hjúkrunarheimila eru tengdar við RAI-stuðul hverrar öldrunarstofnunar, þannig að aukið fé fylgir hærri RAI-stuðli.

Í fjölmiðlum  hefur því verið haldið fram að Ríkisendurskoðun hafi í stjórnsýsluúttekt lagt til að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gerði þjónustusamninga við öldrunarstofnanir, en að ráðuneytið hafi hunsað þau tilmæli. Þetta er einfaldlega ekki rétt og kemur hvergi fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Aftur á móti segir í stjórnsýsluúttektinni að ,,telja verði að stjórnvöld ættu að setja fram kröfur um lágmarksþjónustu öldrunarheimila sem rekin eru fyrir opinber framlög, þ.e. magn og gæði þjónustu og aðbúnað íbúa.”

Eins og ég hef áður sagt eru kröfur til þjónustu hjúkrunarheimila og aðbúnaðar íbúa þeirra skilgreindar nokkuð ítarlega í lögum og reglugerðum og skilmálablöðum um rekstur og uppbyggingu hjúkrunarheimila. Ég tel hins vegar að bæta megi eftirlit með hjúkrunarheimilum, bæði til að tryggja betur gæði þjónustu og aðbúnaðar og sömuleiðis til að styðja við gæðastarf á öldrunarstofnunum. Til þess höfum við ágæt tæki í höndunum sem ég tel að unnt sé að nýta betur en við gerum í dag.

Nú eru á lokastigi breytingar á forsendum fyrir útreikningi daggjalda sem leiða til þess að daggjöld stighækka samkvæmt veldisvísi eftir því sem RAI-stigafjöldinn er hærri. Þannig verður meira tillit tekið til hjúkrunarþyngdar en áður við ákvörðun daggjalda. Sömuleiðis eru sett ákveðin viðmið um mönnun í reiknilíkaninu og munu daggjaldagreiðslur taka mið af þeim. Ef mönnun hjúkrunarheimilis fer mikið undir þessi viðmið gefur það tilefni til að fara í saumana á mönnuninni hjá viðkomandi stofnun.

Við eigum tæki sem nýst geta jöfnum höndum við eftirlit, uppbyggingu þjónustu og gæðastarf og við þurfum að nota þau vel. Við þurfum að svara breyttum kröfum til aðstæðna og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum og vinna markvisst að breytingum. Að þessu er stefnt í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og margvísleg verkefni eru hafin eða í undirbúningi sem munu hafa áhrif á framtíðaruppbyggingu hjúkrunarheimila og rekstur þeirra.

Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri öldrunarmála, sem tekur til máls nú á eftir mun fara nánar yfir þau verkefni sem unnið er að í ráðuneytinu á þessu sviði og þá framtíðarsýn sem við byggjum á.

Sjálf ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri og lýsi málþingið sett.


Talað orð gildir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum