Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hert lög um efnistöku úr eldri námum

Síðastliðið vor voru samþykktar breytingar á lögum um náttúruvernd sem fela það í sér að sækja verður um framkvæmdaleyfi til viðkomandi sveitarstjórnar vegna töku efnis úr eldri námum, þ.e. námum þar sem efnistaka var hafin fyrir 1. júlí 1999.

Við setningu náttúruverndarlaga árið 1999 var sett að skilyrði að öll ný efnistaka skyldi háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórna og tryggt að sveitarstjórnir og önnur stjórnvöld á borð við Umhverfisstofnun gætu haft áhrif á hvernig efnistaka færi fram í nýjum efnistökusvæðum. Áður en leyfi til efnistöku er veitt skal t.d. afla umsagnar náttúruverndarnefndar og Umhverfisstofnunar í þeim tilgangi að tryggja að efnistaka fari ekki fram á stöðum sem hafa augljóst náttúruverndargildi. Vafi hefur hins vegar leikið á því hvort þessi ákvæði náttúruverndarlaga næðu til þeirra efnistökusvæða þar sem efnistaka var hafin fyrir gildistöku laganna þann 1. júlí 1999. Því hefur efnistaka farið þar fram án þess að stjórnvöld hafi getað sett skilyrði um framkvæmd hennar með tilliti til umhverfisins, t.d. um umfang efnistöku og frágang svæðisins eftir að efnistöku er lokið. Því miður hefur merkum náttúrufyrirbrigðum verið spillt á undanförnum árum og áratugum og þær gjörðir verða ekki aftur teknar. Með breytingum á náttúruverndarlögum nú er ætlunin að ná stjórn á öllum námum í landinu þar sem sömu reglur munu gilda um gamlar námur og nýjar. Með þessum breytingum er ekki ætlunin að koma í veg fyrir efnistökuna heldur fyrst og fremst að tryggja virkt eftirlit af hálfu nátturuverndaryfirvalda og vönduð vinnubrögð þannig að efnistakan fari fram eins og kostur er í sátt við umhverfið.

Frá 1. júlí 2008 þarf framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar fyrir efnistöku í gömlum námum sem eru yfir ákveðnum stærðarmörkum sem tilgreind eru í lögunum. Gert er ráð fyrir að lög um mat á umhverfisáhrifum taki einnig til þessara náma. Það þýðir að tilkynna ber efnistökuna til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um hvort hún skuli fara í mat á umhverfisáhrifum. Eftir 1. júlí 2012 þurfa allar starfandi námur framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar óháð stærð svæðisins eða umfangi efnistökunnar. Eftir þann tíma eiga því sömu reglur að gilda um allar námur í landinu.

Áætlað er að heildarnotkun jarðefna hér á landi sé um 8 milljónir rúmmetra á ári og að þar af séu um 60% notuð til vegagerðar. Auk þess er jarðefni notað við stíflugerð, hafnargerð, í steinsteypu og í hvers konar fyllingar við gerð mannvirkja. Flokka má jarðefni í tvo meginflokka, annars vegar efni sem unnin eru úr lausum jarðlögum og hins vegar efni sem unnin eru úr föstum berggrunni. Sandur og möl eru algengustu jarðefni sem unnin eru úr lausum jarðlögum en efni sem unnin eru úr berggrunni eru að mestu úr basalti. Um 80-90% jarðefna eru unnin úr lausum setlögum. Í námuskrá Vegagerðarinnar eru nú skráðar 3.040 námur og nýting jarðefna er mikilvæg forsenda byggðar í landinu enda eru veruleg verðmæti fólgin í þeim og virðisauki í vinnslu þeirra og flutningi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum