Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heimilislausir fá þak yfir höfuðið

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík, undirrituðu í dag, 20. desember 2006, samstarfssamning um stofnun og rekstur heimilis fyrir heimilislausa í Reykjavík.

Samningur undirritaður um heimili fyrir heimilislausaSamstarfssamningurinn felur í sér að félagsmálarráðuneytið og Reykjavíkurborg standa sameiginlega að því að koma á fót heimili fyrir heimilislausa í Reykjavík. Á heimilinu verður rúm fyrir 10 heimilismenn samtímis, sem hvergi eiga höfði sínu að að halla og geta ekki nýtt sér önnur úrræði. Heimilisfólki verður boðið uppá almenna og sérhæfða heilbrigðis- og hjúkrunarþjónustu og heildstæða félagslega ráðgjöf og stuðning til þess að ná tökum á lífi sínu, meðal annars að sækja áfengis- og fíknefnameðferð. Ekki er skilyrði fyrir dvöl á heimilinu að viðkomandi hætti neyslu.

Félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg munu á samningstímanum verja á bilinu 150 til 160 milljónum króna til stofnunar og rekstrar þessa heimilis. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára. Af hálfu félagsmálaráðuneytisins er verkefnið hluti af átaki til eflingar þjónustu við geðfatlað fólk sbr. stefnumótun og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins 2006-2010.

Skipulag þjónustunnar sem heimilið veitir byggist á niðurstöðum nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði og skilaði áliti í október 2005. Verkefni nefndarinnar var að taka saman yfirlit yfir þann fjölda einstaklinga sem er húsnæðislaus og á ekki í nein hús að venda, kanna þær aðstæður sem fólkið býr við og setja fram áætlun um samstillt viðbrögð til úrbóta.

Félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg leggja mikla áherslu á samvinnu og samráð allra þeirra aðila sem málið varðar. Óskað verður eftir aðild heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis, heilsugæslunnar og lögreglunnar í Reykjavík að stýrihópi heimilisins ásamt fulltrúum frá félagsmálaráðuneytinu og velferðarsviði Reykjavíkurborgar sem fer með formennsku í stýrihópnum.

Ávarp félagsmálaráðherra við þetta tækifæri hefur verið birt á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum