Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. desember 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samningur um þjónustu við fatlaða á Norðurlandi vestra

Nýr þjónustusamningur milli félagsmálaráðuneytis og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra – málefni fatlaðra (SSNV málefni fatlaðra) var staðfestur í gær, þriðjudaginn 19. desember 2006, á Löngumýri í Skagafirði, með undirritun Magnúsar Stefánssonar félagsmálaráðherra og Adolfs H. Berndsen, formanns SSNV.

Þjónustusamningur um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra undirritaðurSamningurinn er gerður til 6 ára, frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2012. Félagsmálaráðuneytið skuldbindur sig til að leggja u.þ.b. 1900 milljónir króna til verkefnisins á þeim tíma. Samtök sveitarfélaga taka að sér að veita fötluðum börnum og fullorðnum á starfssvæði sínu þá þjónustu sem er á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.

Umsjón og framkvæmd samningsins verður í höndum SSNV málefna fatlaðra. Verkefnisstjóri er Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir.

Með samningnum ákveða félagsmálaráðuneytið og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV málefni fatlaðra) að halda áfram því mikilvæga samstarfi sem hófst í apríl 1999.

„Það er til marks um þá reynslu og það traust sem hefur skapast á milli aðila að samningurinn gildir nú til sex ára, allt til ársins 2012," sagði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í ávarpi sínu við undirritun samningsins. „Það má raunar einnig hafa til marks um þau viðhorf sem stöðugt vex fylgi að þjónusta við fatlaða sé best komin í heimabyggð fólks, hjá sveitarfélögunum eða samlögum þeirra."

Meginmarkmið samningsins er að samþætta þjónustu við fatlaða í heimabyggð og fella hana eins og framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila, færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni. Þetta er gert með meiri skilvirkni, betri nýtingu fjármuna og auknum þjónustugæðum að leiðarljósi.

„Það er meðal nýmæla í þessum samningi að hann grundvallast meðal annars á nýrri stefnu félagsmálaráðuneytisins um þjónustu við fötluð börn og fullorðna sem nú er í burðarliðnum," sagði Magnús Stefánsson.

Samhliða undirrituninni kynnti Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, ný drög að stefnu í þjónustu við fötluð börn og fullorðna 2007 – 2016.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum