Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Formleg opnun skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga

Ágætu gestir.

Samþykkt á lögum um Fæðingar- og foreldraorlof fyrir sex árum verður þegar frá líður minnst sem merkilegra tímamóta í þágu jafnréttis- og fjölskyldumála. Með lögunum fengu feður sjálfstæðan rétt til fæðingar- og foreldraorlofs. Frá árinu 2003 hefur hann verið þrír mánuðir. Mæður hafa frá gildistöku laganna sama rétt og þar að auki hafa foreldrarnir þrjá mánuði sem þeir geta skipt með sér. Foreldrum eru tryggð 80% af meðaltali heildarlauna áður en þau fóru í fæðingarorlof og það má nýta í allt að 18 mánuði frá fæðingu, frumættleiðingu eða þess að barn var tekið í fóstur. Þeir sem ekki eru á vinnumarkaði eða vinna minna en 25% fá greiddan fæðingarstyrk.

Á grundvelli laganna var stofnaður sérstakur sjóður til að annast greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi, Fæðingarorlofssjóður. Tekjur sjóðsins eru ákveðinn hundraðshluti af tryggingagjaldi sem atvinnurekendur greiða af útborguðum launum. Rekstur sjóðsins hefur verið á vegum Tryggingastofnunar ríkisins. Á því varð breyting við þessi áramót.

Á sínum tíma var samstaða um að vista þetta málefni í félagsmálaráðuneytinu. Annar kostur hefði getað verið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sem hefur frá árinu 1969 farið með almannatryggingar. Ástæðan fyrir því að félagsmálaráðuneytinu var falið að fara með forræði þessa málefnis byggist á jafnréttis- og vinnumálasjónarmiðum sem eru málaflokkar ráðuneytisins. Markmið laganna um fæðingar- og foreldraorlof er að jafna ábyrgð foreldra á börnum og gera þá jafnsetta að því er varðar þátttöku í atvinnulífinu. Tengingin við vinnumarkaðinn hefur frá upphafi verið öllum ljós. Þess vegna var það tímabundin lausn að fela Tryggingastofnun ríkisins rekstur Fæðingarorlofssjóðsins.

Vinnumálastofnun varð til við setningu laga um vinnumarkaðsaðgerðir árið 1997. Hún er því ung að árum og hefur á skömmum tíma þurft að takast á við margvísleg verkefni. Á fyrstu starfsárunum var það forgangsverkefni hjá stofnuninni að bregðast við óvenjumiklu atvinnuleysi sem hafði verið vandamál allt frá árinu 1992. Þetta var gert með átaksverkefnum, oft í samvinnu við sveitarfélög, og með margvíslegum aðgerðum til að liðsinna atvinnulausu fólki með því að styrkja stöðu þess á vinnumarkaðnum, t.d. með endurþjálfun og starfsmenntun.

Með markvissri atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar dró úr atvinnuleysinu og er nú svo komið að það er hverfandi þegar á heildina er litið. Þessi gleðilega breyting hefur gert það að verkum að Vinnumálastofnun hefur betra svigrúm en áður að bæta við sig verkefnum. Þar af leiðandi þótti tímabært að hrinda í framkvæmd upphaflegu markmiði um að tengja starfsemi Fæðingarorlofssjóðsins  við vinnumálin og færa hann til Vinnumálastofnunar.  Þessu markmiði hefur nú verið náð.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, Karli Steinari Guðnasyni, og starfsfólki hans, fyrir rekstur Fæðingarorlofssjóðsins sl. rúmlega fimm ár. Samstarf og samvinna við Tryggingastofnun hefur á þessum tíma verið eins og best er á kosið.

Um allt land er með marvíslegum aðgerðum hlúð að atvinnulífinu og ekki síst smáiðnaði og ýmiss konar þjónustu. Liður í þessari stefnu er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að setja starfsemi Fæðingar- og foreldraorlofssjóðs niður hér á Hvammstanga.

Með starfsemi Fæðingarorlofssjóðs skapast störf fyrir níu manns. Þetta skiptir máli fyrir sveitarfélag eins og Húnaþing vestra og auk þess eru afleidd áhrif þó nokkur. Huglægu áhrifin eru heldur ekki óveruleg. Í stað þess að þurfa að horfa á bak störfum er verið að snúa þróuninni við. Þetta gefur fólki trú á framtíðina og eykur því hugrekki til að leita nýrra tækifæra.

Þær raddir hafa heyrst að við flutninginn muni þjónusta sjóðsins verða lakari en áður. Hér er vert að hafa í huga að á vegum Vinnumálastofnunar eru starfræktar átta svæðisskrifstofur í öllum landshlutum. Með flutningi Fæðingarorlofssjóðs til Vinnumálasstofnunar fá þjónustuskrifstofur hennar á landsbyggðinni aukið hlutverk. Þær annast þjónustu fyrir Fæðingarorlofssjóð með sama hætti og þær annast aðra starfsemi á vegum Vinnumálastofnunar. Sem dæmi má nefna að þjónustuskrifstofan á Engjateigi í Reykjavík svarar í síma fyrir sjóðinn. Þannig er hægt að koma við samstarfi og samnýtingu starfsmanna með tilheyrandi samlegðaráhrifum.

Þetta er einungis fyrsta skrefið af mörgum. Þegar hefur verið ákveðið að færa hluta af starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs til Skagastrandar. Um er að ræða útreikninga á atvinnuleysisbótum. Starfssemin á Skagaströnd nýtist þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar  um allt land.  Með henni færist umsýsla atvinnuleysisbóta á einn stað og ætti afgreiðslan að verða enn skilvirkari og eftirlit auðveldara. Með þessu skapast nokkur störf á Skagaströnd.

Mér finnst ástæða til að minna á að forsenda fyrir uppbyggingu starfsemi af þessu tagi eru góðar samgöngur og greið fjarskipti. Hér skiptir auðvitað miklu máli sú stefna sem mörkuð hefur verið um uppbyggingu háhraðanetsins um land allt. Hún skapar ný tækifæri fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Opnun starfsemi Fæðingarorlofssjóðs hér á Hvammstanga er gott dæmi um þetta.

Það er ljóst að flutningur sem þessi gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að finna húsnæði og ráða starfsfólk og gera fjölda annarra hluta. Ég vil færa stjórn Vinnumálastofnunar, Gissuri Péturssyni forstjóra og öllu starfsfólki stofnunarinnar sérstakar þakkir fyrir það hvernig hefur verið haldið á málum. Ég fæ ekki betur séð en að niðurstaðan sé eins og best verður á kosið. Einnig vil ég færa Sigurði P. Sigmundssyni sérstakar þakkir en hann var í forystu fyrir starfshópi sem hafði umsjón með flutningnum.

Þá vil ég þakka heimafólki hér gott samstarf við undirbúning og hve jákvæð viðhorf eru hér gagnvart þessu máli.

Ég vil einnig óska Leó Erni Þorleifssyni, nýjum forstöðumanni Fæðingarorlofssjóðs, og hans starfsfólki allra heilla í störfum sínum fyrir sjóðinn.

Ég ber þá von í brjósti að þessi ráðstöfun efli atvinnu- og menningarlíf ekki eingöngu hér á Hvammstanga heldur einnig í öllum fjórðungnum.

Með þeim orðum lýsi ég því formlega yfir að skrifstofa Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga hefur verið opnuð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum