Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. janúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra um skipulagsmál á Hornströndum

Bæjarstjóri, góðir ráðstefnugestir.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér á Ísafirði til þess að ræða um skipulagningu friðlandsins á Hornströndum og framtíð þess. Nú eru liðin rúm 30 ár síðan svæðið var friðlýst á grundvelli laga um náttúruvernd. Hornstrandafriðland var árið 1975 tuttugasta og sjöunda svæðið sem friðlýst var til náttúruverndar. Í dag er það eitt af 95 friðlýstum svæðum á landinu og það fjórða stærsta, um 58.000 hektarar. Það gegnir mikilvægu hlutverki í neti verndarsvæða, sem unnið er að því að koma upp til þess að tryggja verndun íslenskrar náttúru og náttúruminja sem teljast sérstakar, sjaldgæfar eða í hættu hér á landi. Friðlandið er eitt af fáum stórum friðlýstum strandsvæðum og er m.a. sérstætt fyrir fuglabjörgin og að það nær upp á vestfirsku hásléttuna, yfir nokkra firði og vistkerfi. Við fáum nánari upplýsingar um lífríki friðlandsins hér á eftir en ég tel mikilvægt að nefna gildi svæðisins fyrir svartfugl og sem rannsóknarsvæði á lifnaðarháttum og atferli refa í villtri náttúru.

Ég tel að vestfirðingar hafi verið framsýnir þegar þeir samþykktu tillögu Náttúruverndarráðs á sínum tíma um að friðlýsa Hornstrandir. Svæðið nýtur sífellt meiri vinsælda meðal íslenskra og erlendra ferðamanna sem göngu- og útivistarland, þrátt fyrir “erfiðleikana” við að komast þangað. Sérstaða svæðisins byggist meðal annars á því að hvorki búseta né búfjárbeit hefur verið á svæðinu í rúmlega hálf öld. Gróðurfar er þess vegna óvenju gróskumikið.

Með friðlýsingunni var tekin ákvörðun um það að nýta landið til náttúruverndar útivistar og annarar ferðamennsku. Skipulagning svæðisins hlýtur að mati ráðuneytisins að taka fyrst og fremst mið að því. Það er hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að landið er í einkaeigu og þess vegna nauðsynlegt að við skipulagningu svæðisins verði tekið á því hvernig sumarhúsabyggðin geti þróast. Huga þarf að skipulagi gönguleiða, skála, tjaldsvæða og annarri aðstöðu fyrir ferðamenn. Skilgreina þarf verndarmarkmið svæðisins í heild og deilimarkmið eftir svæðum til þess að varðveita það sem sérstætt er í náttúru svæðisins og til þess að jafna út áhrif ferðamennsku. Í því sambandi er vert að hafa í huga að náttúruvernd er jafnan skipt upp í þrjá mismunandi þætti þ.e. félagslega-, vísindalega- og hagræna náttúruvernd, sbr. 1 grein náttúruverndarlaganna þannig að verndarkröfur og verndarþarfir geta verið mismunandi eftir svæðum

Í upphafi máls míns minntist ég á að Hornstrandafriðland gegni mikilvægu hlutverki í neti verndarsvæða. Í náttúruverndaráætlun 2004-2008 var m.a. lögð áhersla á að styrkja friðun sjófuglabyggða, þannig að til viðbótar Hornstrandafriðlandi, Skrúði, Ingólfshöfða, Dyrhólaey, Eldey og eyjum Breiðafjarðar, sem eru friðuð í dag, er nú unnið að friðlýsingu Látrabjargs og Rauðasands ásamt Vestmannaeyjum. Með þessu má segja að helstu fuglabjörg landsins verði friðuð og stór hluti sjófuglastofna landsins verpi á friðlýstum svæðum. Það sama er ætlunin að gera með aðra þætti íslenskrar náttúru, þar með eru taldar jarðfræðiminjar og landslag, þannig að helstu og mikilvægustu náttúruminjar landsins njóti verndunar í neti friðlýstra svæða. Það eru alls 14 svæði á náttúruverndaráætlun sem miða að því að auka verndun nokkurra fuglategunda, plöntutegunda og jarðfræðilega mikilvægra svæða.

Hluti náttúruverndaráætlunar er stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og mælti ég í upphafi vikunnar fyrir frumvarpi á Alþingi um stofnun þjógarðsins. Samkvæmt frumavarpinu er gert ráð fyrir rúmlega 13.000 ferkílómetra þjóðgarði sem næði þvert í gegnum landið frá Skeiðarársandi til Öxarfjarðar, yfir allan Vatnajökul og nokkur aðliggjandi svæði umhverfis jökulinn. Megin markmið þjóðgarðsins er að vernda landslag og jarðfræðilegar minjar um samspil eldvirkni og íss. Á þessu svæði er fjöldi jarðfræðilegra náttúruminja sem eru einstakar í heiminum og líklegt er að í framtíðinni verði sóst eftir því að þjóðgarðurinn fái sæti á heimsminjalista Sameinuðu þjóðanna.

Í tillögum Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins var tillaga um nýtt friðland sunnan Hornstrandafriðlands suður fyrir Drangajökul sem næði yfir suður hluta Jökulfjarða, Snæfjallaströnd, Kaldalón og Drangaskörð, Bjarnarfjörð, Reykjarfjörð og Furufjörð við Húnaflóa. Tillagan var ekki sett inn á náttúruverndaráætlun Alþingis árið 2004, enda kom þá í ljós að hugmyndir um stækkun voru ekki til umræðu hjá landeigendum. Náist samkomulag um stækkun friðlands á milli sveitarfélaga, landeigenda og annarra sem hagsmuna eiga að gæta, er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu umhverfisráðuneytis að auglýsa stækkun friðlandsins enda Hornstrandir og Jökulfirðir áhugaverð til friðunar sem friðsælt útivistarsvæði en ekki síður vegna landslags þar sem Drangajökull, nyrsti stóri jökull landsins er nálægur og augljóst kennileiti.

Nú eru 4 ár  frá því að Umhverfisstofnun gerði samning við Ísafjarðarbæ um landvörslu og umsjón með friðlandinu á Hornströndum. Samningurinn var einn sá fyrsti sem stofnunin gerði við sveitarfélag og var hann gerður í tilraunaskyni. Það virðist vera einhugur um að þetta hafi gefist mjög vel. Í kjölfarið hafa verið gerðir umsjónarsamningar við fleiri sveitarfélög. Það mikilvægt að heimamenn finni til ábyrgðar gagnvart friðlýstum svæðum og hafi með höndum umsjón þeirra og öðlist þannig meiri skilning á tilgangi og innbyrðis tengslum friðlýstra svæða. Jafnframt er það mikilvægt til þess að einfalda samræmingu milli verndaráætlana friðlýstra svæða og skipulagsmál sveitarfélaganna.  Í dag er tryggt fjármagn fyrir landvörslu einungis yfir hásumarið í 8-12 vikur.  Ég sé fyrir mér að landvarslan aukist og nái einnig yfir haustið og vorið.  Reyndar teldi ég hyggilegast að landvörður Hornstrandafriðlands væri starfandi allt árið og hann nýttist þannig einnig til stefnumótunar og samráðs við landeigendur og sumarhúseigendur svo og ferðaþjónustuaðila.

Hornstrandafriðland hefur notið mikilla vinsælda á meðal göngufólks og aukning ferðalanga mun halda áfram rétt eins og spár ferðaþjónustunnar gera ráð fyrir í öllum greinum ferðamennsku.  

Vaxtarsamningur Vestfjarða var undirritaður í ársbyrjun 2005.  Með honum fylgir gagnabanki eða tillögusafn sem unnið var af heimamönnum í aðdraganda samningsins.  Ein þeirra tillagna sem þar voru unnar er rannsóknar- og þekkingarstofa, Hornstrandastofa, sem starfrækt yrði í tengslum við starfsemi Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík og upplýsingamiðstöð ferðamála á Ísafirði.  Hlutverk Hornstrandastofu er samkvæmt tillögunni að tryggja frekari rannsóknir á sérstöðu friðlandsins á Hornströndum og aðliggjandi landsvæðum s.s. Jökulfjörðum og Snæfjallaströnd. 

Í mínum huga er skiptir miklu að auka þjónustu- og upplýsingagjöf auk þess sem mikilvægt er að sem mest af þeim rannsóknum sem gerðar eru í tengslum við Hornstrandir fari fram hér fyrir vestan og óhjákvæmilegt annað er að Náttúrustofa Vestfjarða gegni þar auknu hlutverki Samkvæmt vaxtarsamningnum getur frumkvæðið að aukini landvörslu eða Hornstrandastofu komið hvort heldur sem er frá umhverfisráðuneytinu eða Ísafjarðabæ. Við eigum að taka höndum saman og ég er reiðubúin að leggja mig fram um að ná fram þeim markmiðum um eflingu starfsemi hér í tengslum við Hornstrandafriðland.

Að lokum óska ég okkur öllum að þessi ráðstefna verði bæði gagnleg og uppbyggileg fyrir það einstaka landsvæði sem eyðibyggðirnar á Hornströndum og í Jökulfjörðum eru.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum