Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. janúar 2007 Innviðaráðuneytið

Jarðgangaleið yrði tveimur til þremur milljörðum dýrari

Í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta, fréttablaði Vegagerðarinnar, ber Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, saman kostnað við tvær leiðir fyrir nýbyggingu á kafla Vestfjarðavegar í Gufudalssveit. Segir hann jarðgangaleið munu verða tveimur til þremur milljörðum króna dýrari en fyrirhuguð leið um utanverðan Þorskafjörð og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Í ráði er að endurbyggja 20 til 30 km kafla Vestfjarðavegar um Gufudalssveit og hefur Vegagerðin eftir athugun á nokkrum kostum kynnt svonefnda leið B. Liggur hún um utanverðan Þorskafjörð, Teigsskóg, á þverunum yfir Djúpafjörð og Gufufjörð og tengist núverandi vegi á Skálanesi. Þessi vegarkafli er 26,5 km langur milli Þórisstaða í Þorskafirði og Eyra í Kollafirði. Fyrirhuguð framkvæmd var kærð og nýverið felldi umhverfisráðherra þann úrskurð að leið B væri heimil með ákveðnum mótvægisaðgerðum, ekki síst vegna Teigsskógar. Áætlaður kostnaður Vegagerðarinnar við þessa leið er 2,3 til 2,5 milljarðar.

Í grein Hreins Haraldssonar er bent á að í framhaldi af þessum úrskurði hafi vaknað umræða um að leggja mætti veginn í jarðgöng undir Hjallaháls, um svipað vegarstæði og nú er um Ódrjúgsháls og í önnur göng undir Gufudalsháls. Þessi leið yrði nokkru styttri eða um 20 km. Kostnað við þessa leið áætlar Hreinn um 5,4 milljarða króna. Þar af er kostnaður við jarðgöng um 4,6 milljarðar. Í þessum áætlunum er miðað við tvíbreið göng eins og staðlar Vegagerðarinnar í dag gera ráð fyrir.

Hreinn kemst því að þeirri niðurstöðu að jarðgangaleiðin myndi kosta um þremur milljörðum króna meira en leið B. ,,Það er of mikill munur til að hægt sé að taka jarðgöng með sem raunhæfan valkost,” segir Hreinn en bendir jafnframt á að sé einungis miðað við göng undir Hjallaháls, sem kosta myndu um 3 milljarða, yrði sú jarðgangaleið um tveimur milljörðum króna dýrari og þremur km lengri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum