Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. febrúar 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra vill heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um sjóðinn og hlutverk hans.

Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður með lögum árið 1981 í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu um allt land og byggingu húsnæðis fyrir aldraða. Sjóðurinn er fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem lagt er á skattskylda einstaklinga samkvæmt lögum um tekjuskatt og er kr. 6.314 fyrir árið 2007.

Uppbygging öldrunarþjónustu

Samkvæmt lögum skal Framkvæmdasjóður aldraðra ,,stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.” Í 9. gr. laga um málefni aldraðra kemur fram að fé úr sjóðnum skuli varið til:

  1. Byggingar þjónustumiðstöðva, dagvista og stofnana fyrir aldraða.
  2. Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða.
  3. Viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila.
  4. Reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, sbr. 14. gr. laga um málefni aldraðra.
  5. Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.

Frá stofnun sjóðsins til ársins 1992 rann allt fé sjóðsins til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Árið 1992 var ákveðið að verja hluta sjóðsins í rekstur öldrunarstofnana og hefur það verið gert fram til þessa, í samræmi við ákvæði 4. töluliðar 9. greinar laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 þar sem fjallað er um hlutverk sjóðsins.

Í júlí 2006 var kynnt niðurstaða nefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um bættan hag aldraða. Ein af tillögum hennar var að það fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra sem varið hefur verið til reksturs stofnana fari alfarið til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Lagt var til að þetta yrði gert að hálfu árið 2007 en kæmi að fullu til framkvæmda árið 2008. Með þessu móti eykst ráðstöfunarfé sjóðsins um u.þ.b. 230 milljónir króna á ári.

Í samræmi við niðurstöðu nefndar stjórnvalda og aldraðra verður hætt að nýta fé í rekstur eins og heimilt er samkvæmt fjórða tölulið. Hins vegar er ekki áformað að breyta lögunum um hlutverk sjóðsins að því er varðar að veita fé til verkefna í samræmi við fimmta tölulið, enda mikilvægt að sjóðurinn geti annast verkefni sem miða að því að efla, bæta og þróa öldrunarþjónustu í landinu.

Í niðurstöðum nefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara frá s.l. sumri er lagt til ,,að áætlanir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um uppbyggingu hjúkrunarheimila verði endurskoðaðar með reglubundnum hætti með hag aldraðra og hagkvæmni í framkvæmdum og rekstri í huga. Sérstaklega verði metið hvort líklegt sé að tilfærsla fjármuna frá framkvæmdum og rekstri hjúkrunarheimila til aukinnar heimaþjónustu frá því sem tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir sé líkleg til að bæta öldrunarþjónustuna. Tillögurnar verði jafnframt kynntar hagsmunafélögum aldraðra, almenningi, sveitarfélögum og þeim sem nú reka hjúkrunarheimili þannig að áætlunum og frumkvæði ráðuneytisins verði komið vel á framfæri.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum