Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

EES-vefsvæði félagsmálaráðuneytisins opnað

Magnús Stefánssonar opnar Brussel-setrið ásamt Stefáni Hauki Jóhannssyni sendiherra og Hermanni SæmundssyniÍ heimsókn sinni í sendiráð Íslands í Brussel í síðustu viku opnaði Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sérstakt vefsvæði, Brussel-setrið, sem tileinkað er þeim málaflokkum EES-samningsins sem varða félagsmálaráðuneytið.

Hermann Sæmundsson, fulltrúi félagsmálaráðuneytisins í sendiráðinu, hefur annast uppbyggingu vefsvæðisins, en tilgangurinn með því er að varpa ljósi á þau EES-mál sem eru efst á baugi hverju sinni á þessu sviði. EES-samningurinn varðar með margvíslegum hætti áhrif á félags- og vinnumál. Nefna má reglur um frjálsa för launþega og bann við mismunun í þeim efnum, vinnuvernd og jafnréttismál. Með vefsvæðinu er gerð tilraun til að segja frá því sem til umfjöllunar er á þessum sviðum á vettvangi Evrópusambandsins og stofnana EFTA, bæði varðandi það sem kann að vera á leið inn í EES-samninginn og eins það sem þegar hefur verið tekið upp í samninginn.

Í opnunarathöfn í sendiráði Íslands í Brussel í síðustu viku kom fram í máli félagsmálaráðherra að vefsvæðið væri tilraunaverkefni sem er enn í þróun, en að það geti engu að síður nýst vel til að gefa yfirsýn. Mikilvægt er að upplýsingar um mál sem varða EES-samninginn séu aðgengileg og sem flestum ljós, ekki síst þegar þau munu hafa bein áhrif á íslenskt samfélag og þannig sé betra að standa vörð um íslenska hagsmuni. Vefsvæðið sé liður í því að styrkja þekkingu og veita upplýsingar, en ábendingar um framtíðarmótun þess eru vel þegnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum